Horfur í efnahagsmálum - fundur með Seðlabankasjóra

Á afar fjölmennum fundi Verslunarráðs um stöðu og horfur í efnahagsmálum, skýrði Birgir Ísleifur Gunnarsson Seðlabankastjóri frá ákvörðun bankans um að hækka stýrivexti um eina prósentu, úr 7,25% í 8,25%. Birgir sagði að frá því að Seðlabankinn birti verðbólguspá í júní sl. hefðu verðbólguhorfur til lengri tíma versnað töluvert. Mætti einkum rekja það til meiri vaxtar innlendrar eftirspurnar. Ástæður þess væri aukin samkeppni á lánamarkaði sem leiddi til þess að aðgangur almennings að lánsfé hefði orðið greiðari en áður og vextir verðtryggðra húsnæðislána hefðu til langs tíma lækkað. Stóriðjuáhrif hefðu vaxið og þjappast meir á næstu tveimur árum en horfur voru á. Fyrirhugaðar skattalækkanir og áform um aðhald í útgjöldum hins opinbera næstu tvö árin væru nokkuð óljós. Vaxtahækkun bankans væri því ætlað að stuðla að því að verðbólgumarkmiðinu yrði náð.

Birgir Ísleifur talaði því næst um verðlagsþróun. Verðbólgumarkmiðið væri 2 ½ % reiknað sem hækkun vísitölu neysluverðs á 12 mánuðum. Undanfarna mánuði hefur verðbólgan verið á uppleið og mældist hún 3,8% í nóvember. Hækkun má að miklu leyti rekja til vaxandi eftirspurnar og að hluta til beins kostnaðarþrýstings. Hækkun húsnæðisverðs á stóran þátt í hækkuninni auk hækkun á bensínverði. Þá hefur verð opinberrar þjónustu hækkað meira en vísitalan í heild.

Samkvæmt spá Seðlabankans mun hagvöxtur verða 5,4% á þessu ári og 6,1% á því næsta. Árið 2006 er gert ráð fyrir að dragi aðeins hagvexti eða í 4,9%. Viðskiptahalli mun aukast úr 6 ½ % af landsframleiðslu árið 2004 í 10% árið 2005 og rúmlega 11% árið 2006. Þessi fylgir mikil skuldasöfnun og er gert ráð fyrir að erlendar skuldir verði um 112% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2006.

Birgir Ísleifur kom inn á breytta stefnu Seðlabankans varðandi gjaldeyriskaup. Sagði hann að um áramótin yrði gjaldeyrisforðinn að líkindum um 70 milljarðar króna. Á árinu 2005 myndi bankinn kaupa 2,5 milljónir Bandaríkjadala einu sinni í viku á markaði.Seðlabankinn mun kaupa gjaldeyri fyrir hönd ríkissjóðs ef endurgreiðslur erlendra lána verða meiri en rúmast innan þessara áforma.

Loks sagði Birgir Ísleifur að Seðlabankinn yrði að miða aðgerðir í peningamálum við þá framvindu sem hann teldi sennilegasta. Á grundvelli þess hækkaði bankinn nú vexti og væri viðbúinn að hækka þá enn frekar í framtíðinni í því skyni að beina verðbólgu sem fyrst að 2 ½ % verðbólgumarkmiðinu.

Sjá glærur Birgis Ísleifs hér.

Í pallborði sátu forstöðumenn greiningardeilda bankanna, þau Edda Rós Karlsdóttir Landsbanka, Ingólfur Bender Íslandsbanka og Þórður Pálsson KB banka og Þorsteins Víglundsson framkvæmdastjóri BM-Vallár.

 

Tengt efni

Jón Júlíus nýr samskiptastjóri Viðskiptaráðs

Jón kemur frá Ungmennafélagi Grindavíkur og mun hefja störf í október
12. sep 2023

Að kippa vísitölu úr (húsnæðis)lið

Þegar allt kemur til alls er varhugavert að breyta undirliggjandi þáttum ...
10. mar 2022

Hlutverk Viðskiptaráðs kynnt á borgarafundi

Fulltrúar Viðskiptaráðs sátu í pallborði á fjölmennum borgarafundi í Háskólabíó ...
13. jan 2009