Engin velferð án atvinnulífs

Eftirfarandi grein birtist í Markaði Fréttablaðsins, miðvikudaginn 22. október:

Undanfarnir dagar og vikur hafa verið viðburðaríkur tími í lífi flestra Íslendinga. Líkja mætti ástandinu við einskonar samslátt tvennra tíma. Þrátt fyrir að fátt hafi breyst á yfirborðinu; öll mannvirki eru enn á sínum stað, verslun og önnur þjónustu stendur enn til boða, fréttir eru ennþá klukkan sjö og svo mætti lengi telja. Engu að síður hafa ásýnd og framtíðarhorfur hagkerfisins gjörbreyst í kjölfar hruns íslenskra fjármálafyrirtækja.

Síðan hamfararnir hófust hafa stjórnvöld lagt sig fram við að ná stjórn á aðstæðum, með tiltölulega dræmum árangri fram að þessu. Fyrir einn þátt eiga ráðamenn þó hrós skilið, en innlend greiðslumiðlun og dagleg bankaþjónusta við einstaklinga hefur gengið áfallalítið, þrátt fyrir allt sem gengið hefur á. Engu að síður eru mörg mál í ólestri og framtíðarsýn stjórnvalda er mjög óskýr.

Þær aðstæður sem íslenskt viðskiptalíf býr við um þessar mundir eru algjörlega óásættanlegar og mun alvarlegri en stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir. Tímabundin gjaldeyristemprun Seðlabanka Íslands hefur leitt til þess að starfsemi fjölmargra fyrirtækja sem stunda utanríkisviðskipti er í lamasessi. Með hverri klukkustundinni sem líður verða fleiri fyrirtæki fyrir alvarlegum skakkaföllum. Margra ára viðskiptasambönd eru í hættu, starfsgrundvelli fjölmargra innflutningsfyrirtækja hefur verið kippt undan þeim og orðspor Íslands hefur beðið verulega álitshnekki á alþjóðamörkuðum. Með þetta í huga ættu stjórnvöld að setja endurreisn gjaldeyrismarkaða fremst í forgangsröð sína.

Að sama skapi er mikilvægt að skýr stefna verði mótuð um framtíð nýrra ríkisbanka og hvers almenn fyrirtæki megi vænta í viðskiptum sínum við þá. Í dag virðist enginn hafa skýrt umboð innan nýs bankakerfis til að taka mikilvægar ákvarðanir um fyrirgreiðslu og almenna bankaþjónustu gagnvart fyrirtækjum. Við núverandi aðstæður getur þetta valdið miklu tjóni bæði til lengri og skemmri tíma. Ótækt er að halda allri atvinnustarfsemi í tómarúmi með þessum hætti og mikilvægt að ráða bót á sem allra fyrst.

Í umræðum síðustu vikna hafa mörg og stór loforð verið gefin af stjórnmálamönnum landsins. Það fer enginn í grafgötur með það hversu alvarlegt ástandið er og því er viðbúið að margir komi til með að þarfnast velferðarþjónustu hins opinbera. Þrátt fyrir það er engum greiði gerður með því að gefa loforð sem ekki reynist unnt að standa við. Gera má ráð fyrir verulegum samdrætti í tekjum hins opinbera auk þess sem skuldsetning verður mun hærri en verið hefur. Það mun því bæði halla á tekju- og gjaldahliðina í rekstrinum. Það gæti því reynst þrautin þyngri að standa við gefin loforð án þess að reka ríkissjóð og sveitarfélög með verulegum halla og aukinni skuldasöfnun.

Lykilatriði til að rýmka útgjaldasvigrúm hins opinbera er að koma í veg fyrir algjöra lömun atvinnulífsins. Þegar allt kemur til alls er það starfsemi einkafyrirtækja sem skapar megnið af þeim skatttekjum sem nýttar eru við fjármögnun velferðarkerfisins. Besta kjarabót almennings felst í lágmörkun atvinnuleysis og sem minnstri röskun á eðlilegri starfsemi hagkerfisins.

Umræða síðustu vikna hefur einkennst af reiði og leit að blórabögglum og skipbrot markaðshyggju og endalok kapítalisma hafa verið tilkynnt víða. Reiðin er skiljanleg enda hefur hrun fjármálakerfisins haft veruleg áhrif á afkomu og framtíðarhorfur flestra heimila. Mikill vöxtur fjármálakerfisins er langt frá því að vera hafinn yfir gagnrýni og vafalaust hefði mátt standa að ýmsum þáttum með öðrum og betri hætti. Aftur á móti á sú staðreynd að gjaldþrot einkafyrirtækja skapi gríðarlegar skuldbindingar gagnvart almennum skattborgurum ekkert skylt við kapítalisma. Í því samhengi væri nær að horfa til brotalama í alþjóðlegu regluverki og eftirliti viðkomandi hagkerfis.

Það er sjálfsagt mál að skoðað verði ofan í kjölin á þeirri atburðarás sem leiddi til núverandi hremminga. Vafalaust leiðir niðurstaðan í ljós að um marga samverkandi þætti hafi verið um að ræða. Þar hafa helstu áhrifaþættirnir vafalaust verið peningastefnan, fjármálastjórn hins opinbera, mikill vöxtur fjármálakerfisins, örsmár gjaldmiðill og ófullnægjandi innviðir, regluverk og eftirlit til að glíma við þessar óvenjulegu aðstæður.

Það sem skiptir aftur á móti mestu máli í núinu er að lágmarka skaðann. Til að svo megi verða er mikilvægt að koma tannhjólum atvinnulífsins í gang aftur sem allra fyrst. Það verður helst gert með því að leysa gjaldeyrisvandann, móta skýra og skynsamlega framtíðarsýn við endurmótun fjármálakerfisins, endurreisa orðspor Íslands á erlendum vettvangi og skapa eins hagfelld skilyrði til fyrirtækjareksturs og mögulegt er.

Næstu misseri verða mörgum erfið. Allar líkur eru til þess að atvinnuleysi aukist verulega, kaupmáttur hefur rýrnað talsvert og margir hafa tapað sparnaði. Það mun því reyna meira á velferðarkerfið heldur en nokkurn tíma áður. Til að hið opinbera sé í stakk búið til að mæta þeim útgjöldum er nauðsynlegt að sem flest íslensk fyrirtæki nái að troða marvaðann og halda rekstri sínum gangandi. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að leysa áðurnefnd mál á allra næstu dögum.

Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Tengt efni

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023

Sveitarfélög of fámenn fyrir fleiri verkefni

Umsögn um grænbók um sveitarstjórnarmál (mál nr. 229/2022)
4. jan 2023

Regluverk á að vera einfalt og skilvirkt

Umsögn um breytingar á reglugerð um löggiltar iðngreinar nr. 940/1999, með ...
25. ágú 2022