2 vikur í Viðskiptaþing 2014

Nú eru 2 vikur í árlegt Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands. Í ár verður fjallað um það hvort Ísland sé nægjanlega opið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og hvernig efla megi alþjóðageirann á Íslandi. Hvort tveggja eru afar mikilvægar spurningar í tengslum við efnahagslega framvindu landsins á næstu árum og áratugum.

Það liggur því beint við að kynna aðalræðumann Viðskiptaþings 2014 Sven Smit og hvernig þekking hans og reynsla getur nýst til að svara þessum spurningum. Í kjölfarið fylgir stutt umfjöllun um efnistök þingsins.

Skráning á Viðskiptaþing fer fram hér

Hver er Sven Smit?
Sven Smit_vefútgáfaAðalræðumaður Viðskiptaþingsins í ár er Sven Smit, framkvæmdastjóri McKinsey & Company í Evrópu.

Fáir eru betur til þess fallnir að fjalla um vaxtartækifæri innan alþjóðageirans en Sven. Auk þess að stýra starfsemi fyrirtækisins innan Evrópu, leiðir Sven fagsvið McKinsey um vöxt fyrirtækja og hagkerfa (e. Growth Practice) og þekkingarstefnu fyrirtækisins í almennri stefnumótun (e. Strategy Practice).

Í störfum sínum fyrir McKinsey hefur Sven hefur einkum unnið með stórfyrirtækjum í fjarskipta- og hátækniiðnaði, en auk þess hefur hann unnið að stefnumörkun með stjórnvöldum víða um heim. Hann hefur jafnframt ritstýrt fjölda greina um stefnumótun og tækifæri fyrirtækja til vaxtar og er meðhöfundur bókarinnar The Granularity of Growth.

Á þinginu mun Sven nýta reynslu sína til að gefa Íslendingum góð ráð um tækifæri til uppbyggingar alþjóðageirans á Íslandi. Að erindi loknu mun Sven svara spurningum úr sal.

Sven Smit, sem er hollenskur, útskrifaðist sem vélaverkfræðingur frá Delft tækniháskólnum og er með M.B.A. gráðu frá INSEAD. Áður en Sven gekk til liðs við McKinsey & Company starfaði hann við rannsóknir og þróun hjá Phillips.

Hvað er alþjóðageirinn og hvað fellur undir hann?
Á Viðskiptaþingi verður gefið út viðamikið upplýsingarit þar sem fjallað er um hlutverk alþjóðageirans í íslensku hagkerfi og þær meginforsendur sem styðja við eflingu hans. Auk þess inniheldur ritið fjórar dæmisögur af ólíkum alþjóðlegum fyrirtækjum og fjallað er um þau tækifæri og áskoranir sem þau þurfa að takast á við í íslensku efnahagsumhverfi.

Hér má sjá tvær glærur þar sem fjallað er um skilgreiningu á því hvað fellur undir alþjóðageirann og gefa þær hugmynd um innihald og viðfangsefni upplýsingaritsins.

 

Eins og sjá má glöggt á glærunum tveimur hefur alþjóðageirinn snertifleti í öllu hagkerfinu, en til þess að innlend fyrirtæki geti keppt á erlendum mörkuðum þarf rekstrarumhverfið að vera alþjóðlega samkeppnishæft. Á Íslandi hafa innviðir samfélagsins og menntunarstig eflst mikið og sökum smæðar landsins er ákveðinn sveigjanleiki og þróttur til staðar. Lega landsins býður einnig upp á tengsl við marga og fjölbreytta markaði, en helstu áskoranirnar felast í haftaumhverfi sem að verður að teljast óhagstætt fyrir alþjóoðlega starfsemi. Tækifærin eru aftur á móti sannarlega til staðar og það er von Viðskiptaráðs að umræða á Viðskiptaþingi megi nýtast til þess að byggja upp alþjóðlegt atvinnulíf sem svo stuðlar að hagkerfið vaxi á sjálfbæran máta.

Skráning á Viðskiptaþing fer fram hér

Tengt efni

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022

Stígum skrefið til fulls - öllum til hagsbóta

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (mál nr. 470)
2. jún 2022

Að deila ábyrgð

Endahnútur Svanhildar Hólm í Viðskiptablaðinu 22. desember 2021.
22. des 2021