Ábending um nauðsynlegar umbætur á stjórnsýsluháttum Seðlabanka Íslands

Viðskiptaráð Íslands hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra og umboðsmanni Alþingis bréf með ábendingum um nauðsynlegar umbætur á stjórnsýsluháttum Seðlabanka Íslands. Bréfið er sent í kjölfar fjölda athugasemda frá aðildarfélögum ráðsins varðandi starfshætti bankans við afgreiðslu undanþágubeiðna.

Bréf Viðskiptaráðs má í heild sinni lesa hér 

Viðskiptaráð hefur lagt áherslu á að afnema höft eins fljótt og auðið er, en samkvæmt áætlun ráðsins nam kostnaður þjóðarbúsins vegna þeirra um 80 milljörðum kr. á síðasta ári. Á meðan núverandi ástand varir er verulegur hluti alþjóðlegrar atvinnustarfsemi íslenskra fyrirtækja háður undanþágu frá höftum. Í því ljósi telur ráðið brýnt að endurskoða ferla innan gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands og bæta þann stjórnsýsluramma sem eftirlitið starfar samkvæmt þar til afnám hafta á sér stað.

Helstu ábendingar Viðskiptaráðs eru eftirfarandi:

  • Afgreiðsla umsókna tekur langan tíma og skortur er á leiðbeiningum. Dæmi er um að afgreiðsla undanþágubeiðnar hafi tekið um níu mánuði án þess að umsóknaraðili hafi verið upplýstur um ástæður tafa eða hvenær niðurstöðu væri að vænta.
  • Í dag eru engin tímamörk eða viðmið um hámarkstíma við afgreiðslu undanþágubeiðna sem fyrirtæki geta horft til við áætlanagerð í sínum rekstri. Slík óvissa getur valdið skaða ein og sér.
  • Ógagnsæi ríkir um ákvarðanatöku gjaldeyriseftirlitsins þar sem ákvarðanir þess eru ekki birtar. Viðskiptaráð telur ekkert því til fyrirstöðu að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans birti ákvarðanir sínar með ópersónugreinanlegum hætti.
  • Skortur er á kæruleið vegna synjunar á undanþágubeiðni, en aðili sem er ósáttur við niðurstöðu Seðlabankans þarf að bera hana beint undir dómstóla.
  • Jafnræði á milli umsækjenda hefur verið dregið í efa af forsvarsmönnum fyrirtækja. Dæmi eru um að aðilar hafi notast við ákveðna ráðgjafa við gerð undanþágubeiðna vegna tengsla viðkomandi við Seðlabankann. Þessar aðilar telja þá staðreynd hafa hjálpað við að fá skjótari og hagstæðari afgreiðslu mála.

Í ljósi ofangreindra atriða hvetur Viðskiptaráð fjármála- og efnahagsráðherra til að beita sér fyrir eftirtöldum umbótum:

  1. Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans bæti framkvæmd við afgreiðslu undanþágubeiðna með styttingu afgreiðslutíma og skilvirkari samskiptum við umsækjendur.
  2. Settur verði hámarkstími á afgreiðslu undanþágubeiðna. Tíminn gæti verið mismunandi eftir eðli beiðna.
  3. Gagnsæi og jafnræði í framkvæmd gjaldeyriseftirlitsins verði tryggt með birtingu ákvarðana með þeim hætti að þagnarskyldu sé gætt. Þannig mætti auka traust á ferlinu þar sem aðilar gætu fylgst með því að jafnræðis sé gætt við afgreiðslu beiðna. Þá gætu umsækjendur einnig lagt mat á það með auðveldari hætti hvort þeir eigi rétt á undanþágu.
  4. Kæruleið verði komið á að nýju þannig unnt sé að láta reyna á bæði á málsmeðferð og niðurstöðu ákvarðana með fljótvirkum hætti.

Jafnframt hvetur ráðið umboðsmann Alþingis til að beina þeim tilmælum til Seðlabankans að bæta framkvæmd við afgreiðslu undanþágubeiðna frá gjaldeyrishöftum svo tryggt sé að hún samræmist stjórnsýslulögum. Á meðan íslenskir aðilar þurfa að reka fyrirtæki sín undir höftum er alþjóðleg starfsemi þeirra að verulegu leyti háð undanþágum frá gjaldeyrisreglum. Því telur Viðskiptaráð mikilvægt að tryggja að stjórnsýsluhættir og verkferlar gjaldeyriseftirlits Seðlabankans séu til þess fallnir að lágmarka efnahagslega skaðsemi haftanna. Ofangreindar umbætur eru til þess fallnar að bæta stöðuna verulega í þeim efnum.

Bréf Viðskiptaráðs má í heild sinni lesa hér

Tengt efni

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022

Öfugmælavísur gærdagsins

Leiguverð á Íslandi hefur hækkað hlutfallslega minna en húsnæðisverð samanborið ...
10. jún 2022

Forgangsröðun í þágu verðmætasköpunar

Á þessum tímapunkti þurfa stjórnvöld að forgangsraða í ríkisfjármálum til ...
20. okt 2020