Ísland ekki vænlegasti kosturinn fyrir erlend fyrirtæki, þrátt fyrir 18% tekjuskatt

Efasemdir um sterka stöðu Íslands í skattamálum fyrirtækja komu fram á morgunverðarfundi Verslunarráðs í morgun. Í erindi Bjarnfreðs Ólafssonar lögmanns kom fram að jafnvel þótt tekjuskattur fyrirtækja hefði verið lækkaður niður í 18%, og sá skattur sé hærri hjá flestum öðrum ríkjum, þá geri ýmis konar takmörkuð skattskylda það að verkum hér á landi að heildarskattbyrði erlendra fyrirtækja hér á landi er jafnmikil og oft hærri en í ríkjunum sem við helst keppum við. Hér er raunskattbyrði þeirra 30,3% en á Írlandi 12,5%. Í Bretlandi 30%. Bjarnfreður benti á að mikilvægt væri að afnema þá skatta sem varla þekkjast erlendis, eins og afdráttarskatt og eignaskatt fyrirtækja.

Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Verslunarráðs tók undir þetta sjónarmið og benti á ýmsan annan kostnað sem viðskiptalífið verður fyrir, einkum kostnað vegna eftirlits hins opinbera. Þá velti Þór því fyrir sér hvort verið geti að forsætisráðherra hafi haft lög að mæla þegar hann varpaði því fram í viðtali við Morgunblaðið að íslenskt þjóðfélag væri að verða reglustikaðra. Tók Þór sem dæmi að svo virtist sem embættismannakerfið væri í einhverjum tilvikum að taka upp gamla siði sem einkennast af hroka gagnvart viðskiptalífinu.

Pétur H. Blöndal þingmaður og formaður Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fór í sínu erindi yfir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Hann benti á skatttekjur ríkisins ykjust auðvitað ekki í réttu hlutfalli við skattlagninguna. Pétur telur 18% tekjuskatt fyrirtækja íslenskum fyrirtækjum til framdráttar, miðað við erlent skattumhverfi, og að því leyti var Pétur nokkuð jákvæðari en Bjarnfreður á kosti íslensks skattumhverfis. Pétur benti hins vegar á að til að lækka skatta þarf að einfalda skattkerfið en ekki bæta hverri sérreglunni við á eftir annarri. Þannig sagðist Pétur ekki telja það rétta þá leið sem Írar hafa farið að búa einstökum greinum sérskilyrði, eins og rannsóknargreinum, heldur sé miklu nær að veita öllum fyrirtækjum hagstæðari skilyrði. Pétur setti skilmerkilega fram á glærum sínum kosti og galla við íslenskt fyrirtækjaumhverfi í samanburði við erlent.

Fram kom einnig að menn mættu ekki leggja áherslu eingöngu á að laða að hin erlendu fyrirtæki til Íslands. Það þyrfti líka að spyrja þeirrar spurningar af hverju svo mörg íslensk eignarhaldsfyrirtæki kysu að vera erlendis. Skattkerfið væri auðvitað lykilatriði í þeirri ákvörðun fyrirtækjanna.

Hér er ræða Þórs Sigfússonar.

Hér er glæra Péturs H. Blöndal.

Hér er glæra Bjarnfreðs Ólafssonar.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa ...
31. maí 2023

Tölur í tóma­rúmi og tíma­bundni banka­skatturinn

Skýrasta tækifærið til að bæta kjör landsmanna er að lækka bankaskattinn enn ...
16. maí 2023