Formaður Viðskiptaráðs: Nýsköpun leiðin til framfara

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, lagði í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, áherslu á rétt viðmót fyrirtækja og stjórnvalda við þeim öru tæknibreytingum sem nú eiga sér stað.

Katrín sagði í ræðu sinni heiminn aldrei hafa verið opnari og aðgengilegri en nú. Fyrirtæki á Íslandi hafi ekki farið varhluta af þessari þróun en erlend stórfyrirtæki hafi tekið sér bólfestu á okkar litla markaði með tilheyrandi upphlaupi og netfyrirtæki hvaðanæva að úr heiminum bjóði vörur sínar í gegnum netið. Ísland sé ekki lengur eyland nema að nafninu til.

Fyrirtæki og stjórnvöld þurfi að bregðast við

Ræddi Katrín einnig hlutverk Viðskiptaráðs í ört breytandi heimi. Sagði hún Viðskiptaráð eiga að taka sér stefnumótandi stöðu sem vettvangur framsækinna hugmynda og framfara til framtíðar í íslensku atvinnulífi, jafnt við önnur hlutverk ráðsins. Viðskiptaráð geri nú ákall til forystufólks þjóðarinnar, menntastofanna og atvinnulífsins um að stilla fókusinn rétt svo hér megi ríkja stöðugleiki og hagsæld til lengri tíma.

Katrín vék máli sínu næst að þeirri pressu sem er á stjórnendum fyrirtækja í dag að átta sig á og bregðast við þeim tæknibreytingum sem nú ríða nú yfir hraðar og af annarri stærðargráðu en nokkru sinni fyrr. Sömuleiðis séu stjórnvöld undir samskonar þrýstingi að beita sér af alvöru fyrir nýsköpun og aðlögun að breyttum heimi. Nefndi hún dæmi um Danmörk og Eistland sem bæði hafa horft á þessi mál sem forgangsmál á næstu árum.

Nýsköpun standi undir verðmætasköpun framtíðarinnar

Katrín Olga sagði leiðina til framfara á næstu árum vera í gegnum nýsköpun og fyrirtæki sem byggi á þekkingu og sköpun muni standa undir sívaxandi hluta verðmætasköpunar í heiminum. Þess vegna þurfi Ísland að leggja áherslu á að skapa hvata og umhverfi sem auðveldar hugvitsdrifna starfsemi, til að mynda með afnámi þaks á endurgreiðslur rannsóknar- og þróunarkostnaðar.

Loks sagði Katrín efnahagsaðstæður á Íslandi vera með allra besta móti. Slíkt góðæri þurfi að nýta til þess að tryggja þær undirstöður sem hægt er að treysta á þegar í harðbakkann slær. Rétti tíminn til þess að standa við hin góðu fyrirheit stjórnarsáttmálans sé núna.

Erindi Katrínar Olgu má nálgast hér

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar

Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja áskoranir en um leið ýmis tækifæri
6. apr 2022