Hagnýt nálgun gagnvart áskorunum í íslensku efnahagslífi

Í viðtali í Morgunblaðinu ræddi Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, þær miklu áskoranir sem framundan eru í íslensku efnahagslífi. Frosti sagði efnahagsstöðugleikann brothættan og aflétta þurfi gjaldeyrishöftum, ná stöðugleika á vinnumarkaði og taka á rekstri hins opinbera.

Viðskiptaráð gerir opinbera geirann að umfjöllunarefni sínu á Viðskiptaþingi í ár undir yfirskriftinni „Tölvan segir nei: Hvernig má innleiða breytingar hjá hinu opinbera?“ og fjallar einnig um áskoranir við innleiðingu kerfisbreytinga. Samhliða þinginu verður gefið út rit þar sem leitast verður við að svara grundvallarspurningum þegar ákvarðanir um aðkomu hins opinbera eru annars vegar. Frosti sagði mikilvægt að spyrja okkur hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera, hvar aðkoma þess sé æskileg, hvernig skuli fjármagna grunnþjónustu, hver skuli sjá um framkvæmd þjónustunnar, hvernig megi veita þjónustuna með sem skilvirkustum hætti og hvernig megi lágmarka byrðar skattgreiðenda.

Frosti sagði ekki alla á eitt sáttir um það hvernig svara skuli þessum spurningum og að mikilvægt sé að aðskilja pólitíska umræðu og hagnýta nálgun. Hann kallar eftir því að umræða um opinberan rekstur verði með öðrum hætti en er í dag og það þurfi meiri umfjöllun um ávinning kerfisbreytinga og þá heildarhagsmuni sem eru í húfi. Breytingar séu forsenda framleiðniaukningar og bættrar þjónustu og þá sagði Frosti ljóst að ef skapa ætti svigrúm fyrir bætt kjör opinberra starfsmanna þurfi jafnvel að ráðast í stórar kerfisbreytingar.

Frosti vísar í viðtalinu til umræðu sem hefur átt sér stað um fjölda opinberra starfsmanna og bendir á að það ætti ekki að vera markmið að hámarka fjölda opinberra starfa heldur að tryggja að þau störf séu þörf, eftirsóknarverð og að starfskjör séu góð. Verðmætasköpun einkageirans þurfi að geta staðið undir fjármögnun hins opinbera og í ljósi fjölgunar opinberra starfsmanna frá aldamótum sé þróunin ekki sjálfbær.

Mennta- og velferðarmál er einn stærsti útgjaldaliður hins opinbera og bendir Frosti á þau fjölmörgu tækifæri sem megi nýta til að hagræða í kerfinu sbr. umfjöllun í skýrslu Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um menntamál sem gefin var út í haust. Þar nefndi Frosti sérstaklega þörf þess að gera kerfisbreytingar að stærri áhersluþætti í kjaraviðræðum og tekur sem dæmi þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulagi framhaldsskólanáms en þær sköpuðu svigrúm til aukinnar launahækkunar. Samhliða því gerir framleiðniaukning það að verkum að bjóða má betri kjör. Frosti kallar eftir því að sambærilegar endurbætur á námsfyrirkomulagi verði gert á öðrum skólastigum samhliða kjarasamningagerð.

Að lokum fjallar Frosti um skattkerfið og þá umræðu sem spratt upp í kjölfar ummæla Kára Stefánssonar um skattlagningu launa og fjármagnstekna og benti á mikilvægi þess að skattkerfið sé einfalt og gagnsætt. Skattgreiðendur þurfi að geta gert sér grein fyrir því hvaða skatta þeir eru að borga og hversu hátt hlutfall tekna fer í skatt. Einnig undirstrikaði Frosti mikilvægi þess að skattkerfið sé ekki letjandi og dragi úr verðmætasköpun. Hér þurfi að ríkja umhverfi sem sé alþjóðlega samkeppnishæft þar sem að við búum í umhverfi þar sem samkeppni ríkir um fólk, fjármagn og fyrirtæki.

Viðtalið birtist fimmtudaginn 22. janúar 2015 á bls. 8 í viðskiptablaði Morgunblaðsins.

Upplýsingar um Viðskiptaþing

Tengt efni

Ákvörðun sem kostað hefur íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða

Að innleiða regluverk, sem sniðið er að milljóna manna þjóðum, með meira ...
2. okt 2023

Viðskiptaþing 2015 (Uppselt)

Viðskiptaþing árið 2015 verður haldið undir yfirskriftinni „Tölvan segir nei: ...
12. feb 2015

Bjartsýni á uppbyggingu hlutabréfamarkaðar

„Traust á fjármálamarkaði er ekki sjálfgefið og eykst heldur ekki af sjálfu sér“.
16. maí 2012