Forstjóri Haga um dóm í máli Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Jón Björnsson, forstjóri Haga, skrifar pistil á heimasíðu Haga í dag um dóm Héraðsdóms í máli Fríhafnarinnar í Leifsstöð frá því í síðustu viku. Pistillinn birtist óstyttur hér fyrir neðan.

Dómur Héraðsdóms frá s.l. fimmtudegi í máli Fríhafnarinnar í Leifsstöð er um margt merkilegur.

Fríhöfnin í Leifsstöð eru allt í öllu í flugstöðinni og er bæði í hlutverki leigusala og leigutaka.  Með þessa sterku stöðu hefur fyrirtækið ákveðið að þeirra eigið fyrirtæki hafi einkaleyfi á að selja áfengi, tóbak og snyrtivörur í Leifsstöð.  Aðrir leigutakar í Leifsstöð voru eðlilega ósáttir við þessa ákvörðun Fríhafnarinnar og ákváðu að fara í mál.  Því miður fyrir frjálsa samkeppni á Íslandi tapaðist málið á þeirri röksemdarfærslu að sérlög um Fríhöfnina væru æðri samkeppnislögum.  Hagar hf. spurðu samkeppnisyfirvöld á sínum tíma út í stöðu Fríhafnarinnar í íslensku markaðsumhverfi en fengu þau svör að samkeppnisyfirvöld litu svo á að Fríhöfnin væri á öðru markaðssvæði og því ekki litið svo á að verslanir í Leifsstöð væru í samkeppni við aðrar verslanir á þessu landi.  Alkunna er hinsvegar að Fríhöfnin telur sig sjálf vera í samkeppni við aðrar verslanir á Íslandi sem dæmi þá gera starfsmenn Fríhafnarinnar reglulega verðkannanir í íslenskum verslunum. 

Á sínum tíma kom það í ljós að lög varðandi landbúnað á Íslandi væru æðri samkeppnislögum og eflaust má færa einhver rök fyrir því þar sem landbúnaður er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar.  Það er þó erfitt að sjá rökin fyrir því af hverju Fríhöfnin þarf að fá sérmeðferð í þessu.  Tæplega er hún lífsnauðsynleg íslensku þjóðlífi.  Lög um fríhafnarverslun eru eldgömul og við lestur þeirra má greina að á þeim tíma sem þau voru sett var innflutningur á erlendu sælgæti líklega bannaður eða bundinn kvótum og talið æskilegt að bjóða fólki þessar vörur í flugstöðinni í stað þess að yfirfylla íslenskar flugvélar af Mackintosh dósum og Winston kartonum.

En þetta er að sjálfsögðu ekki eina sérmeðferðin sem að Fríhöfnin fær en samhliða því að vera verndaðir gegn samkeppni greiðir Fríhöfnin meðal annars  enga tolla, heyrir ekki undir reglur Hollustuverndar og sleppur við að leggja á virðisaukaskatt.  Velta Fríhafnarinnar er liðlega 3 milljarðar og má með sanni færa  að þeir Íslendingar sem fljúga hvað mest fái sérstakan afslátt af brennivíni, tóbaki, ilmvötnum og sælgæti upp á rúmlega einn milljarð.  Spurning hvort ekki væri betra fyrir þjóðfélagið að lækka virðisaukaskattinn almennt svo allir getir notið þess.

Dómurinn er sérstakur í ljósi þess að hann kemur á sama tíma og margir ráðamenn þjóðarinnar tala mikið um það að styrkja þurfi samkeppnislög og samkeppnisyfirvöld og draga úr umsvifum ríkisins.

Það þarf að sjálfögðu ekki að taka það fram að Fríhöfnin er 100% í eigu íslenska ríkisins. 

Jón Björnsson, forstjóri Haga

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023