Ræða Davíðs Oddssonar

Davíð Oddson, formaður stjórnar Seðlabankans, kom víða við í ræðu sinni á haustfundi Viðskiptaráðs nú í morgun.Þrátt fyrir að vaxtahækkun Seðlabankans hafi komið markaðsaðilum á óvart telur Davíð að bankinn hafi gefið fjölmargar vísbendingar þar af lútandi. Umræða ýmissa fyrirtækja og hagsmunasamtaka um vaxtastefnu SÍ sé ekki byggð á réttmætum rökum þar sem afar mikilvægt sé að hemja verðbólgu. Ekki sé mögulegt að skola verðbólgu út, eins og það hefur verið orðað, þar sem hún komi til með að festa sig í sessi en ekki renna úr hagkerfinu. Það megi ekki tapa slagnum við verðbólgu, jafnvel þótt kostnaður verði mikill.

Þá telur formaður bankastjórnar að alþjóðavæðing íslensks hagkerfis hafi ekki leitt til þess að peningamálastefna bankans virki ekki og tilvistarrétti íslensku krónunnar sé ekki ógnað. Sveiflur krónunnar séu þvert á móti til marks um að krónan virki sem fljótandi gjaldmiðill og þær standist alveg samanburð við breytingar á öðrum gjaldmiðlum.

Helsta vandamálið telur Davíð vera þær efnahagsaðstæður sem bankinn hefur þurft að glíma við. Þannig hafi ekki tekist að hemja opinber útgjöld, en sem dæmi hafi opinber fjárfesting aukist um fimmtung á síðasta ári. Skattalækkanir og launaskrið gert stöðuna enn erfiðari, auk þess sem eignamyndun hefur verið mikil vegna breytinga á húsnæðislánamarkaði. Þessu til viðbótar var ráðist í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar og því margt sem hefur unnið gegn verðbólgumarkmiðum bankans.

Að lokum ræddi Davíð útrás íslenskra fyrirtækja og benti á að tvær hliðar væru á þeirri sögu. Að sjálfsögðu væri um mörg afar jákvæð verkefni að ræða og Íslendingar hefðu sýnt djörfung og útsjónarsemi í útrás sinni á erlenda markaði. Aftur á móti væri landið orðið afar skuldsett og aðstæður á erlendum lánsfjármörkuðum hafi versnað til muna. Það megi því gera ráð fyrir að heldur þrengi að og einhverjir komi til með að eiga erfitt með að þreyja þorrann. Þessu til viðbótar hafi fókusinn verið mikið á útrás íslenskra fyrirtækja en ekki mikið fjallað um útrás erlendra fyrirtækja til Íslands.

Ræða Davíðs verður birt í heild sinni á heimasíðu Seðlabankans.

Tengt efni

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022

Sigur leiðindanna

Ókeypis peningar hafa í raun aldrei verið til
26. okt 2022

Í minningu Davíðs Scheving Thorsteinssonar

Davíð fæddist 4. janúar 1930 og lést 8. apríl 2022.
25. apr 2022