Er hagvöxtur aukaatriði?

ViðarFjárlagafrumvarp næsta árs leit dagsins ljós nýverið og hefur vakið upp blendin viðbrögð. Mikil umræða hefur spunnist um afmarkaða málaflokka en minna hefur verið fjallað um þá efnahagsstefnu sem frumvarpið felur í sér.

Í grunninn er gert ráð fyrir afgangi á fjárlögum, þrátt fyrir að lítið sé um markverðar kerfislægar breytingar í rekstri hins opinbera. Ekki verður betur séð en að hagvaxtarforsendur frumvarpsins séu verulega bjartsýnar og það kæmi því verulega á óvart ef ekki yrði umtalsverður halli á rekstri hins opinbera árið 2014. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður.

Of skammt er gengið í umbótum á tekjuhlið frumvarpsins ef markmiðið er að styðja við aukin efnahagsleg umsvif. Þar ber helst að nefna að taka hefði átt mun stærri skref í lækkun  tryggingagjalds. Þó ber að geta þess að jákvæð skref eru stigin í átt að breytingum á virðisaukaskattskerfinu með breikkun skattstofna og lækkun skattprósenta.

Meginvandinn liggur á útgjaldahlið frumvarpsins. Í stað þess að gera gangskör í lækkun rekstrarútgjalda sem skapa lítinn virðisauka er höggvið í sama knérunn og fyrri ríkisstjórn gerði með flötum niðurskurði og lækkun fjárfestingarútgjalda. Þessi stefna gengur þvert gegn þeim forsendum sem byggja undir hagvöxt. Arðbærar fjárfestingar í helstu innviðum myndu styðja við atvinnustig og hagvöxt í mun ríkari mæli en fyrirliggjandi aukning rekstrarútgjalda. Á tímum þar sem einkageirinn vinnur að niðurgreiðslu skulda er mikilvægt að hið opinbera beini útgjöldum sínum í þá þætti hagkerfisins sem leggja grunn að sjálfbærum hagvexti.

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company, sem fjallar m.a. um samband niðurgreiðslu skulda og hagvaxtar, eru Svíþjóð og Finnland tekin sem dæmi um lönd sem rekið hafa skynsamlega fjármálastefnu í kjölfar fjármálakreppu þeirra og búsifja í afkomu hins opinbera sem kreppunni fylgir. Þar er varað sérstaklega við að hið opinbera dragi úr hagvaxtarhvetjandi útgjöldum, s.s. arðbærum fjárfestingum í innviðum, fyrr en ákveðin skilyrði eru uppfyllt.

Þar til eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt, er því ólíklegt að ómarkviss, flatur niðurskurður og lækkun fjárfestingarútgjalda skili raunverulegum bata í rekstri hins opinbera:

  • Ná þarf árangri í átt að fjármálastöðugleika. Í því samhengi telur Seðlabanki Íslands að ágætlega hafi miðað áfram, en kerfið sé ennþá viðkvæmt vegna erlendra afborgana fyrirtækja og bágrar stöðu Íbúðalánasjóðs.
  • Leggja þarf fram trúverðuga langtímaáætlun um sjálfbærni í ríkisrekstri. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar liggja fyrir áætlanir um að ná jöfnuði og draga úr skuldum, sem er vel, en forsendur um hagvöxt og tímasetningar eru umdeilanlegar.
  • Ráðast þarf í kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti. Verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld hefur lagt fram umfangsmiklar tillögur af þessu tagi en ekki er ljóst í hversu ríkum mæli þær koma til framkvæmda.
  • Fjórði þátturinn snýr að styrk útflutningsgreina. Lögð er áhersla á að útflutningur hafi tekið við sér, en veikt raungengi hefur styrkt samkeppnisstöðu Íslands og m.a. skilað sér í gífurlegri fjölgun ferðamanna með jákvæðum áhrifum á gjaldeyristekjur Íslands.
  • Að lokum er lögð áhersla á að atvinnuvegafjárfesting og húsnæðismarkaðurinn hafi tekið við sér að nýju. Atvinnuvegafjárfesting er enn vel undir langtímameðaltali og nýbyggingar íbúðarhúsnæðis hafa verið litlar frá hruni. Þar spila niðurgreiðslur skulda innan einkageirans stærstu rulluna.

Það er ljóst af ofangreindri upptalningu að röng stefna í fjármálum hins opinbera verður ekki bætt upp með styrk einkageirans. Í stöðu sem þessari er mikilvægt að hið opinbera nýti fjármagn skynsamlega þ.e. auki hagræði á sama tíma og fjármagni er varið í hagvaxtarhvetjandi verkefni næsti 2-3 árin.

Í því samhengi er mikilvægara að horfa til þess hvaða útgjöld eru tekin út, heldur en skuldaniðurgreiðslu einnar og sér. Færa má sterk rök fyrir því að markmið um afgang í ríkisfjármálum sem byggir á minni fjárfestingu hins opinbera og sterkum hagvexti innan einkageirans séu óraunhæf. Þvert á móti þyrfti að viðhalda arðbærri fjárfestingu, skera niður óþörf útgjöld og framkvæma kerfisbreytingar sem virkja verðmætasköpun hagkerfisins. Slíkt skapar atvinnu og eflir grundvöll fyrir sterkari uppsveiflu einkageirans þegar skuldsetning innan hans hefur minnkað.

Viðar Ingason, Hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í
Viðskiptablaðinu 17. október, bls. 21

Tengt efni

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
21. mar 2024

Reiðir pennar

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í skattahagfræði, segir Viðskiptaráð fara ...
15. sep 2022

Virkjum fallega

Skiptar skoðanir eru um raforkuframleiðslu á Íslandi. Dæmin sanna að ...
24. ágú 2022