Már: Peningastefnan er á krossgötum

Árlegur peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun fyrir fullu húsi gesta. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, flutti aðalerindi fundarins undir yfirskriftinni „Peningastefna á krossgötum“. Staða og horfur í efnahagsmálum voru í brennidepli bæði í erindi seðlabankastjóra og umræðum í kjölfarið. Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, stýrði fundi.

Már: Peningastefnan aðhaldssamari en áður
Í erindi sínu sagði Már að peningastefnan væri á þrenns konar krossgötum: umskiptum frá framleiðsluslaka yfir í -spennu, óróleika á vinnumarkaði og losun fjármagnshafta. Þessir þættir spili saman með hætti sem geri mótun og framkvæmd peningastefnu vandasamari.

Már sagði að umskipting frá framleiðsluslaka yfir í –spennu kalli á aðhaldssamari peningastefnu en áður. Ástandið á vinnumarkaði sé mikið áhyggjuefni í því samhengi. Már sagði alþjóðlega verðþróun vinna á móti ástandinu en óvíst sé hve lengi það muni vara.

Losun hafta er framundan og sagði Már innstreymi í tengslum við vaxtamunaviðskipti þegar hafið. Miðlunarferli peningastefnunnar raskist af þessum sökum þar sem miðlun í gegnum vaxtafarveginn hafi veikst. Már taldi þetta flækja framkvæmd peningastefnunnar og fela í sér áhættu varðandi fjármálastöðugleika. Í því samhengi sé brýnt að ljúka við að innleiða bæði peningastefnu og varúðarstefnu sem tryggja að markmiðum um efnahagslegan stöðugleika verði náð eftir að höftum verður aflétt.


Áskoranir peningamála lúxusvandamál
Að loknu erindi Más tóku við pallborðsumræður. Þátttakendur í pallborði voru Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafi Virðingar, Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri markaða hjá Landsbankanum, Ólafía Björk Rafnsdóttir, formaður VR, og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.

Ásgeir sagði að núverandi áskoranir peningamála væru að mörgu leyti lúxusvandamál. Hraður vöxtur ferðaþjónustunnar hafi aukið svigrúm til að hækka laun og auka einkaneyslu. Hrefna sagði að skortur hafi verið á næmni á fjármálamörkuðum hérlendis og nefndi í því samhengi óvænta vaxtahækkun Seðlabankans ásamt óvarlegum fullyrðingum stjórnmálamanna á meðan markaðir eru opnir.

Frosti sagði að í tæknilegri umræðu um peningamál gleymdist oft að grundvöllur bættra lífskjara væri framleiðni. Því ætti umræða að snúast í meiri mæli um leiðir til að styrkja grundvöll framleiðnivaxtar, til dæmis með auknum stöðugleika, kerfisbreytingum í opinberum rekstri og bættu regluverksumhverfi atvinnulífs.

Fjármálastjórn hins opinbera gagnrýnd
Fjármálastjórn hins opinbera var gagnrýnd af þátttakendum í pallborði. Þórarinn sagði óheppilegt að á sama tíma og verið sé að herða peningastefnuna sé slaki í ríkisfjármálum að aukast. Hann sakni því umræðu um hvernig bregðast megi við því. Frosti sagði að stjórnmálin hefðu ekki framfylgt loforðum um markvissar aðgerðir til að styðja við aukinn framleiðnivöxt. Þá sagði Ólafía að stjórnvöld ættu meginsök á þeirri staðreynd að launahækkanir séu hærri en sem samræmist efnahagslegum stöðugleika. Það megi rekja til samninga ríkisins við kennara og lækna sem hafi sett tóninn fyrir aðra á vinnumarkaði.

Samfélagsbanki óskynsamleg hugmynd
Pallborðsgestir voru sammála um að þær hugmyndir um opinberan samfélagsbanka sem hafa komið upp væri óskynsamlegar. Þórarinn sagði sína skoðun vera að samfélagsbanki sé slæm hugmynd. Hrefna sagði að slíkar hugmyndir samræmdust ekki evrópureglum um samkeppni á fjármálamarkaði og væru því ekki leyfilegar undir EES-samningnum. Hún hvatti stjórnvöld þess í stað til að standa við áform um sölu á 30% hlut í Landsbankanum, helst með skráningu bankans í kauphöll.

Þá sagði Ásgeir að mikill kostnaður og áhætta væri fólgið í því að taka stærsta banka landsins og breyta honum í samfélagsverkefni. Reynslan sýni að opinbert eignarhald á fjármálamarkaði til að ná samfélagslegum markmiðum hafi gefist illa. Líta megi til reynslunnar af Íbúðalánasjóði í því samhengi. Ásgeir hvatti stjórnvöld frekar til að losa frekar um peninga úr bankakerfinu og nota þá fjármuni í verkefni sem samræmast betur grunnhlutverki þess og nefndi nýtt sjúkrahús sem dæmi í því samhengi. 

Myndir frá fundinum eru aðgengilegar á Facebook-síðu Viðskiptaráðs

Tengt efni

Andri nýr formaður Viðskiptaráðs – Ný stjórn kjörin

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fór fram í dag. Þar var kunngerð niðurstaða úr ...
7. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
21. ágú 2023