Viðskiptaþing: Íslendingar standa frammi fyrir sögulegum tækifærum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fjallaði á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, um áskoranir sem hið opinbera stendur frammi fyrir. Sagði hann kröfur samfélagsins um aukna opinbera þjónustu koma til með að aukast á næstu áratugum. Þetta ætti sér stað vegna tækniframfara, nýrra staðla, nýrra þarfa, aukinnar neytendaverndar og aukins eftirlits. Sagði hann lýðfræðilega þætti einnig setja þrýsting á útgjöld og myndi slíkt ekki hvað síst birtast í kostnaði við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Sigmundur sagði að óhjákvæmilega myndi koma að þolmörkum í útgjaldaaukningu hins opinbera og að forgangsröðun yrði sífellt mikilvægari. Skatttekjur væru ekki ótæmandi auðlind og að sú eðlilega krafa ætti að vera uppi að þegnar landsins feli ekki auð sinn og tekjur fyrir skattayfirvöldum. Sagði hann slíkt aldrei vera liðið.

Forsætisráðherra ræddi deilur á vinnumarkaði og sagði ríkið ekki hafa verið leiðandi í launaþróun. Ef tölulegar upplýsingar um launaþróun væru skoðaðar væri ljóst að laun ríkisstarfsmanna hafi hækkað minna en laun á almennum vinnumarkaði. Jafnframt sagði hann samninga við einstakar stéttir, eins og lækna, ekki geta gefið fordæmi fyrir þá samninga sem framundan væru á vinnumarkaði. Ekki væri hægt að bera skammtímasamninga til eins árs saman við lengri samning með verulegum breytingum á vinnufyrirkomulagi. Þá biðlaði hann til fólks um að taka ekki þátt í höfrungahlaupi í þeim kjaraviðræðum sem framundan væru heldur horfa til heildarhagsmuna þjóðfélagsins.

Loks ræddi Sigmundur stöðu Íslands í samfélagi þjóða sem litaðist ekki síst að tilvist fjármagnshafta. Höftin yllu vissulega skaða í samfélaginu en ekki mætti kenna þeim um allt sem illa færi. Heimsvæðing viðskipta og fjárfestinga gæti ávallt orðið til þess að Ísland myndi sjá eftir öflugum fyrirtækjum úr landi, líkt og nýlegt dæmi um flutning fyrirtækisins Promens sýndi. Sigmundur sagði góðu fréttirnar þær að losun hafta væru í góðum farvegi en að nauðsynlegt skilyrði fyrir afnámi þeirra væru að efnahagslegum stöðugleika yrði ekki ógnað. Af því væri enginn afsláttur gefinn.

Sigmundur sagði framtíð Íslendinga bjarta. Forðast þyrfti að tala eins og allt væri ómögulegt á Íslandi. Hér byggi fólk við góðar aðstæður og Íslendingar stæðu frammi fyrir sögulegum tækifærum til verðmætasköpunar. Fagna ætti skynsamlegum ábendingum um það sem betur mætti fara en leiða hjá sér úrtöluraddir og niðurrifsstarfsemi. Sagði hann þjóðina verða að trúa á sjálfa sig og að hægt væri að gera hlutina öðruvísi og betur. 

Tengt efni

Dæmalaus aðför Samkeppniseftirlitsins að upplýstri umræðu

Í ljósi tilkynningar Samkeppniseftirlitsins telja Samtök atvinnulífsins (SA) og ...
22. okt 2021

Litið yfir sérkennilegt ár

„Enginn veit neitt, en allir eru að gera sitt besta,“ hefur ósjaldan flogið í ...
8. jan 2021

Bless 2020

Það má sem sagt segja ýmislegt um þetta ár. Kannski var það öðru fremur ár ...
7. jan 2021