Fullur salur og líflegar umræður um stefnu í menntamálum

Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins efndu til síðdegisfundar um stöðu og stefnu í menntamálum. Fundurinn var vel sóttur og líflegar umræður fóru fram bæði í erindum og pallborði.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fundarstjóri, setti fundinn og bauð Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra, velkominn í pontu. Í erindi sínu sagði Illugi ljóst að Ísland væri ekki að standa sig nægilega vel þegar litið væri til alþjóðlegra mælikvarða. Markmiðið væri að lífskjör á Íslandi eigi að vera eins og best verður á kosið en þá verði að vera til staðar menntakerfi sem er a.m.k. ekki síðra en í nágrannalöndunum. Lykill að því að viðhalda lífskjörum sé tiltekt í menntakerfinu. Tekin hafi verið ákvörðun um að stytta námstíma í framhaldsskóla úr 4 árum í 3 ár. Það sé liður í því að leiðrétta stöðu íslenskra námsmanna samanborið við OECD ríki, en eins og er er Ísland það eina sem að ver 14 árum til undirbúnings fyrir háskólanám.

Kristin Clemet, menntamálaráðherra Noregs frá 2001-2005, fjallaði um umbætur í menntamálum í Noregi sem ráðist var í í kjölfar slæmrar niðurstöðu í PISA-könnuninni árið 2001. Námsárangur hélst ekki í hendur við það mikla fjármagn sem fór í menntamál í Noregi og því margt líkt með stöðu Íslands í dag. Kristin sagði árangursmælingar hafa skort í norska skólakerfinu og lítið hafi verið um sjálfstætt rekna skóla. Átakið í Noregi fól í sér prófanir á landsvísu og meiri áhersla var lögð á að þjálfa grunnfærni nemenda. Þar að auki var farið í aðgerðir til þess að bæta menntun kennara og skólastjórnenda og með aukningu fjölda sjálfstætt rekinna skóla fengu nemendur og kennarar aukið valfrelsi. Kristin sagði frelsið mikilvægt og endurspeglaðist það í eftirfarandi orðum hennar: „In a free society, people that want to reduce freedom should prove its neccessity, not vice versa“.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, kynnti í erindi sínu nýtt rit sem fjallar um sameiginlega sýn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins á sóknarfæri í menntamálum. Í erindi Björns kom fram að menntun sé veigamikil fjárfesting fyrir bæði hið opinbera og einstaklinga. Þá verji Ísland meiri fjármunum en grannríkin í menntamál, sér í lagi á grunnskólastigi. Þrátt fyrir þetta séum við með næstlakasta námsárangur Norðurlandanna á grunnskólastigi og skólastigið skili nemendum ekki nógu vel undirbúnum fyrir framhaldsskóla. Þá fór Björn yfir tillögur samtakanna að umbótum í menntun til að snúa þessari þróun við. 

Nánari upplýsingar um kynningu Björns má nálgast hér

Gestir í pallborði voru Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, Jóna Á. Gísladóttir, foreldri og rithöfundur, Stefán Einar Sigmundsson, nemandi við Menntaskólann á Akureyri og Valdís Lilja Andrésdóttir, umsjónarkennari við Ísaksskóla. Í pallborðsumræðum var víða komið við og bárust m.a. spurningar úr sal, sem flestum var beint til menntamálaráðherra.

Umfjöllun um ritið „Stærsta efnahagsmálið - sóknarfæri í menntun“ má nálgast hér

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Ragnar Sigurður hefur störf hjá Viðskiptaráði

Ragnar Sigurður Kristjánsson er nýr sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs
4. sep 2023