Skattadagurinn 2022: Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra

Ávarp Bjarna Benediktssonar á Skattadegi Viðskiptaráðs, Deloitte og SA, 13. janúar 2022

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra

Kæru fundargestir, gleðilegan skattadag.

Það er ánægjulegt að ávarpa þennan fund í dag. Það er alveg sérstaklega ánægjulegt nú, hafandi nokkuð góða sögu að segja. Sögu af nýliðnu kjörtímabili sem einkenndist, þrátt fyrir allt sem á gekk, af lægri vöxtum, auknum kaupmætti og já, lægri sköttum.

Það hefur alltaf verið trú mín að hóflegar álögur og hvetjandi umhverfi skili þegar uppi er staðið mestum árangri og síðustu fjögur ár eru ágætis vitnisburður um þetta. Við lækkuðum tekjuskatt einstaklinga verulega, sérstaklega fyrir tekjulægri heimili og héldum áfram að lækka tryggingagjald á fyrirtækin í landinu.

Við hækkuðum skattfrelsismörk erfðafjárskatts og frítekjumark vaxtatekna og létum frítekjumarkið ná til arðs og söluhagnaðar bréfa í skráðum félögum. Þannig vildum við ýta undir fjárfestingu og þátttöku almennings á markaði. Við innleiddum skattalega hvata til að styðja við nýsköpun, orkuskipti og framlög til almannaheillastarfsemi. Það var verulega mikilvægt og tímabært skref að stíga. Við sameinuðum eftirlitsstofnanir og stuðluðum þannig bæði í senn að öflugra eftirliti og hagkvæmari rekstri. Svona gæti ég haldið áfram að telja dæmin.

Og þegar heimsfaraldurinn skall á vorið 2020 var það ekki síst skattkerfið sem við beittum til að koma til móts við heimili og fyrirtæki í landinu. Þannig var mörkuð ný stefna um að vaxa út úr vandanum og veita fjárhagslegum stuðningi út í samfélagið í formi fjölbreyttra úrræða - frekar en að draga saman seglin og hækka skatta.

Tryggingagjaldið er dæmi um þetta. Við lækkuðum það tímabundið umfram miklar lækkanir síðustu ára. Launagreiðendum var gert kleift að fresta skattgreiðslum og við stækkuðum og framlengdum átakið Allir vinna. Lækkun bankaskatts var flýtt, gistináttaskattur tímabundið felldur niður og gjalddögum frestað, svo fátt eitt sé nefnt. Sömuleiðis tóku gildi lög um hvata fyrir fyrirtæki til aukinna fjárfestinga með flýtifyrningu eigna og sérstakri ívilnun vegna umhverfisvænna fjárfestinga. Eitt af því sem við vildum ekki sjá gerast í heimsfaraldrinum var að fjárfestingin myndi falla um of, það hefði komið i bakið á okkur siðar. Þess vegna fór ríkið í sitt fjárfestingaátak og þessum úrræðum var beitt til þess að reyna að örva fjárfestingu í einkageiranum.

Hér eru aðeins nefnd nokkur dæmi um þau skattaúrræði sem litu dagsins ljós, en sú stefna sem mörkuð var byggði á traustum grunni vegna fyrirhyggju áranna á undan. Hún grundvallaðist enn fremur á þeirri trú að allt myndi þetta að lokum borga sig, það væri ekki þörf á því að fara í skattahækkanir. Það væri frekar að við myndum ná okkur fyrr á strik með því að gefa eftir skatta, að örva, hvetja, skapa. Það myndi skila sér best fyrir samfélagið í heild og að lokum fyrir rikiskassann. Við vildum ekki fara í niðurskurð, við fórum í fjárfestingaátak.

Ég vil meina að við sjáum nú þegar afraksturinn af öllu þessu í tölunum úr rikisrekstri síðastliðins árs og í fjárlagafrumvarpi ársins 2022.

Störfin sem hafa skapast undanfarna 12 mánuði, það eru um 20 þúsund fleiri nú en í upphafi síðasta árs. Kaupmáttur, það er merkileg saga sem við höfum að segja þar, við höfum náð að verja kaupmáttinn fyrir allar tekjutíundir vinnandi fólks, kaupmáttur hefur aldrei verið meiri. Vextir eru lágir, jafnvel þótt þeir hafi hækkað að undanförnu hjá Seðlabankanum, þá eru þeir lágir í sögulegu samhengi og okkur hefur tekist að halda verðbólgu innan þolanlegra marka. Sú vinna heldur auðvitað afram. Afkoma ríkissjóðs er nú að batna um ríflega 100 milljarða milli ára og skuldahorfurnar hafa lagast frá því sem okkur sýndist fyrir nokkrum mánuðum saman um 300 milljarða til næstu fimm ára.

Allt skiptir þetta miklu máli. Nú þegar við sjáum öflugan viðsnúning í efnahagslífinu skiptir hins vegar ekki síður máli að huga að stöðugleikanum og stöðugleikann þarf að verja.. Við verðum að taka eftir því þegar Seðlabankinn fer í vaxtahækkanaferli og spyrja spurninga um það hvers vegna það er. Það er auðvitað aðallega vegna þess að framleiðsluslakinn er horfinn. Við höfum fengið varnaðarorð, með vaxtahækkunum og það er þess vegna eðlilegt að við drögum úr opinberum stuðningi eftir því sem aðstæður breytast og aðstæður leyfa.

Á nýju ári hafa því ýmis úrræði runnið sitt skeið, þó sértækum stuðningi við einstakar greinar í tímabundnum vanda verði haldið áfram. Þannig verða sérstakir styrkir fyrir veitingafólk áfram í boði og niðurfelling gistináttaskatts verður framlengd til ársloka 2023, svo dæmi séu tekin.

Átakið Allir vinna verður að hluta framlengt fram á mitt ár, en endurgreiðslur falla þá niður - fyrir utan að endurgreiðslur vegna byggingar- og viðhaldsvinnu við íbúðarhúsnæði lækka niður í 60% í lok ágúst.

Tímabundin lækkun tryggingagjalds féll niður um áramótin og þá er ég að vísa í þessa sérstöku viðbótarlækkun tryggingagjaldsins sem var tímabundin, það verður aftur 6,35% eins og árið 2020. Í því samhengi þarf að hafa hugfast að undanfarin ár hefur gjaldið lækkað verulega, en árið 2011 stóð það í 8,65%.

Þegar rætt er um tryggingagjaldið þá er einn punktur sem mig langar að koma á framfæri í dag og mér finnst fara forgörðum í allri umræðu um tryggingagjaldið og hlutverk þess. Gjaldið er einn stærsti einstaki tekjuliður ríkissjóðs og er ætlað að fjármagna umfangsmikla gjaldaliði eins og atvinnuleysistryggingar, að hluta almannatryggingar og auðvitað fæðingarorlof. Við höfum vanist því á undanförnum árum að ræða um breytingar á atvinnuleysisbótum og fæðingarorlofi án þess að setja það í samhengi við tryggingagjaldið, og þessu verður að breyta. Við verðum að taka heildstæða umræðu um tryggingakerfin sem tryggingagjaldinu er ætlað að fjármagna.

Það er sömuleiðis stór kostnaðarliður fyrir íslenskan vinnumarkað og það er því skiljanlegt að atvinnurekendur skuli halda því stöðugt á lofti þegar þrengir að, að þarna sé leið fyrir stjórnvöld til að standa með atvinnurekendum. Þetta samtal finnst mér að við þurfum aðeins að dýpka. Við þekkjum það að stöðugur þrýstingur er á lækkun gjaldsins, ég hef fullan skilning á þvi en bendi þá á móti á að á hinum kantinum er mikið ákall er um aukningu þeirra réttinda og greiðslna í þeim kerfum sem gjaldinu er ætlað að fjármagna. Þetta þarf að hafa í huga, ekki síst í komandi kjaraviðræðum næsta haust. Það skiptir miklu að skapa festu og sátt um gjaldið eftir fremsta megni, að það sé sjálfbært og stillt af við sem réttast stig til lengri tíma.

Það blasa hins vegar við okkur fleiri áskoranir á komandi misserum.

Það er skýrt markmið stjórnvalda að vera leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu. Síðustu ár hafa fyrirtæki og einstaklingar getað nýtt sér skattaívilnanir við kaup á umhverfisvænum farartækjum og árangurinn lætur ekki á sér standa.

Jákvæðri þróun fylgja hins vegar líka nýjar áskoranir. Skattlagning ökutækja miðast nú að miklu leyti við losun koltvísýrings, en tekjur ríkissjóðs af gjöldum á ökutæki og eldsneyti hafa lækkað síðustu ár. Að öllu óbreyttu munu þær halda áfram að lækka á komandi árum, enda fjölgar þeim hratt sem greiða lítið fyrir notkun vegakerfisins. Þar vísa ég í breiðum skilningi til þessa gjaldakerfis, bæði aðflutningsgjöldin og svo bensín og dísel gjöldin eru ekki að skila sér þegar um nýorkubíla er að ræða, þessa grænu bíla.

Það er mikilvægt að við byggjum brú úr gamla kerfinu yfir í nýtt kerfi og tryggjum ríkissjóði nægar tekjur til frambúðar til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja. Þess vegna er eitt stærsta verkefni nýs kjörtímabils í skatta- og gjaldamálum að koma á laggirnar framtíðartekjuöflunarkerfi vegna umferðar og orkuskipta. Þar horfum við meðal annars til þess hvort taka megi upp skattlagningu á notkun ökutækja út frá aflestri á kílómetrastöðu, samhliða því að efla áfram hvata til kaupa á vistvænum bílum. Sjáum til hvernig það allt saman gengur, þetta er eitt af stóru verkefnum og þar erum við farin af stað.

En ágætu fundargestir, það eru ekki bara áskoranir í kortunum, heldur líka mikil tækifæri. Undanfarið höfum við tekið stór skref í að auka gagnsæi; jafnt í ríkisrekstrinum, skattheimtu og víðar. Með Tekjusögunni, sem við settum í loftið á nýliðnu kjörtímabili, má sjá þróun ólíkra aldurs- og tekjuhópa síðustu áratugi byggða á gögnum úr skattframtölum Íslendinga. Frábært tól fyrir þá sem vilja ræða stöðu mála út frá gögnum, frekar en tilfinningum. Ég nefni þetta svona sem dæmi um tækifæri sem við getum gripið, til þess að dýpka umræðuna.

Á vefnum opinberumsvif.is drögum við fram lykiltölur um hvernig ríkið og sveitarfélög eru rekin. Og í fyrra var í fyrsta sinn hægt að sjá sundurliðað á álagningarseðlinum hvernig skattgreiðslurnar runnu í hvern málaflokk. Með áframhaldandi tækniþróun verður okkur kleift að ganga enn lengra hvað þetta varðar. Ég held reyndar að við höfum vannýtt tækifærin til að opna umræðuna um opinbera reksturinn fram til þessa, en þetta eru góð fyrstu skref, því að gagnsæi á þessu sviði skiptir miklu máli. Bæði sem aðhald við nýtingu almannafjár, en sömuleiðis til að fólk fái raunverulega tilfinningu fyrir því hvað verður um peningana. Að þeir hverfi ekki bara í “hítina”. Ég lít þannig á hlutina að það sé minn ábyrgðarhluti að tryggja að uppbyggileg umræða, byggð á gögnum, geti farið fram. Þetta er bara eitt litið dæmi um það hvernig við getum unnið miklu betur með gögnin sem ríkið býr yfir og þau eru mörg dæmin sem að fela í sér tækifæri fyrir okkur til að byggja upp betra samfélag með betri nýtingu gagna. Ég vil nefna eitt sérstaklega, að taka betri ákvarðanir byggðar á gögnum er auðvitað stórmál.

Nú í lokin vil ég rifja upp að í aðdraganda síðustu kosninga sóttum við fram undir slagorðinu Land tækifæranna. Slagorðið kjarnar þá sýn sem við viljum byggja á á öllum sviðum samfélagsins. Að einblína á tækifærin. Stærstu tækifæri ríkissjóðs til að veita enn betri og öflugri þjónustu felast í fleiri og öflugri skattgreiðendum á Íslandi, en ekki í auknum byrðum á þá sem fyrir eru. Þess vegna höfum við verið með þessa áherslu á að efla skattstofnana, að auka umsvifin, fjölga stoðunum og svo framvegis.

Það hefur verið keppikefli okkar að beita skattahvötum til að ýta undir nýsköpun og vöxt í hugverkadrifnum iðnaði, en útflutningstekjur í greininni tvöfölduðust úr tæpum 80 milljörðum árið 2013 í um 160 milljarða 2020. Ef haldið er rétt á spilunum eigum við enn mikið inni í greininni á komandi misserum, þetta getum við gert samhliða stöðugri sókn í rótgrónum greinum á borð við sjávarútveg, ferðaþjónustu, iðnað og landbúnað. Takið bara eftir því sem er að gerast í fiskeldinu, þar eru gríðarlegar útflutningstekjur að verða til. Sama gildir í heilsutengdum geirum allt frá lyfjaþróun yfir í forritun. Þetta eru greinar sem byggja á gömlum merg en eru mjög í vexti. Þessi tækifæri verðum við að sækja.

Njótið dagsins!

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024