Fjárhagsstaða einkaskóla erfið

-eftir Þór Sigfússon

Nú virðist ljóst að síðar á þessu ári eða því næsta muni margir einkaskólar í Reykjavík telja sig illa búna fjárhagslega til að halda áfram starfsemi til langs tíma og þurfa því á auknu fjármagni að halda til starfseminnar.  Þrátt fyrir hækkun opinberra framlaga til einkaskóla þá er ljóst að viðmið borgarinnar um framlög til einkaskóla eru of lág.  Í dag er miðað við framlög til Rimaskóla sem nýtur lægstu framlaga á nemanda í Reykjavík eða sem nemur um 360 þúsund krónum á nemanda á ári.  Rimaskóli er einn stærsti grunnskóli borgarinnar.  Séu minni opinberir skólar athugaðir, sem eru auk þess í meira samræmi við stærð einkaskólanna í borginni, njóta þeir framlaga sem nema um 450-520 þúsund króna á nemanda.  

Við þessar aðstæður munu litlir einkaskólar í borginni ekki þrífast og því er mikilvægt að rétta hlut þeirra.    Menntamálaráðherra hefur til skoðunar lög um grunnskóla.  Mikilvægt er að í nýju frumvarpi um grunnskóla verði fjölbreytni rekstrarforma tryggð.  Í því sambandi er mikilvægt að ný lög kveði skýrt á um að einkaaðilar geti sett á laggirnar skóla og að greitt sé til þeirra í samræmi við sambærilega opinbera skóla.

Sú staðreynd að framlög til einkaskóla í borginni séu 20-30% lægri á nemanda en framlög til opinberra skóla er ekki viðunandi. Lág skólagjöld í sumum þessara skóla ná engan veginn að jafna þennan mun.  Það ber að treysta stöðu þeirra en láta ekki andstæðinga einkaskóla reyna að koma því inn hjá almenningi að þeir sé bæði illa reknir og stuðli að stéttaskiptingu.  Þeir eru vel reknir og auka fjölbreytni.  Einkaskólum hefur fjölgað mjög mikið í nágrannalöndum okkar. Það er krafa foreldra hér eins og í nágrannalöndum okkar að fjölbreytni og val sé innleitt í skólakerfið.  Hluti af því er að treysta stöðu þessara litlu skóla.

 

 

Tengt efni

Eigum við að drepa fuglana?

Þegar við grípum inn í flókin kerfi getur það haft ófyrirséðar afleiðingar, ...
31. ágú 2022

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022

Stjórn Landspítala verði raunverulegur æðsti ákvörðunaraðili

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um breytingu á lögum um ...
7. apr 2022