VÍ fagnar tillögum nýrrar skýrslu um bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla

Nýútkomin skýrsla nefndar Menntamálaráðuneytisins um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er fagnaðarefni. Almennt eru tillögur skýrslunnar til þess fallnar að bæta umhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi. Sér í lagi fagnar Viðskiptaráð þeim tillögum sem snúa að stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og afnámi banns á áfengis- og tóbaksauglýsingar.

Viðskiptaráð hefur áður talað fyrir mikilvægi þess að Ríkisútvarpið hverfi frá hefðbundnum auglýsingamarkaði en RÚV er eini ríkisfjölmiðillinn á Norðurlöndunum sem stendur í beinni samkeppni við einkaaðila á markaði. Hugmyndin er langt í frá ný af nálinni en árið 2008 lagði Samkeppniseftirlitið til að fyrirkomulagið yrði endurskoðað þar sem það leiði til alvarlegrar takmörkunar á samkeppni. Þá hefur áður verið ályktað um málið hjá nefndarsviði Alþingis, auk þess sem ráðamenn hafa sagt breytingar á fyrirkomulaginu brýnar. Nú er mikilvægt að skrefið verði loks tekið.

Þá telur ráðið það skref í rétta átt að afnema bann á áfengis- og tóbaksauglýsingum eins og bent var á í umsögn ráðsins um áfengisfrumvarpið svokallaða síðasta vor. Þrátt fyrir bann á auglýsingum eru áfengis- og tóbaksauglýsingar sýnilegar landsmönnum á öllum aldri á degi hverjum. Þær er ýmist að finna í erlendum miðlum, undir formerkjum léttöls eða sem „duldar“” auglýsingar. Afnám bannsins jafnar samkeppnisstöðu innlendra áfengisframleiðenda og fjölmiðla við samkeppnisaðila sína erlendis.

Loks tekur ráðið heilshugar undir hugmyndir um svokallaðan samkeppnissjóð um innlenda dagkrárgerð sem komið hafa upp í kjölfar skýrslunnar. Hefur Viðskiptaráð áður viðrað slíkar hugmyndir. Með því fyrirkomulagi stæðu allir fjölmiðlar landsins jafnfætis þar sem keppt yrði um fjárveitingar með gagnsæjum hætti. Dæmi um slíkt fyrirkomulag er Kvikmyndasjóður Íslands. Í stað þess að framleiða efni sjálft með opinberu framleiðslufyrirtæki veita stjórnvöld samkeppnisstyrki til framleiðslu á efni í gegnum sjóðinn og leysa þannig úr læðingi kraft samkeppnisumhverfis.

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til þess að ganga í þessi mál hið fyrsta og bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði með fyrrgreindum tillögum.

Tengt efni

Skoða þarf fleiri hliðar á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðla

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið.
16. feb 2022

Aukin kostnaðarvitund almennings um tekjuöflun RÚV

Aukið gagnsæi þessarar skattheimtu eykur ekki aðeins kostnaðarvitund almennings ...
26. mar 2021

Ráðast þarf á rót vandans á íslenskum fjölmiðlamarkaði

Það er ekki aðeins á auglýsingamarkaði sem samkeppnisstaða RÚV hefur áhrif
5. feb 2021