Áhugaverðar umræður á fundi um peningamál

Í morgun hélt Viðskiptaráð fjölsóttan morgunverðarfund á Hilton Reykjavík Nordica í tilefni af útgáfu peningamála Seðlabankans og bar fundurinn yfirskriftina Höft og háir vextir – Er breytinga að vænta?

Á fundinum fór Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, yfir stöðu efnahagsmála í tilefni af útgáfu Peningamála og svaraði spurningum fundargesta að erindi loknu. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs stýrði fundinum. Í pallborðsumræðu milli fulltrúa Seðlabankans og atvinnulífsins tóku þátt Þórður Friðjónsson, forstjóri NasdaqOMX Ísland, Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls og formaður Viðskiptaráðs, Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.

Ræða Seðlabankastjóra
Peningamál 09 Már GuðmundssonSeðlabankastjóri kom víða við í ræðu sinni og fjallaði m.a. um hver staða peningamála og fjármálalegs stöðugleika hefði verið í kjölfar hruns bankanna. Að hans mati hefðu aðrir kostir sennilega verið til reiðu á þeim tímapunkti heldur en víðtæk gjaldeyrishöft, en að sögunni yrði ekki breytt. Höftin hefðu margvíslega kosti, en einnig galla. Vegna þess væri það ekki vilji bankans að halda í höftin mínútu lengur en þörf væri á.

Seðlabankastjóri fjallaði einnig um hlutverk peningastefnunefndar bankans, sem hann sagði fyrst og fremst vera að tryggja gengisstöðugleika. Til þess hefði nefndin þrjú tæki: vaxtaákvarðanir, inngrip á gjaldeyrismarkaði og höftin. Að hans mati væri til einskis að safna gjaldeyrisvaraforða í góðæri þegar ekki ætti að nota hann í hallæri, rétt inngrip á gjaldeyrismörkuðum gætu ráðið miklu um stöðugleika. Hins vegar kostaði slíkur forði talsverða fjármuni og því væri mikilvægt að nýta hann varlega og reyna eftir fremsta megni að koma á stöðugleika sem fyrst. Þá nefndi seðlabankastjóri að samsetning forðans væri íhaldssöm til að lágmarka alla gengisáhættu.

Einnig kom fram í tölu seðlabankastjóra að meginhlutverk lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) væri þríþætt. Í  fyrsta lagi til að hafa nægan gjaldeyri til að standa straum af erlendum skuldbindingum ríkissjóðs og opinberra fyrirtækja með ríkisábyrgð, í öðru lagi til að hafa nægan forða til að nýta í hófleg inngrip á gjaldeyrismarkaði og í þriðja lagi til að skapa traust á krónuna til að verjast huganlegri árás.

Seðlabankastjóri fjallaði að lokum um horfurnar framundan og nefndi þar að þróun ýmissa hagvísa væri hagstæðari en áður hefði verið talið. Þannig væri minni samdráttur í landsframleiðslu og einkaneyslu, skuldatryggingarálag á ríkissjóð hefur lækkað verulega og atvinnuleysi minna en spáð var. Að áliti hans myndi endurbatinn hefjast í upphafi næsta árs en að kreppunni væri þar með ekki lokið. Atvinnuleysi myndi aukast fram eftir ári og einnig framleiðsluslaki í hagkerfinu. Framvinda ytri aðstæðna og stóriðjuframkvæmda myndi hafa töluverð áhrif á batahorfurnar.

Að lokinni ræðu Seðlabankastjóra svaraði hann nokkrum fyrirspurnum fundargesta, þ.á.m. hvað ætti að gera þegar fram líða stundir til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Nefndi seðlabankastjóri að peningastefnan sem mörkuð var árið 2001 hefði verið sú besta á þeim tíma og að stefnan hefði ekki orsakað hrunið. Seðlabankastjóri nefndi þrennt sem þyrfti að huga betur að: í fyrsta lagi þyrfti bankinn að hafa yfir nægum gjaldeyrisvaraforða að ráða, í öðru lagi þyrfti peningastefnan meiri stuðning frá ríkisfjármálastefnunni og í þriðja lagi þá þyrfti að beita með virkari hætti varúðarreglum á fjármálamarkaði. Hvað ríkisfjármálin varðar nefndi Þórarinn G. Pétursson að útgjaldaáætlanir ríkissjóðs þyrftu að miðast við nafnvöxt, ekki raunvöxt eins og verið hefur. Með því myndi verðbólga umfram spár kalla á niðurskurð en ekki sjálfkrafa aukin útgjöld.

Aðspurður út í misræmi áherslna milli AGS og íslenskra aðila hvað vaxtastig varðar sagði Seðlabankastjóri að sjóðurinn ætti fyrst og fremst við þar bratta lækkun vaxta og gengis í vor og að sjóðurinn væri almennt svartsýnni en íslenskir aðilar. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, nefndi að það væri vilji bankans að hafa vexti lága en að brött vaxtalækkun gæti kallað á vaxtahækkun í náinni framtíð. Þannig væru lágir vextir til lengri tíma hið endanlega markmið. Þá var Seðlabankastjóri spurður hvernig bankinn hygðist stuðla að trúverðugleika hagkerfisins. Í því sambandi nefndi seðlabankastjóri að eftirfylgni við efnahagsáætlun AGS skipti sköpum, á það væru erlendir aðilar að horfa. Að lokum var Seðlabankastjóri spurður út í útfærslur við að losa óþolinmótt fjármagn úr hagkerfinu og áhrifin af mögulegri aðild að ERM II kerfinu. Hvað það varðaði sagði Seðlabankstjóri að skoða mætti útfærslur líkt og útboð eða skattlagningu til að mæta þessum vanda og að full ástæða væri að reyna að komast inn í ERM II, en það mætti ekki vekja of miklar væntingar um sérmeðferð.

Pallborðsumræður
Peningamál 09 pallborðÍ pallborðsumræðum nefndi Þórður Friðjónsson að háir vextir hefðu mikil áhrif á virkni hlutabréfamarkaðarins, en að hans mati væru tækifæri á þeim markaði þar sem mikið fjármagn væri að leita að ávöxtun. Vegna þess væru allar forsendur fyrir fyrirtæki að skrá sig á markað. Þá nefndi Þórður jafnframt að auka þyrfti gagnsæi í atvinnulífinu og nefndi þar bankana sérstaklega, sem hann taldi að ættu að verða skráðir á markað sem fyrst.

Margrét Guðmundsdóttir sagði núverandi stöðu peningamála vera að hafa mikil áhrif á innflutningsfyrirtæki og nefndi að alþjóðlegir viðskiptaaðilar þeirra horfðu mikið á lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs. Að hennar mati væri gengishækkunin ekki að fullu komin út í verðlag þar sem innflytjendur hefðu verið að lækka álagningu sína umtalsvert og ganga á birgðir, en að það gengi ekki til lengri tíma.

Tómas Már Sigurðsson nefndi að pólitískur stöðugleiki skipti jafnframt máli. Þá sagði Tómas að álfyrirtækin hefðu fjárfest miklum fjármunum hér á landi á grundvelli fjárfestingarsamninga við ríkið og að til þeirra væri mikið horft, eins og spár Seðlabankans um efnahagsbata sýna.

Vilhjálmur Þorsteinsson sagði frá því að CCP hefði á undanförnum árum verið á hröðum flótta undan krónunni og peningastefnunni. Fyrirtækið færir bókhald sitt í erlendum gjaldeyri og hóf nýverið að greiða íslenskum starfsmönnum laun í erlendum gjaldeyri.

Þórarinn G. Pétursson velti því upp hvort vextir væru háir hérlendis, þar sem raunvextir væru um 4% og raunstýrivextir um 2%. Þá sagði Þórarinn að síðasta vaxtalækkun hefði haft þann megintilgang að laga vaxtaganginn svo að bankinn gæti hreyft vaxtaganginn í takt, en að ákvörðunin hefði mátt vera gagnsærri.

Ræðu seðlabankastjóra má nálgast hér.
Fréttir frá fundinum má m.a. sjá hér

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022