Hvernig kemst Ísland úr 5. í 3. sæti?


Háskólinn í  Reykjavík
  hefur kynnt niðurstöður skýrslu IMD viðskiptaháskólans í Lausanne um samkeppnishæfni þjóða (World Competitiveness Yearbook 2004).   Skýrslan sýnir berlega að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur batnað til muna á undanförnum áratug.  Afleiðingar þessarar þróunar má sjá víða í íslensku efnahagslífi: Lífskjör hafa batnað, íslensk fyrirtæki hafa eflst og fært út kvíarnar og fjölbreytni í íslensku atvinnulífi hefur aldrei verið meiri.

Mörg íslensk útrásarfyrirtæki þekkja nú starfsumhverfi fyrirtækja í öðrum löndum og vilja ekki flytja inn þá starfsmenningu, skattumhverfi og skrifræði sem víða er til staðar í samkeppnislöndum okkar. Þó er ljóst að vegna smæðar íslenska markaðarins velja þau flest að færa út kvíarnar utan Íslands en halda þó móðurstarfseminni eftir hérlendis. Ástæðan fyrir því að móðurfyrirtækin eru ekki flutt út er án efa gott skattalegt umhverfi hérlendis.

Það er auðvelt að missa þá góðu samkeppnisstöðu sem Ísland nýtur í augnablikinu. Það gerist fyrst og fremst með andvaraleysi. Í gögnum frá IMD er birtur listi yfir þau atriði þar sem hallar á Ísland í samanburði við aðrar þjóðir. Stofnunin bendir á ýmis atriði sem brýnt er að endurskoða hérlendis og geta stuðlað að því að Ísland komist hærra á lista yfir samkeppnishæfni þjóða.  Þar eru m.a. nefnd atriði eins og eignarskattar, óbeinir skattar, stjórnarhættir fyrirtækja og takmarkanir á erlenda fjárfestingu. Þá er þess sérstaklega getið að á Íslandi eru vinnudeilur algengar. Á hinn bóginn hefur stjórnkerfið á Íslandi verið talið gegnsætt og þar hefur ríkt stöðugleiki undanfarin ár. Mikilvægt er svo verði áfram og að jafnan sé leitað eftir sjónarmiðum atvinnulífsins við reglusetningar stjórnvalda.

Til að geta staðið undir auknum kröfum um bætt lífskjör, verður að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Því þarf íslenskt atvinnulíf að taka þátt í aukinni alþjóðavæðingu viðskipta í heiminum og auka útflutning á vöru og þjónustu. Þá er ekki síður brýnt að erlendir fjárfestar geti tekið þátt í fyrirtækjastarfsemi hérlendis með beinum hætti.

Ef eftirfarandi fjögur verkefni verða sett á oddinn hjá íslenskum stjórnvöldum á næstunni telur Verslunarráð Íslands að miklir möguleikar séu til þess að Ísland færi sig upp í þriðja sætið yfir samkeppnishæfustu lönd heims  innan tveggja ára.

1.         Frekari lækkun skatta

Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að afnema eignarskatta en þeirra er sérstaklega getið í skýrslu IMD sem samkeppnishamlandi þáttar.  Þá er þess einnig getið að óbeinir skattar séu háir hérlendis sem verki samkeppnishamlandi.  Mikilvægt er að staðið verði við fyrirheit um afnám eignarskatta og lækkun óbeinna skatta.
Nágrannalönd okkar, sem hingað til hafa ekki verið samkeppnishæf við Ísland á sviði skattamála, hafa bætt sig verulega í skattamálum en þær umbætur miða að því að gera alþjóðlegum fyrirtækjum kleift að hafa bækistöðvar sínar í löndunum.  Þannig eru gömlu háskattalöndin eins og Svíþjóð og Noregur búin að bæta verulega skattaumhverfi slíkra fyrirtækja. Svíar hafa til að mynda nýverið aukið samkeppnishæfni sína með því að bæta skattumhverfi alþjóðlegra eignarhaldsfélaga í landinu. Skoða þarf möguleika til að treysta enn frekar skattasamkeppnisstöðu íslensks rekstrarumhverfis.  

2.         Erlendar fjárfestingar

Viðskiptalífið teygir sig sífellt meira milli landa og sú þróun snertir óhjákvæmilega Ísland og íslensk fyrirtæki. Í skýrslu IMD kemur fram að einn þeirra þátta sem veikja samkeppnisstöðu Íslands eru hömlur á erlendar fjárfestingar. Hvergi eru meiri hömlur á beina erlenda fjárfestingu innan OECD en hér á landi.  Takmarkanir á möguleikum útlendinga til fjárfestinga hérlendis draga verulega úr möguleikum á að laða erlent fjármagn og þekkingu inn í íslenskt atvinnulíf. Mikilvægt er að gera breytingar hér á í samræmi við það sem þekkist erlendis.

3.         Aukin milliríkjaviðskipti

Þrátt fyrir að skýrsluhöfundar geri sér grein fyrir að verðmæti útflutnings frá Íslandi hafi aukist verulega síðustu ár stenst Ísland engan veginn samanburð við þau lönd sem best standa sig i þeim efnum. Í skýrslunni er sérstaklega getið hlutfallslega lágs útflutnings á tæknivöru. Íslendingar þurfa að auka verulega útflutning, og verðmæti hans, svo að Ísland nái betri stöðu gagnvart samkeppnisþjóðunum. Í því sambandi er rétt að hugað sé að menningarlæsi meðal íslenskra fyrirtækja í útrás. Fyrir litla eyþjóð er mikilvægt að þau fyrirtæki hafi á að skipa starfsfólki með víðtæka tungumálakunnáttu og þekkingu á ólíkum markaðssvæðum.

4.         Minni ríkisumsvif

Ísland vermir 2. sæti meðal OECD landa hvað snertir samneyslu sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Samneyslan hefur aldrei verið hér meiri. Um leið hefur opinberum starfsmönnum fjölgað verulega. Þá eru ríkisstofnanir hér fleiri á íbúa en í nokkru landi sem helst eru valin til samanburðar. Þá hafa ríkisútgjöld aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Lækkun þeirra er forgangsverkefni ef á að takast að efla stöðu Íslands í samkeppninni um erlent fjármagn og aðlaðandi starfumhverfi fyrirtækja. Þá benda skýrsluhöfundar á tækifæri fyrir Ísland í því að auka þátttöku atvinnulífsins í mennta- og heilbrigðismálum. Í skýrslunni er einnig lögð áhersla á mikilvægi áframhaldandi einkavæðingar í fjarskipta- og orkugeira.

 

Tengt efni

Meiri pening, takk

„Aðhaldskrafa er ekki byggð inn í stjórnkerfið sem við búum við og þannig hafa ...
19. apr 2024

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024

Samkeppnishæfni Íslands eykst á árinu 2022

Ísland bætir samkeppnishæfni sína og færist upp í 16. sæti samkvæmt greiningu IMD
15. jún 2022