Megintilgangur Viðskiptaráðs að gæta hagsmuna atvinnulífsins

Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs, hélt opnunarávarp á afmælisfundi Viðskiptaráðs Íslands nú í dag. Í ávarpinu fór Erlendur yfir hlutverk Viðskiptaráð í þróun íslensks viðskiptaumhverfis undanfarin 90 ár.

Þar sagði Erlendur meðal annars “Megintilgangur Viðskiptaráðs er, og hefur ávallt verið, að gæta hagsmuna viðskiptalífsins. Hagsmuna ber að gæta gagnvart stjórnvöldum, gagnvart samfélaginu í heild og nú í síauknum mæli gagnvart erlendum aðilum. Framrás íslensks viðskiptalíf hefur gjörbreytt þeim aðstæðum sem við búum við og nú er svo komið að hagkerfið er mjög samþætt alþjóðamörkuðum.

Það er ekki síður hlutverk Viðskiptaráðs að efla skilning almennings á mikilvægi frjálsræðis í viðskiptum, lágmörkun opinberra afskipta, hagfellds skattaumhverfis og annarra þátta er miða að því að auka samkeppnishæfni Íslands. Viðskiptaráð hefur rutt veginn á þeirri framfaraleið sem Ísland hefur fetað og mun halda áfram að ryðja þá braut. Í starfi sínu hefur ráðið ávallt haft það að leiðarljósi, að viðskiptalífinu sé best borgið með frjálsri samkeppni, og þannig fái kostir einkaframtaksins að njóta sín.”

Í ávarpinu ræddi Erlendur um störf nýrrar ríkisstjórnar. “Það er á mörgum brýnum málum að taka og því ljóst að stjórnvöld munu hafa í nógu að snúast á komandi kjörtímabili. Ég tel að stærsta einstaka ákvörðunin sem stjórnvöld standa frammi fyrir hafi með gjaldmiðil landsins að gera. Á undanförnum misserum hefur peningahagstjórn ekki skilað þeim árangri sem henni er ætlað. Ástæður þess er margþættar en afleiðingin hefur verið sveiflukenndur gjaldmiðill og háir stýrivextir. Til að skapa fyrirtækjum stöðugt og hagfellt umhverfi er mikilvægt að gera bragarbót á. Viðskiptaráð telur mikilvægt að halda uppi faglegri og virkri umræðu um stöðu krónunnar og mun ekki skorast undan ábyrgð sem leiðandi aðili í þeirri umræðu.”

Ræðu Erlendar má finna hér.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Laglegt regluverk óskast

Átak og áhersla á einfaldara og skilvirkara regluverk var á meðal loforða ...
2. nóv 2021

Efnahagsstofa atvinnulífsins - Bætum hagtölur

Í litlu hagkerfi eins og Íslandi mætti ætla að auðvelt væri að nálgast góðar ...
28. feb 2011