Iðnaðarmálagjald óréttlát tímaskekkja

Lagt hefur verið fram frumvarp um afnám iðnaðarmálagjalds. Samtök iðnaðarins njóta mikillar sérstöðu í samanburði við önnur samtök fyrirtækja í landinu þar sem ríkið leggur iðnaðarmálagjald á öll fyrirtæki sem starfa í iðnaði, innheimtir þau og veitir þeim síðan til samtakanna. Því má segja að um nokkurs konar skylduaðild að samtökunum sé að ræða auk þess sem ríkið annast innheimtu félagsgjaldanna. Engin önnur samtök hérlendis njóta slíkra forréttinda.

Skylduaðild?
Með gjaldinu er öllum fyrirtækjum sem starfa í iðnaði skylt að greiða til Samtaka iðnaðarins, hvort sem þau eru aðilar að samtökunum eða ekki. Samtökin hafa ekki viljað meina að um skylduaðild sé að ræða. Þau viðurkenna það samt óbeint í 1. mgr. 14. gr. laga samtakanna með því að líta á gjaldið sem hluta af félagsgjöldum þeirra sem greiða það. Í 74. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að engan megi skylda til aðildar að félögum. Fyrirkomulag sem þetta stenst ekki þau markmið sem félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar stefnir að.

Jafnræði
Önnur samtök fyrirtækja í landinu verða að reiða sig á frjálsa félagsaðild og verða að sætta sig við að innheimta félagsgjöld frá þeim sem kjósa að greiða þau, eins og eðlilegt er. Þessi forréttindi skapa mjög ójafna stöðu og erfiða rekstur annarra samtaka fyrirtæka og girða fyrir að iðnfyrirtæki geti stofnað með sér önnur samtök, t.d. ef þau eru ósammála stefnu Samtaka iðnaðarins.

Iðnaðarmálagjald er óréttlát tímaskekkja sem löngu er tímabært að afnema. Í stefnu Samtaka iðnaðarins segir að meginhlutverk þeirra sé m.a. að þjóna íslenskum iðnaði og gæta hagsmuna hans. Ef samtökin bera hag iðnfyrirtækja sannanlega fyrir brjósti ættu þau að hafa forgöngu um að þau þurfi ekki að sæta óeðlilegri gjaldtöku eins og þessari.

Frumvarp um afnám iðnaðarmálagjalds
Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið

Tengt efni

Nauðsynlegt að tryggja félagafrelsi á vinnumarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs um félagafrelsi á vinnumarkaði (mál nr. 24)
8. des 2022

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022

Bæta þarf úr annmörkum og leggja mat á áhrif

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SI um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum ...
24. mar 2022