Af samkeppnisrekstri ríkisins -eftir Sigríði Á. Andersen

Einokunarverslun ætlar að verða lífseigt fyrirbæri í íslensku efnahagslífi. Þótt vissulega hafi einokun ríkisins lagst af á ýmsum sviðum er hún enn til staðar á öðrum sviðum og virðist heldur hafa færst í vöxt frekar en hitt. Ríkið virðist vera að koma sér betur fyrir í þeirri verslun sem það enn gín yfir. Dæmi um þetta er verslun ríkisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en þar stundar ríkið smásöluverslun, sem er þó allt annað en smá í sniðum, en jafnframt umfangsmikinn innflutning. Þannig flytur Fríhöfnin í Keflavík meirihluta söluvarnings síns inn sjálf. Um leið hefur Fríhöfnin einkarétt á sölu á þeim varningi sem þar stendur til boða. Þótt verslunum í flugstöðinni hafi fjölgað umtalsvert síðustu ár verður rekstur þeirra að vera einskorðaður við sölu á vörum sem ekki eru til sölu í Fríhöfninni.

 Það er fróðlegt að bera saman aðstöðu ríkisins í þessari verslun við aðstæður þess í almennu áfengisversluninni í landinu.

 Um tíma, stuttu eftir að einkarétti ríkisins til áfengisinnflutnings var aflétt, árið 1995, var ÁTVR þó einnig í áfengisinnflutningi. ÁTVR hætti nefnilega ekki þeim innflutningi þótt einkaréttur þess hefði verið lagður niður. ÁTVR var því í harðri samkeppni við áfengisinnflytjendur og dró sig ekki úr henni fyrr en nokkrum árum síðar eftir athugasemdir samkeppnisyfirvalda. Það er þó í raun ekkert því til fyrirstöðu að ÁTVR stundi áfengisinnflutning en athugasemdir samkeppnisyfirvalda lutu að fjárhagslegum aðskilnaði á þeim samkeppnisrekstri og annarri starfsemi ÁTVR sem er einokunarstarfsemi. Það hefur sjálfsagt verið rétt metið hjá ÁTVR að hægara væri að draga sig hreinlega úr samkeppnisrekstrinum heldur en að gera þær bókhaldsæfingar sem samkeppnisreglur kveða á um. Í dag helgar ÁTVR sig því einungis smásölu á áfengi og innflutningi á tóbaki og gerir það í skjóli einkaleyfis. Þessa dagana er þó unnið að lagabreytingum sem miða að því að fella niður einkarétt ríkisins á innflutningi á tóbaki því hugmyndir eru uppi um að slíkur einkaréttur sé andstæður ákvæðum EES samningsins. Þessu skrefi fagnar Verslunarráð þótt ganga hefði mátt lengra - sjá umsögn VÍ um frumvarpið.

 Í þessu ljósi er áhugavert að velta því fyrir sér hvort Fríhafnarverslun ríkisins eigi ekki að lúta sömu lögmálum og ÁTVR þannig að samkeppnisrekstur Fríhafnarinnar, innflutningurinn, sé fjárhagslega skilinn frá einkaleyfisstarfseminni, smásölunni.

 Annars hafa rökin fyrir rekstri ríkisins á þessari verslun verið tengd rekstri Flugstöðvarinnar. Tekjur af Fríhafnarversluninni eiga þannig að renna í rekstur stöðvarinnar. Spyrja má hvort ekki megi mæta þessari tekjuþörf með öðrum hætti og koma versluninni í flugstöðinni í hendur þeirra sem betur fer á að stundi verslun - nefnilega einkaaðilum.

Sigríður Ásthildur Andersen er lögfræðingur hjá Verslunarráði.

Tengt efni

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023

Orkulaus eða orkulausnir?

Traustir innviðir eru forsenda þess að samfélag og atvinnulíf á Íslandi búi við ...
16. feb 2023

Gengið of langt í afskiptum hins opinbera af verslunarrekstri

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur
7. apr 2022