Viðskiptaráð kynnti áherslur sínar á kosningafundi í morgun

Viðskiptaráð Íslands bauð fulltrúum stjórnmálaflokka til fundar og þáðu frambjóðendur níu flokka boðið.

Viðskiptaráð Íslands stóð í morgun fyrir kosningafundi með fulltrúum stjórnmálaflokka. Fulltrúum þeirra flokka sem mælst hafa með yfir 5% fylgi í könnunum síðustu vikna var boðin þátttaka á fundinum og þáðu frambjóðendur níu flokka boðið, það voru þau: 

 • Bergþór Ólason, oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi 
 • Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins 
 • Björn Leví Gunnarsson, oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður 
 • Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar
 • Guðmundur Auðunsson, oddviti Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi 
 • Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 
 • Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður 
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins 
 • Tómas A. Tómasson, oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður

Á fundinum, sem var einungis opinn aðildarfélögum Viðskiptaráðs, gafst fulltrúum íslensks viðskiptalífs færi á að eiga beint og milliliðalaust samtal við ofangreinda frambjóðendur. 

Samhliða fundinum hefur Viðskiptaráð birt yfirlit yfir þau atriði sem ráðið og aðildarfélagar þess telja mikilvægt að lögð sé áhersla á, bæði nú í aðdraganda alþingiskosninga en ekki síður þegar kemur að störfum ríkisstjórnar á nýju kjörtímabili.  

Yfirskrift áherslna Viðskiptaráðs er Verðmætasköpun er forsenda velferðar og leggur ráðið sérstaka áherslu á að stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar verði að leggjast saman á árarnar svo áfram megi standa undir framúrskarandi lífskjörum á Íslandi. Saman mynda fyrirtækin í landinu eina af meginstoðum velferðarsamfélagsins og því afar mikilvægt að stjórnvöld skapi þeim góðan jarðveg til áframhaldandi lífs og vaxtar. 

Megináherslur Viðskiptaráðs eru sex auk 18 tillagna sem ráðið telur mikilvægt að stjórnvöld einbeiti sér að á nýju kjörtímabili. Þessar megináherslur og tillögur eru: 

Megináhersla 1: Langtímastefna í helstu málum  

 • Tillaga 1: Langtímastefna í mikilvægum málaflokkum 
 • Tillaga 2: Reikna með hækkandi aldri þjóðarinnar og brugðist við fækkun á vinnumarkaði 

Megináhersla 2: Rekstur í skjóli frá ríkisumsvifum 

 • Tillaga 3: Aukin útvistun ríkisverkefna ásamt auknu vægi samvinnuverkefna  
 • Tillaga 4: Einkarekstur verði aukinn; fé fylgi fólki, en ekki stofnunum 
 • Tillaga 5: Losað um eignarhluta ríkisins og hvatt til þátttöku á hlutabréfamarkaði 

Megináhersla 3: Greitt úr flækju fyrirtækja í stjórnsýslunni 

 • Tillaga 6: EES-löggjöf sé ekki innleidd með óþarflega íþyngjandi hætti
 • Tillaga 7: Stofnað verði óháð regluráð þar sem greind eru áhrif lagafrumvarpa 
 • Tillaga 8: Áhersla lögð á leiðbeiningarhlutverk stofnana og samskipti liðkuð 
 • Tillaga 9: Leyfisveiting einfölduð, afgreiðslu hraðað og stafræn stjórnsýsla innleidd 
 • Tillaga 10: Álögur á launagreiðslur endurskoðaðar 

Megináhersla 4: Traust hagstjórn 

 • Tillaga 11: Ríkið taki hlutverk sitt alvarlega þegar kemur að verð- og gengisstöðugleika 
 • Tillaga 12: Vald ríkissáttasemjara styrkt og gerðardómsúrræði í vinnudeilum gerð virkari 

Megináhersla 5: Vöxtur með hugviti 

 • Tillaga 13: Áhersla verði lögð á háframleiðnigreinar og verðmæt störf  
 • Tillaga 14: Hækkun R&Þ endurgreiðslna gerð varanleg  
 • Tillaga 15: Laða að beina erlenda fjárfestingu og auðvelda ráðningu erlendra sérfræðinga 
 • Tillaga 16: Nám standist alþjóðlegan samanburð og aukin áhersla lögð á STEM-greinar 

Megináhersla 6: Líf með veiru 

 • Tillaga 17: Horfa þarf heildstætt á afleiðingar faraldursins og tryggja eðlilegt líf 
 • Tillaga 18: Styrkja viðnámsþrótt heilbrigðiskerfisins

Hagsmunir viðskiptalífsins eru samofnir hagsmunum einstaklinga enda eru verðmætin sem standa undir rekstri samfélagsins sköpuð af einstaklingum, innan fyrirtækja. Verðmætasköpun er því algjör undirstaða velferðar.  

Það er von Viðskiptaráðs að tillögur ráðsins verði að veruleika á komandi kjörtímabili enda skipta þær miklu til að bæta áfram lífskjör og velferð á Íslandi. 

Lesa áherslur Viðskiptaráðs í heild sinni (vefútgáfa)

Lesa áherslur Viðskiptaráðs í heild sinni (PDF)

Tengt efni

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Eigum við að drepa fuglana?

Þegar við grípum inn í flókin kerfi getur það haft ófyrirséðar afleiðingar, ...
31. ágú 2022

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022