Viðskiptaráð og Vilhjálmur Árnason hljóta Frelsisverðlaun

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) veitti Viðskiptaráði Íslands og Vilhjálmi Árnasyni alþingismanni Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar fyrir árið 2015. Verðlaunin eru veitt aðilum og einstaklingum sem hafa unnið að auknu viðskipta- og einstaklingsfrelsi á Íslandi.

Meðal fyrri verðlaunahafa eru Pawel Bartoszek, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, Gunnlaugur Jónsson og Samtökin ‘78. Þetta er í annað sinn sem Viðskiptaráð veitir verðlaununum viðtöku, en ráðið hlaut þau fyrst fyrir sjö árum síðan ásamt Margréti Pálu Ólafsdóttur.

Samkvæmt umsögn stjórnar SUS hlýtur Viðskiptaráð verðlaunin fyrir málefnalegar og vel ígrundaðar tillögur á sviði viðskiptafrelsis sem hafa hlotið verðskuldaða athygli og reynst gott innlegg í samfélagsumræðuna. Auk þess hafi ráðið fjallað ötullega um lágmörkun opinberra afskipta, hagfellt skattkerfi og ókosti þess að ríkið standi í samkeppnisrekstri við einkaaðila, sbr. rekstur fríhafnarverslunar.

Viðskiptaráð þakkar SUS fyrir viðurkenninguna. Ráðið mun halda áfram að starfa að umbótum í rekstrarumhverfi fyrirtækja, aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum hérlendis á komandi árum.

Tengt efni

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023

Viltu tilnefna sjálfbærniskýrslu ársins?

Viðskiptaráð, Festa og Stjórnvísi verðlauna sjálfbærniskýrslu ársins.
24. mar 2022

Tilnefndu sjálfbærniskýrslu ársins fyrir 17. maí

Sjálfbærniskýrsla ársins verður verðlaunuð 7. júní
12. maí 2022