Uppbygging ferðamannastaða í boði skattgreiðenda

Stjórnvöld hafa fallið frá áformum um upptöku náttúrupassa. Þess í stað stendur til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða með fjárframlögum úr ríkissjóði. Því er ljóst að kostnaður vegna aukins átroðnings á helstu ferðamannastöðum verður borinn af skattgreiðendum í stað þeirra sem njóta þjónustunnar. Afleiðingar þess verða óhjákvæmilega hærri álögur eða skert þjónusta í öðrum málaflokkum.

Viðskiptaráð lýsir yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu, enda telur ráðið gjaldtöku á ferðamannastöðum vera bestu leiðina til að fjármagna uppbyggingu ferðaþjónustu. Slík gjaldtaka leggst á þá sem njóta ávinningsins af uppbyggingu ferðamannastaða, getur dregið úr átroðningi á vinsælustu áfangastaðina og skapar hvata fyrir greinina til að koma á fót nýjum áfangastöðum. Með beinum framlögum úr ríkissjóði verður engu þessara markmiða náð.

Þótt Viðskiptaráð hafi gert athugasemdir við útfærslu náttúrupassa í umsögn um fyrirliggjandi frumvarp studdi ráðið engu að síður framgöngu þess. Frumvarpið í núverandi mynd væri fyrsta skref í átt að þróaðara kerfi sem nær fram markmiðum um náttúruvernd samhliða aukinni framleiðni og verðmætasköpun án þess að byrðar skattgreiðenda þyngist.

Það er von Viðskiptaráðs að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína og innleiði markaðsmiðaða lausn í stað beinna ríkisframlaga með tilheyrandi aukningu á almennri skattbyrði. Einungis þannig verður hægt að skapa umgjörð fyrir sjálfbæra uppbyggingu ferðamannastaða til frambúðar.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Viðskiptaráð hvetur löggjafann til að leita hófsamari leiða

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum
1. nóv 2022

Allt í botn og engar bremsur hjá sveitarfélögunum?

Um árabil hefur rekstur sveitarfélaga á Íslandi verið ósjálfbær og í aðdraganda ...
6. maí 2022