Ræða Katrínar Olgu Jóhannesdóttur á Viðskiptaþingi

Góðir gestir, komið þið sæl og verið hjartanlega velkomin á Viðskiptaþing.

Yfirskrift þingsins má segja að sé dæmigerð fyrir þá stöðu sem við búum við í dag, á Íslandi sem og í öllum heiminum. „Skyggni nánast ekkert – forysta í heimi óvissu“.

Er of fast að orði komist með þessari yfirskrift? Ég held ekki – hún er mjög lýsandi fyrir það ástand sem við búum við í dag. Það má segja að við séum á ákveðnum tímamótum, og hægt að segja að hér takist á viðhorf sem líkja má við fortíð, nútíð og framtíð. Við skulum skoða þetta nánar.

Þau viðhorf sem byggja á fortíðinni halda örvæntingarfullu taki á því sem var. Hér er haldið í gamlar hefðir, gamlar leiðir og að eina leiðin til að halda áfram sé að viðhalda þeim.Við sjáum þessi viðhorf bæði alþjóðlega sem og innanlands. Alþjóðlega speglast þetta meðal annars í kjöri á Trump sem forseta Bandaríkjanna – enda þekkjum við öll slagorðið “Make Amerika great again” – við sjáum þetta með Brexit og í vaxandi þjóðernishyggju. Allt byggir þetta á gömlum tíðaranda sem ríghaldið er í.

Hér á landi birtist þetta meðal annars í þeirri orðræðu sem ný verkalýðsforysta hefur tileinkað sér – að það sé stétt auðvaldsins sem haldi verkalýðnum niðri – neitað er að horfa til staðreynda, kynt er undir sundurleitni, meira er gert úr misskiptingu á Íslandi en efni standa til og varnaðarorð sérfræðinga eru hunsuð – þetta er orðræða sem við höfum ekki heyrt til fjölda ára. Við sjáum þetta einnig í jafnréttisbaráttunni, þar sem karlar eru ennþá ríkjandi sem forstjórar og stjórnendur fyrirtækja.

Viðhorf byggt á nútíðinni er staðan í dag, sem einkennist af stöðugleika, sem ætti að skila okkur hvað mestum árangri og ánægju. En þrátt fyrir eitt mesta hagvaxtar- og verðstöðugleikaskeið í sögu landsins, einstakan efnahagslegan árangur og alþjóðlegar samanburðartölur sem sýna bæði jafna og bætta stöðu landsmanna heilt á litið - ríkir ekki sátt í landinu.

Óróinn kristallast í pólaríseraðri umræðu á frétta- og samfélagsmiðlum landsins þar sem jaðardæmi eru notuð til að lýsa hinni almennu þróun og staðreyndir látnar víkja fyrir tilfinningum. Rauntölur um stöðu samfélagsins eru oftar en ekki slegnar út af borðinu og raddir skynseminnar fá æ minna pláss í umræðunni.

Síðan eru það þau sem horfa til framtíðar, eru sífellt að ögra fortíðinni og nútíðinni og vilja vera boðberar og gerendur breytinga. Það er okkar hlutverk.

Við heyrum æ fleiri raddir tala fyrir því að huga að heildarhagsmunum en ekki sérhagsmunum, að flokkunin í hægri og vinstri sé úr sér gengin, rétt eins og við og þið nálgunin – heldur sé það heildin og málefnin sem snúa að henni sem skipta máli.

Við sjáum þessa hreyfingu víða – meðal annars í B-team, sem Halla Tómasdóttir stýrir nú undir dyggri stjórn Paul Polman sem er einn af aðalfyrirlesurunum hér í dag, ásamt Valerie Keller. Við sjáum þessar breytingar í áhuga á alþjóðlegum málum s.s. loftslagsmálum, áhuga fjárfesta á fjárfestingum er hlúa að samfélagslegri ábyrgð og vitundarvakningu um að einfalt markmið um hagnað sé ekki nóg. Það er því að verða umpólun.

Við verðum að horfast í augu við breytt samfélag. Finna þarf leiðir til að tryggja samheldni og áframhaldandi uppbyggingu til að tapa ekki niður þeim góða árangri sem hefur náðst. Hvað erum við að gera til að efla getu og vilja þeirra sem landið byggja til að auka verðmætasköpun og drífa áfram frekari hagvöxt og velferð? Hver er hvati einkaaðila til að taka áhættu til að skapa verðmæti hér á landi þegar við sjáum að ríkið hefur breitt út faðminn með auknum umsvifum og ítökum í atvinnustarfsemi landsins? Hugsum við til framtíðar, til lengri tíma en til næsta ársfjórðungs eða kosninga? Hafa leiðtogar í landinu náð að skapa þann trúverðugleika og þau gildi sem við viljum lifa eftir sem þjóð?

Nú sem aldrei fyrr er þörf fyrir leiðtoga sem hreyfa við samfélaginu. Leiðtoga sem skilja tilgang og samhengi hlutanna og geta málað þá mynd skýrt upp. Leiðtoga sem setja langtímastefnu og halda kúrs þó svo að á móti blási. Leiðtoga sem sjá ábyrgð sína sem samfélagslega en ekki einungis bundna fjárhagslegum mælikvörðum eða stjórnmálastöðu. Hér þarf því að taka inn þætti sem hlúa að mannauðnum og samfélaginu.

Þetta getur kallað á djarfar ákvarðanir - breytta nálgun og stjórnun.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, vinnur eftir þessari nálgun og sagði á World Economic Forum í janúar síðastliðnum, að nauðsynlegt væri að hætta að mæla hagvöxt og gengi landa eingöngu útfrá fjárhagslegum stærðum. Hún nefndi að bæta þyrfti við nýjum mælikvörðum sem snúa að meiri fjölbreytni til að gera gott samfélag enn betra og það eru þættir eins og „góðvild” (kindness), „samkennd” (empathy) og „velferð” (well-being). Þannig væri verið að nálgast það sem fólk kallar eftir; ekki aðeins efnahagslegan ábata heldur framfarir sem almenningur finnur á eigin skinni og upplifir sem raunverulega aukna velsæld og velferð.

Við skulum velta fyrir okkur menntakerfinu út frá þessum breyttu tímum – erum við að aðlaga það nóg að því sem koma skal – frá vöggu til grafar? Við erum ennþá meira og minna að kenna eins og kennt hefur verið frá örófi alda – með einhverri smáaðlögun að nútímanum – við erum einnig að mennta fólk út frá hefðbundnum leiðum og hefðbundum fögum – við erum ekki að velta nóg fyrir okkur hvaða kunnáttu og færni þurfi til framtíðar.

Við sjáum vaxandi misræmi á milli menntunar og starfa á vinnumarkaði, sem m.a. birtist í fjölgun háskólamenntaðra langt umfram fjölgun slíkra starfa. Við sjáum einnig að hlutfall nemenda í verk- og raunvísindagreinum á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í OECD ríkjum. Sama má segja með starfsnám – of fáir sækja í það þó að þörfin sé til staðar.

Við þurfum að breyta nálgun okkar til menntunar og skoða hvað það er sem vélar eða sjálfvirknivæðing geta ekki komið með að borðinu, enda er talið að um 800 milljón starfa verði sjálfvirknivæðingu að bráð fyrir árið 2030, sem er rétt handan við hornið. Við þurfum að efla þætti eins og sköpun og sköpunargáfu, umhyggju og gagnrýna hugsun – þessu eiga vélar erfitt með að sinna.

Áskoranir nútímaleiðtoga breytast í takt við gífurlegt upplýsingaflæði og tækniframfarir. Auknar áherslur á viðskiptasiðferði, samfélagsábyrgð og sjálfbærni eru að gjörbreyta viðskiptaháttum.

Hvað þarf til að ná árangri í heimi sem breytist á ljóshraða? Það þarf framsýni, kjark, einlægni og auðmýkt, ný viðhorf, fjölbreytileika og nýsköpun.

Erum við að vinna nóg með þessa þætti í dag?

Framsýni er lykilorð og hefur aldrei skipt eins miklu máli og nú – og mig langar að draga það fram sérstaklega. Hvernig eigum við að takast á við allar þessar breytingar sem munu bylta samfélagi okkar, án þess að horfa til framtíðar og varða veginn þangað? Framsýni krefst kjarks – kjarksins til að taka erfiðar ákvarðanir, kjarksins til að mála myndina, kjarksins til þess að nýta fjölbreytileikann sem liggur allstaðar fyrir fótum okkar. Kjarkur er nauðsynlegur meðreiðar við breytingar – því hvet ég leiðtoga Íslands til að vinna með kjarkinn.

Ég ætla að ræða við ykkur um fjölbreytileikann – ég tel að hann sé lykillinn að árangri – þar sem fjölbreytileikinn felur í sér víðsýni, umburðarlyndi, tækifæri og sköpun.Þar komum við að þeim fjölbreytileika sem er mér einstaklega kær, og það eru jafnréttismál. Ég þreytist seint á að ræða þau enda eru þau fyrir mér uppspretta hagsældar og hrein og klár viðskiptaleg ákvörðun. Enn og aftur vil ég minna á stöðu kvenna innan íslensks viðskiptalífs, og þá sérstaklega á sviði stjórnunar, en eins og þið munið er eingöngu 8-10% fyrirtækja hér á landi stýrt af konum og ekki hefur orðið mikil breyting þar á, síðan ég fór yfir þetta á síðast þingi. Það er því ekki vegna góðs árangurs íslensk viðskiptalífs að Ísland er númer 1 í jafnréttismálum alþjóðlega, þann árangur ber frekar að þakka framsýni opinbera geirans og sveitarstjórnarstigsins.

Viðskiptaráð hefur ávallt haft það í stefnu sinni að einkageirinn sé löngum heppilegri til að ná árangri og stýra mörgum þáttum samfélagsins, því höfum við ekki náð þegar kemur að jafnréttismálum – hér þurfa því hluthafar, stjórnarmenn og forstjórar í íslenskum fyrirtækjum að taka sig á – sýna framsýni og kjark til að brjótast úr viðjum og vana fortíðarinnar.

Ef við rýnum í smá tölfræði, þá höfum við því miður ekki séð þá framsýni og kjark við ráðningar á forstjórum í skráðum fyrirtækjum, en síðan 2012 hafa 14 karlmenn verið ráðnir sem forstjórar þeirra 18 skráðra fyrirtækja sem þar eru en engin kona. Það er sóun að nýta ekki kvenauð og þann fjölbreytileika sem hann veitir. Jafnréttismál snúast fyrst og fremst um verðmætasköpun – sem við erum að fara á mis við, eins og staðan er núna.

Góðir fundargestir.

Þó svo að skyggni sé nánast ekkert vitum við að með að skýrum tilgangi, frelsi og færni má feta öruggan veg til árangurs, velferðar og aukinna tækifæra. Þetta hefur Viðskiptaráð ávallt haft að leiðarljósi – en frjáls viðskipti eru líklegust til að leiða af sér öfluga sköpun verðmæta sem eru órjúfanlegur hluti af þeirri heild sem gott samfélag er. Frelsinu fylgir hins vegar ábyrgð og til að skapa og viðhalda trausti til atvinnulífsins verðum við að standa undir þeirra ábyrgð. Viðskiptaráð Íslands mun leggja sitt á vogarskálarnar til að efla viðskipti sem skila aukinni hagsæld til þeirra sem landið byggja. Ég þakka fyrir mig og fel Védísi fundarstjórnina á nýjan leik.

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Hvalir eru ekki blóm

„Ég skil að það sé freistandi að skrifa fréttir um innkaupakörfu áhrifavalds í ...
1. nóv 2023