Orkuveita Reykjavíkur á villigötum

Fyrr í vikunni var tilkynnt um sameiningu orkufyrirtækjanna Geysir Green Energy og Reykjavík Energy Invest, en með sameiningu þeirra verður til eitt stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum.

Viðskiptaráð Íslands telur að vissulega muni sameining fyrirtækjanna koma til með að festa enn frekar í sessi stöðu Íslands sem leiðandi miðstöðvar hugvits, þróunar og nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa. Sameining fyrirtækjanna gerir þeim kleift að sækja enn harðar á markað fyrir jarðvarmaorkuframleiðslu, en sá markaður stækkar á ógnarhraða og því ljóst að tækifærin leynast víðsvegar.
Mikil tækifæri og mikil áhætta fara oftar en ekki hönd í hönd. Það er skoðun Viðskiptaráðs að rekstur fyrirtækja, á borð við hið sameinaða félag, eigi að vera í höndum einkaaðila enda heyra þau áhættuverkefni sem hér um ræðir ekki undir þjónustuframboð Orkuveitunnar. Viðskiptaráð telur að útsvarstekjum Reykjavíkurborgar eigi ekki að ráðstafa í áhættusaman samkeppnisrekstur, heldur ætti verja peningum skattborgarana til reksturs þeirrar grunnþjónustu sem nauðsynleg telst. Viðskiptaráð hvetur því OR til að selja ráðandi hlut sinn í sameinuðu félagi og láta þannig af samkeppnisrekstri sínum við önnur einkarekin félög á sama markaði.

Enn fremur telur Viðskiptaráð ekki vera grundvöll fyrir kaupréttarsamningum til handa starfsmönnum OR. Það er að mati ráðsins í hæsta máta óeðlilegt að opinberir starfsmenn njóti þeirra kjara sem hér um ræðir, enda markmið opinberra fyrirtækja að skila fyrirfram ákveðinni þjónustu með lágmarkskostnaði, en ekki halda uppi samkeppnisstarfsemi með arðsemismarkmið að leiðarljósi. Að sama skapi er það undarleg nýlunda að veita starfsmönnum óbeina kaupréttarsamninga á þennan hátt, enda er ekki um kauprétti í OR heldur REI að ræða. Sé það vilji stjórnar OR að gera starfsmönnum sínum kleift að fá kaupréttarsamninga væri réttast að OR yrði seld einkaaðilum, sem væru í lófa lagið að ráðstafa fjármunum sínum í formi kaupréttarsamninga til handa starfsmönnum.

Nánari upplýsingar veita:
Finnur Oddsson framkvæmdastjóri
Frosti Ólafsson hagfræðingur
Haraldur I. Birgisson lögfræðingur

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Umsögn um valkosti og greiningu á vindorku

Umsögn Viðskiptaráðs um valkosti og greiningu á vindorku - skýrslu starfshóps, ...

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023