Íslenska fjármálakerfið – framtíðin er björt

Um 250 manns mættu á morgunverðarfund Viðskiptaráðs Íslands þar sem fjallað var um framtíð íslenska fjármálakerfisins og hver leiðarljós uppbyggingar ættu að vera. Aðalræðumaður fundarins var Hans Dalborg, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Nordea Bank, en hann fjallaði um reynslu Svía af enduruppbyggingu fjármálakerfisins þar í landi á níunda áratugnum og þann lærdóm sem Íslendingar gætu dregið af þeirri reynslu. Auk Dalborg héldu erindi Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri og Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME.

2013.9.16_Dalborg 2

Að loknum erindum voru haldnar pallborðsumræður undir stjórn Mörthu Eiríksdóttur, en í panel sátu Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Höskuldur H. Ólafssson, bankastjóri Arion banka, Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Auðar Capital og Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

Ljóst er af erindum og umræðum fundarins að ýmislegt er enn ógert, þrátt fyrir að mikilvægum áföngum hafi verið náð í enduruppbyggingu íslenska fjármálakerfisins. Meginmarkmiðið til framtíðar er að byggja upp stöðugt og sjálfbært fjármálakerfi sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun og hagfelldum rekstrarskilyrðum fyrirtækja. Á þeirri vegferð er mikilvægt að vinna með varfærni, þolinmæði og langtímasjónarmið að leiðarljósi.

Lærum af reynslu annarra
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, opnaði fundinn og talaði um sett markmið og þær breytingar sem þurfa að eiga sér stað í fjármálakerfinu. Meginmarkmiðið hljóti að vera að hér byggist upp sjálfbær og hagkvæmur fjármálageiri. Til þess að svo megi verða sé mikilvægt að dregið verði úr rekstrarkostnaði og fækkað lánum í vanskilum. Ráðherra talaði einnig um eftirlit með fjármálafyrirtækjum og undirstrikaði skoðun sína að leggja beri áherslu á gæði eftirlitsins fremur en umfang þess. Að lokum nefndi fjármálaráðherra markviss skref í átt að afnámi gjaldeyrishafta sem einn mikilvægasta hlekkinn í því að skapa stöðugt fjármálakerfi.

2013.9.16_Dalborg 1 Næstur tók til máls aðalræðumaður fundarins, Hans Dalborg, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Nordea. Dalborg minnti á það að Ísland væri ekki fyrsta ríki heims til þess að ganga í gegnum fjármálakreppu og því geta íslensk yfirvöld lært mikið af reynslu annarra.
Dalborg reifaði aðdraganda þeirrar kreppu sem Svíþjóð gekk í gegnum um og upp úr 1991, þar sem óhætt er að segja að ýmsar hliðstæður hafi verið með fjármálakreppunni hérlendis. Sú aðferðafræði sem beitt var í Svíþjóð fólst í að skipta bönkum upp í góðar og slæmar eignir og stofnaðir voru nýir bankar utan um góðu eignirnar.

Smátt og smátt tók að létta til í sænsku efnahagslífi, en mikil áhersla var lögð á hagsýni og skynsemi. Dalborg talaði um alþjóðlegu fjármálakreppuna og þau viðhorf sem virtust ráða ríkjum í aðdraganda hennar. Í því samhengi minntist hann orða kollega síns sem sagði skömmu fyrir upphaf kreppunnar „as long as the music is playing, we will keep on dancing“ og átti þar við fjármákakerfið og þær áhættusömu fjárfestingar sem þar voru stundaðar. Dalborg svaraði á þennan hátt, „just make sure you dance close to the exit.“ Þetta dæmi taldi hann lýsa því hugarfari sem var ríkjandi.
Hvað uppbyggingu og leiðarljós varðar taldi Dalborg mikilvægt að læra af fortíðinni, en gæta þess að festast ekki þar. Beina ætti sjónum að grundvallaratriðum og undirstöðu framtíðaráforma. Fyrsta skrefið felist alltaf í að taka til heima fyrir og hafa einfaldleikann í fyrirrúmi í þeirri tiltekt.

Stýrum áhættu þar sem ekki er hægt að eyða henni með öllu
Seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, benti á að ekki væri hægt að koma í veg fyrir og eyða áhættu með öllu, en hægt sé að hafa stjórn á henni. Uppskrift að árangri byggist á einföldum og skilvirkum reglum sem snúa að helstu áhættuþáttum, í stað umfangsmikilla og torskilinna reglna. Þannig væri mikilvægt að stuðla að stöðugleika án þess að kæfa drifkraftinn í viðskiptalífinu. Már sagði nýtt íslenskt fjármálakerfi ætti að vera minna og einfaldara, byggja á kjarnastarfsemi banka, tryggja skilvirka miðlun milli sparnaðar og fjárfestingar, hafa nægjanlegt eigið fé og lausafjársvigrúm, takmörkuð alþjóðleg umsvifog sterk þjóðhagsvarúðartæki.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, fjallaði um hlutverk FME í erindi sínu en það er fjórþætt og felst í löggæslu-, eftirlits-, reglusetningar- og stefnumótunarhlutverki. Helstu áskoranir sem framundan séu felast einna helst í losun gjaldeyrishafta, framtíðar eignarhaldi stóru viðskiptabankanna, að gera Íbúðarlánasjóð sjálfbæran og að sjóðssöfnun og ávöxtun lífeyrissjóða standi undir skuldbindingum. Takist vel til þá mun Ísland eiga öflugt atvinnulíf með sterkri grunnþjónustu við borgara þar sem efling verður á menntun og nýsköpun á sem flestum sviðum þjóðlífsins.

Aukin hagræðing, breytt eignarhald og stuðningur við fjárfestingu
Snert var á ýmsum áhugaverðum málum í pallborðsumræðum, en Martha Eiríksdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi, stýrði umræðum um helstu tækifæri og áskoranir íslenskra fjármálafyrirtækja.

Helstu atriði sem fram komu í umræðum voru:

  • Þörf á að minnka kostnað og ná fram aukinni hagræðingu
  • Mikilvægi samkeppni þar sem stórum jafnt sem smáum fyrirtækjum er gert kleift að starfa á fjármálamarkaði
  • Þörf á að búa til heilbrigða, sanngjarna og heiðarlega umgjöð fyrir fjármálafyrirtæki til að starfa í
  • Nauðsyn þess að reglusetning og skattlagning sé innan eðlilegra marka
  • Mikilvægi þess að huga að breytingu á eignarhaldi bankanna og að sú breyting verði með þeim hætti að traust skapist
  • Mikilvægi stuðnings við fjárfestingu í landinu, en hún er of lág og nýsköpun of lítil
  • Ástæða til bjartsýni og mikilvægi þess að fjármálafyrirtæki styðji við hagkerfið og þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir

Í panel voru:
Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka
Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Auðar Capital
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans

Viðskiptaráð Íslands þakkar fundargestum fyrir komuna og fyrirlesurum og þátttakendum í umræðum fyrir gott innlegg í umræðuna um framtíð íslenska fjármálakerfisins.

Á Youtube-stöð Viðskiptaráðs er að finna myndbönd af fundinum:

* Athugið að fleiri myndbönd eru væntanleg inn á spilunarlistann á morgun 

Nálgast má myndir frá morgunverðarfundinum í Flickr myndasafni Viðskiptaráðs.

Tengt efni

Hætt við að íslenskir neytendur beri kostnaðinn á endanum

Viðskiptaráð telur brýnt að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra miðla. ...
7. jún 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Umsögn breytingar á lögum um endurskoðun og ársreikninga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SFF um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...