Raunverulegt val. Eftir Sigþrúði Ármann

Formaður fræðsluráðs Reykjavíkur sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins undrast á að ekki væri búið að setja sérstök lög um einkaskóla. Þessi orð formannsins eru mjög áhugaverð. Á vegum Verslunarráðs hefur starfað menntahópur sem samanstendur af aðilum víða að úr menntageiranum. Er það skoðun Verslunarráðs að breyta þurfi lögum um grunnskóla, því þótt gert sé ráð fyrir einkaskólum í lögunum er ekkert vikið að rétti þeirra sem velja einkaskóla umfram skóla á vegum sveitarfélags. Ekki er ástæða til að setja sérstök lög um einkaskóla heldur eiga lögin um grunnskóla að tryggja fjölbreytt rekstrarform skóla. Hefur Verslunarráð skipað laganefnd til þess að fara grunnskólalögin í heild og mun nefndin skila tillögum að lagabreytingum í vor.

Stefán Jón Hafstein tók það sérstaklega fram að sveitarstjórnarmenn vildu ekki fá fyrirskipun frá ráðuneytinu um það hvaða rekstrarform ætti að vera á grunnskólunum í sveitarfélögunum og hvernig haga ætti skólastefnunni.

Í dag greiðir Reykjavíkurborg lægri upphæð með nemendum í sjálfstæðum skólum og einkaskólum heldur en nemendum í opinberum skólum. Því er ljóst að meirihlutinn í borgarstjórn vill ekki tryggja einkaskólum, sjálfstæðum skólum og opinberum skólum jafnan starfsgrundvöll.

Eins og fram kemur í nýútgefinni skýrlsu Verslunarráðs „Minni ríkisumsvif margfalda tækifærin” geta miklar framfarir átt sér stað á næstu árum í grunnskólamenntun. Skólakerfið þarf að vera fjölbreytt og hannað fyrir notendur þess en ekki fyrir veitendur þess. Börn eru misfljót að tileinka sér ný viðfangsefni og það liggur í augum uppi að námsefni og kennsluhættir sem henta einum þurfa ekki að henta öðrum. Með lagabreytingum gætu ríki og sveitarfélög aukið fjölbreytni í námi með því að heimla skólastjórnendum, kennurum, foreldrum eða sérhæfðum fyrirtækjum að taka við rekstri skóla eða setja á laggirnar nýja. Sveitarfélögum er í lófa lagið að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi skóla og greiða sömu upphæð og þau greiða með hverju barni í opinberum skóla.

Reykjavíkurborg greiðir um 303 þúsund krónur með hverju skólaskyldu barni með lögheimili í Reykjavík en hagstæðasti opinberi skólinn fær greiddar um 367 þúsund krónur. Reykjavíkurborg greiðir aðeins tæpar 235.000 krónur með hverju barni sem stundar nám í einkaskólum eða sjálfstæðum skólum utan Reykjavíkur. Þetta er sama upphæð og Samband íslenskra sveitarfélaga miðar við. Yfirvöld í einstökum sveitarfélögum eiga ekki að setja sig upp á móti umsókn foreldra um að barn sæki skóla utan síns sveitarfélags. Hvatinn af því að reka sjálfstæðan skóla felst í því að gera betur en aðrir skólar en samanburðurinn fæst ekki nema með dómum neytenda.

Garðabær hefur tekið þá ákvörðun að greiða sömu upphæð með börnum í opinberum skólum og sjálfstæðum eða einkareknum skólum og skiptir þá ekki máli hvort skólarnir eru innan Garðabæjar eða utan. Garðabær greiðir nú rúmar 366.000 krónur vegna nemenda í 1. - 6. bekk og rúmar 332.000 krónur vegna nemenda í 7. – 10. bekk. Auk þess sem Garðabær opnar fyrir þann möguleika að skólar fái til viðbótar 50.000 krónur á nemenda til þess að koma til móts við útgjöld vegna húsnæðiskostnaðar. Með þessu framtaki vill Garðabær stuðla að því að skólar í sveitarfélögum keppi um nemendur. Þessi stefna bæjaryfirvalda sýnir að bæjarfélagið vill bjóða íbúum upp á raunverulegt val um leið og settir eru auknir hvatar og aðhald á bæjarfélagið sjálft að bjóða íbúum upp á góða menntun.

Verslunarráð Ísland hefur áður hvatt til þess að sveitarfélög endurskoði þær upphæðir sem greiddar eru með hverju barni í einkaskólum, sjálfstæðum skólum og opinberum skólum. Þannig er tryggt að nemendur og foreldrar barna eigi raunverulegt val.

Sigþrúður Ármann

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Ítalska framsóknarleiðin

„Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs ...
29. ágú 2023

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023