Samstarfssamningur við MIT háskólann í Boston

Háskólinn í Reykjavík hefur umsjón með nýjum samstarfssamningi íslensks atvinnulífs við MIT háskólann í Boston í umboði Samtaka iðnaðarins og Viðskiptaráðs.

MIT er í efsta sæti bandarískra háskóla á sviði tækni og verkfræði og í því þriðja á sviði viðskipta og stjórnunar og mun samstarfið án efa opna gífurleg tækifæri til þekkingaröflunar og nýsköpunar fyrir íslensk fyrirtæki. Samningurinn felur í sér aðgang að víðtæki samstarfi, þekkingu og færni MIT samkvæmt þörfum, markmiðum og óskum þeirra fyrirtækja sem taka þátt í samstarfinu, en það verður með áskriftarfyrirkomulagi til eins árs. Samstarfsaðilar fá sendar upplýsingar um nýjungar, rannsóknir og þróunarverkefni sem verið er að vinna að og tengjast þörfum íslenskra fyrirtækja.

Fulltrúar frá MIT munu verða fengnir hingað til lands til að halda fyrirlestur eða til að vinna sértækt með fyrirtækjum auk þess sem hægt verður að senda fulltrúa til Boston til skrafs og ráðagerða með sérfræðingum fagsviðanna. Slíkar málstofur eru sérsniðnar að þörfum íslensku fulltrúanna og nýtast t.d. til að styrkja stefnumótun, kynnast því sem er að gerast í rannsóknum og tækni eða til að skoða nýjar aðferðir við stjórnun fyrirtækja. Aðgangur opnast að nýjungum í tækni eða stjórnun, svo og rannsóknum og greiningum sem verið er að vinna, auk þess sem möguleiki er á að leita ákveðinna lausna og jafnvel fá MIT nema til starfa. Fyrirtæki munu fá aðgang að viðburðum sem skipulagðir eru á vegum MIT og geta einnig fengið sendar rannsóknarniðurstöður og skýrslur eftir þörfum og óskum.

Samstarfinu verður hleypt formlega af stokkunum með ráðstefnu fimmtudaginn 3. maí þar sem fulltrúar MIT munu kynna samstarfið nánar. Tengiliður við samstarf atvinnulífs og skóla MIT á Íslandi er Aðalheiður Jónsdóttir hjá Stjórnendaskóla HR og nánari upplýsingar um verkefnið má finna á: http://ilp-www.mit.edu

Tengt efni

Gerðardómur Viðskiptaráðs innleiðir stafræna lausn Justikal

"Með tilkomu stafræna réttarkerfisins getum við veitt skjólstæðingum okkar ...
24. apr 2023

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022

Katrín Olga: Þarf samstöðu og vilja til að laga kynjahallann

Í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi fór Katrín Olga Jóhannesdóttir, fráfarandi ...
13. feb 2020