Bjartsýni í vikulok

Í ljósi mikils vægis neikvæðra frétta undanfarnar vikur og mánuði er ekki úr vegi að minna á það sem vel gengur. Viðskiptaráð mun því endrum og eins draga saman það helsta sem telst til jákvæðra frétta, stórra sem smárra, innlendra sem erlendra. Rétt er að taka það fram að hér er hvorki um ítarlega né tæmandi greiningu að ræða, heldur samantekt sem eingöngu hefur þann tilgang að minna á að þrátt fyrir erfitt efnahagsástand hérlendis og erlendis er margt á réttri leið og því má ekki gleyma. Það er von Viðskiptaráðs að áður en um of langt líður horfi til betri vegar og samantekt af þessu tagi verði óþörf.
  • Smásala jókst um 0,5% á milli mánaða í maí í Bandaríkjunum samanborið við samdrátt upp á 1,1% á milli mánaða í apríl. Bendir þessi hagvísir til þess að neytendur séu að taka við sér vestanhafs og að horfur séu á minnkandi samdrætti í Bandarísku efnahagslífi.
  • Framkvæmdir eru hafnar við netþjónabú á Keflavíkurflugvelli. Íslensk-bandaríska fyrirtækið Verne Holding stendur fyrir framkvæmdunum og áætlað er að starfsemin geti skapað allt að 100 ný störf. Þetta er til marks um að erlendir aðilar sjái tækifæri á Íslandi.
  • Gjaldþrotum japanskra fyrirtækja fækkaði á milli mánaða í maí. Þetta er í fyrsta skipti í ár sem gjaldþrotum japanskra fyrirtækja fækkar á milli mánaða. Sérfræðingar segja þetta benda til þess að kreppan þar í landi sé á undanhaldi.
  • OECD segir kreppuna á heimsvísu á undanhaldi. Í nýrri skýrslu stofnunarinnar segir að enn sé of snemmt að fullyrða að botninum hafi verið náð en að þó bendi helstu hagvísar til þess verulega sé farið að draga úr samdrættinum á heimsvísu.
  • Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 12,5 milljarða í maí og nemur nú ríflega 460 milljörðum.
  • Alþjóðlegir hrávörumarkaðir hafa tekið við sér undanfarið. Þannig hefur til að mynda verð á olíu og áli hækkað myndalega undanfarið.
  • Innlendur skuldabréfamarkaður er að ná sér á strik en mikil aukning hefur verið í veltu með skuldabréf undandarið. Velta með skuldabréf er nú svipuð og hún var fyrir tæpum tveimur árum.
  • Hlutabréfaverð hér á landi hækkaði í vikunni líkt og síðustu vikur. Hlutabréfavísitölur helstu kauphalla víða um heim hafa sömuleiðis hækkað í vikunni.
  • Hrein eign íslenskra lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris jókst um ríflega 40 milljarða í apríl, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Munar þar mestu um hækkun erlendra eigna og veikingu krónunnar.
  • Seðlabankastjóri fullyrðir að hægt verði að byrja að aflétta höftum undir lok árs, en hann lét þessi orð falla í viðtali við Financial Times í vikunni. Þetta eru góð tíðindi enda ljóst að höftin rýra samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
  • Velta flestra tegunda verslana jókst á milli mánaða í maí samkvæmt útreikningum Rannsóknarseturs Verslunarinnar. Þetta bendir til þess að íslenskir neytendur séu að taka við sér.
  • Atvinnuleysi lækkaði um 1,5% á milli mánaða í maí og mælist nú 8,7% á landsvísu samkvæmt Vinnumálastofnun. Er þetta í fyrsta sinn sem atvinnuleysi minnkar á milli mánaða síðan kreppan skall á.

Tengt efni

Hitam(ál) – Hvað er málið með álið?

Hugmyndir um takmörkun á stóriðju hér á landi annars vegar og samdrátt í losun á ...
3. apr 2023

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022