Morgunverðarfundur um stöðu sparisjóðanna

Hátt í 90 manns sóttu morgunverðarfund Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðuneytisins um stöðu sparisjóðanna. Á fundinum fjölluðu Kjartan Gunnarsson formaður sparisjóðanefndar viðskiptaráðherra, Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitisins, Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Samband íslenskra sparisjóða og Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur um núverandi stöðu og hugsanlega framtíðarþróun sparisjóðanna.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, opnaði fundinn með stuttu ávarpi þar sem hann fór stuttlega yfir þær breytingar sem hafa orðið undanfarin áratug á íslensku fjármálakerfi. Í ávarpi ráðherra kom fram að hlutafjárvæðing og einkavæðing viðskiptabankanna hefði leitt til meira vaxtar en nokkurn hefði órað fyrir. Undanfarin ár hefði samkeppni milli bankanna og sparisjóðanna aukist til muna sem hefði m.a. þær afleiðingar að fleiri og fleiri sparisjóðir hefðu sameinast enda stærðarhagkvæmni nauðsynleg fyrir fjármögnun þeirra. Ráðherra sagði umræðu undanfarinna missera um stöðu sparisjóðanna gefa til kynna að löggjöfin væri ekki að virka sem skyldi, en þar bæri hæst sjónarmið er snúa að hlutafjárvæðingu sparisjóðanna. Í ljósi þess hefði ráðherra tekið ákvörðun um að skipa nefnd til að fara yfir 8. kafla laga um fjármálafyrirtæki, en sá kafli felur í sér tiltekin sérákvæði er snúa eingöngu að sparisjóðum en ekki öðrum fjármálafyrirtækjum. Ráðherra sagði að viðfangsefni nefndarinnar væri síður en svo einfalt enda þyrfti að sætta ólík sjónarmið, þ.e. sjónarmið viðskiptalífsins annars vegar og sjónarmið um samfélagslega ábyrgð hins vegar. Þannig þyrfti að finna farveg er myndi tryggja sparisjóðunum sem bestu samkeppnislegu stöðu en um leið varðveita samfélagslegt hlutverk þeirra.

Kjartan Gunnarsson, formaður sparisjóðanefndar ráðherra og skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, fór yfir sögu sparisjóðanna í lagalegu tilliti. Þannig gerði Kjartan að umfjöllunarefni sínu þá löggjöf sem hefur verið sett hingað til um sparisjóðina og gerði grein fyrir helstu breytingum á þeirri löggjöf undanfarna áratugi. Í upphafi var málefnum sparisjóðanna skipað í sérstaka löggjöf þar sem samfélagsleg sjónarmið voru ráðandi. Á síðari hluta síðustu aldar hefði lagalegt umhverfi sparisjóðanna breyst talsvert, en þær breytingar hefðu aðallega miðað að því að treysta samkeppnisstöðu sparisjóðanna með því að víkka út starfsheimildir þeirra og gera stofnfé eftirsóknarverðara. Í máli Kjartans kom fram að sparisjóðanefndin ætlaði sér að kanna hvort að gildandi ákvæði hefðu í för með sér hamlandi áhrif fyrir sparisjóðana og að öll álitamál kæmu þar til skoðunar.

Forstjóri fjármálaeftirlitisins, Jónas Fr. Jónsson, fjallaði um aðkomu FME að þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í starfsumhverfi sparisjóðanna. Í máli Jónasar kom það m.a. fram að viðskiptaleg rök væru til staðar fyrir frekari samstarfi sparisjóðanna, þar nefndi hann helst að miklar lagalegar kröfur væru gerðar til starfsheimilda fjármálafyrirtækja sem litlir sparisjóðir ættu erfitt með að uppfylla. Enn fremur kom fram að hagnaðarhlutfall sparisjóðanna væri neikvætt árið 2007 þegar litið væri til kjarnastarfsemi þeirra, en á heildina litið væri það hlutfall jákvætt sem kæmi til vegna gengishagnaðar á hlutabréfaeignum þeirra. Að mati Jónasar væri þetta eitthvað sem stjórnendur sparisjóðanna þyrftu að huga að. Jónas fór einnig yfir hvernig FME metur samruna sparisjóða og sagði nokkur atriði vera lögð til grundvallar. FME skoðar þannig sérstaklega hvort að samruni sé í samræmi við lög en einnig væri skoðað hvort að starfsemi samrunafyrirtækjanna væri heilbrigð og traust. Eftirlitið metur ávallt skiptahlutfallið, þ.e. hvort það sé sanngjarnt og athugar einnig hvort að innri starfsemi félaganna hafi burð til að taka á sig fyrirhugaða stækkun.  FME metur einnig hvort að virkir eignarhlutir myndist við samruna, en þar er helst litið til stofnfjáreigendalista sparisjóðanna fyrir og eftir samrunann og fengnar eru upplýsingar um flest framsöl. Gátlisti hefur verið útbúinn sem er afhentur samrunafélögum, en hann inniheldur tilteknar lágmarksupplýsingar sem þurfa að koma fram. Hvað hlutafjárvæðinguna varðar þá þarf FME að samþykkja hana. Jónas benti m.a. á að eftir hlutafjárvæðingu sparisjóðs þá væri hann í raun hvorki sparisjóður né eiginlegt fjármálafyrirtæki. Það er m.a. komið til vegna þess að honum ber að nota heitið sparisjóður í nafni sínu og af því að 5% takmörkun atkvæðisréttar heldur sér varðandi hvað hluthafana varðar þó sjóðurinn sem verður til þurfi ekki að lúta þeirri takmörkun. Að mati Jónasar ættu ákvæði hlutafélagalaga að eiga við um sparisjóði sem hefðu hlutafjárvæðst og það væri því full ástæða til að endurskoða og meta hvort þessi sérákvæði hömluðu vexti og viðgangi sparisjóðanna.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, gerði núverandi stöðu og framtíðarhorfur að umræðuefni í erindi sínu. Að mati Guðjóns hafa sparisjóðirnir aldrei staðið jafnvel, hvað varðar eigin fé, ímynd og hagnað. Guðjón taldi samruna sparisjóða eðlilega þróun til að styrkja stöðu þeirra. Guðjón taldi sparisjóðina á krossgötum eins og oft áður, en valdahlutföll og eigendasamsetning þeirra hefur tekið miklum breytingum á síðastliðnum árum, því væri orðið nauðsynlegt að sætta ólík sjónarmið. Í erindi Guðjóns kom það einnig fram að Samband Íslenskra sparisjóða hefði farið fram á undanþágu frá samkeppnislögum, en þeirri beiðni hefði ekki verið svarað af hálfu samkeppnisyfirvalda. Tilgangurinn með þeirri undanþágu væri sá að tryggja starfsgrundvöll smærri sparisjóða. Að mati Guðjóns verða sparisjóðirnir að líta á núverandi krossgötur sem tækifæri og að þeim yrði að vera tryggt frelsi til að velja sér form, frelsi til athafna og þeir yrðu að búa við skýrar reglur.

Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur taldi að staða sparisjóðanna væri misjöfn og allir væru þeir að glíma við nýjar aðstæður. Taldi Geirmundur að afnám hafta og einkavæðinga bankanna hefði rifið áralanga kyrrstöðu þar sem helstu samkeppnisaðilar sparisjóðanna voru áður ríkisreknir viðskiptabankar. Taldi Geirmundur að samstarf sparisjóðanna væri að breytast og þeir stærstu vildu sækja á markaði á eigin forsendum. Þrátt fyrir mikið öldurót væri staða sparisjóðanna góð, en þarft væri að huga að framhaldinu. Að mati Geirmundar markaði hlutafjárvæðing SPRON kaflaskil og ljóst væri að hlutafjárvæddir sparsjóðir gætu hreyft sig hvert sem er og sótt eigið fé á eðlilegu gengi. Geirmundur sagði að hlutafélagaformið væri þekkt og almenningur væri orðinn vanur því og því í sjálfu sér ekki óeðlilegt að sparisjóðirnir stefndu þangað. Taldi Geirmundur að sú þróun sem átt hefði sér stað yrði ekki snúið til baka, og fyrr en síðar yrðu flestir sparisjóðir hlutafjárvæddir. Geirmundur vonaði að nefndin tæki sérstaklega til skoðunar þá ríkisvæðingu sem ætti sér stað með hlutafjárvæðingu undir núgildandi lögum. Að mati Geirmundar þyrfti lagaumhverfi hlutfjárvæddra sparisjóða að vera nákvæmlega eins og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Geirmundur sagði ennfremur að sparisjóðir þyrftu að hugsa hlutverk sitt uppá nýtt því ýmsar áskoranir væru framundan.

Geirmundur og Guðjón voru spurðir að því hvort að hlutafélagaformið samræmdist tilteknum samfélagssjónarmiðum í starfsemi sparisjóðanna. Geirmundur taldi svo vera, enda væri samfélagsstarfið hluti af markaðssetningu sparisjóðanna og engin ástæða til að breyta því þó breytt væri um félagaform. Guðjón tók undir orð Geirmundar og sagði að sparisjóðirnir hefðu mjög sterka markaðsstöðu sem byggði á aðgerðum þeirra í nær umhverfi sínu og mikilvægt væri að því væri viðhaldið.

Erindi Kjartans má nálgast hér.

Glærur Jónasar má nálgast hér.

Erindi Guðjóns má nálgast hér.

Erindi Geirmundar má nálgast hér.


Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Áform um frumvarp til laga um högun í upplýsingatækni í rekstri ríkisins

Umsögn Viðskiptaráðs um áform um frumvarp til laga um högun í upplýsingatækni í ...

Umsögn um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Umsögn Viðskiptaráðs um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og ...