Fjölsóttur morgunverðarfundur um peningamál

Mikil þátttaka var á árlegum fundi Viðskiptaráðs Íslands í tilefni útgáfu peningamála á Hilton Reykjavík Nordica nú í morgun. Fast að 400 gestir sóttu fundinn, sem að þessu sinni bar yfirskriftina Fjármálakreppan – er lausn í sjónmáli? Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands fór yfir stöðu efnahagsmála í tilefni af útgáfu Peningamála. Friðrik Már Baldursson forstöðumaður Rannsóknarstofnunar um fjármál við Háskólann í Reykjavík stýrði fundinum og í pallborði sátu Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, Gylfi Zoega, deildarforseti og prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands og Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs setti fundinn.

Formaður bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddsson, kom víða við í ræðu sinni. Fjallaði hann meðal annars um rætur kreppunnar og eftirlitshlutverk ríkisstofnana, þeirra á meðal Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Hann gagnrýndi harðlega þá sem beina spjótum sínum að Seðlabankanum, seðlabankastjóri sagðist margsinnis hafa varað við of miklum vexti bankakerfisins. Einnig taldi hann mikilvægt að gera grein fyrir því að Seðlabankinn hafi ekki haft yfir neinum þvingunarúrræðum að búa. Í ljósi þess eigi gagnrýni um aðgerðarleysi Seðlabanka ekki rétt á sér. Að lokum krafðist hann ítarlegrar rannsóknar á aðdraganda bankahrunsins og lagði til að erlendir sérfræðingar kæmu að þeirri vinnu. Seðlabankinn yrði auðvitað ekki undanskilin slíkri rannsókn og starfsmenn bankans tækju henni fagnandi.

Ræðu Davíðs má nálgast hér.

Umræður í pallborði snertu flesta þætti stjórnunar peningamála. Arnór Sighvatsson fór stuttlega yfir nýútgefin Peningamál Seðlabankans og sagði bankann ekki hafa treyst sér til að leggja fram stýrivaxtaspá vegna þess óvissuástands sem ríkti við spágerðina. Að mati Arnórs er ljóst að spá Seðlabankans gerir ráð fyrir hörðum samdrætti en samanburður við aðrar bankakreppur gefur góða von um jákvæða lokaútkomu þó stærðargráða áfallsins leiði væntanlega til örlítið lengri aðlögunar.

Ingólfur Bender taldi yfirstandandi niðursveiflu verða djúpa og langvarandi einkum vegna þess að skilyrði á erlendum mörkuðum eru afar erfið nú um mundir. Sagði hann ástandið verða dökkt næstu 2-3 árin, en mikilvægt væri að hafa í huga að kreppur ættu sér upphaf og endi. Nú væri mikilvægast að bregðast ekki við með eingangrun og alls ekki yfirskjóta í nýju regluverki. Hlúa þarf að menntun, frumkvæði og þeim drifkrafti sem íslenskt atvinnulíf hefur skapað með sér.

Gylfi Zoega taldi það höfuðatriði að horfa fram á veginn og leita lausna í stað þess að slást innbyrðis. Til að finna lausnina þarf að skilja aðstæðurnar. Hafa þarf í huga að kreppur eru reglulegur viðburður í flestum hagkerfum og því eru aðstæðurnar hér ekkert einsdæmi. Gylfi sagði að passa þyrfti upp á að sagan endurtaki sig ekki og að nú væri algert forgangsatrðiði  að forða einstaklingum frá erfiðum persónulegum áföllum og halda atvinnulífinu gangandi.

Yngvi Örn Kristinsson sagði verkefnin afar skýr; endurreisa þyrfti bankakerfið, opna gjaldeyrismarkaði, takast á við greiðsluvanda heimila og fyrirtækja, bregðast við aukinni skuldasöfnun ríkissjóðs og endurskoða peningamálastefnuna. Að hans mati væri alls ekki unnt að gera kröfu til þess að einkafyrirtæki á samkeppnismörkuðum stýri efnahagsmálum þjóðarinnar, til þess væri ríkissjóður og Seðlabankinn. Taldi hann Seðlabankann hafa ráðið yfir nægum verkfærum til að bregðast við með afgerandi hætti og nefndi hann þar vextina, lausafjárreglur og bindiskylduna. Það hefði því ekki verið nóg af hálfu Seðlabankans að beita viðvörunum um alvarleika ástandsins. Hann hefði betur beitt aðgerðum.

Tengt efni

Eiríkur Elís nýr formaður Gerðardóms Viðskiptaráðs

Garðar Víðir Gunnarsson og Haraldur I. Birgisson hafa tekið sæti í stjórn ...
16. jan 2023

Hikum ekki

Í núverandi ástandi er ómögulegt að vita fyrir víst hvaða ákvarðanir munu ...
20. mar 2020

Stytting stúdentsprófs - flas eða framfaraspor?

Í dag verður haldið málþing í sal Verzlunarskóla Íslands um styttingu náms til ...
12. apr 2005