Á grænu ljósi

Hvað sem hverjum finnst um val á manni ársins hjá fréttatímaritinu Times er það staðreynd að þróun loftslagsmála er að mati mjög margra stærsta ógn okkar samtíma. Greta Thunberg er ekki ein um að hafa lýst yfir neyðarástandi. Það hefur Evrópuþingið gert, breska þingið og fleiri, til að undirstrika alvarleika málsins. En hversu megnugar eru þessar yfirlýsingar ef orðum fylgja ekki athafnir og hvað þarf til?

Höfum tvo áratugi

Ísland hefur ekki látið sitt eftir liggja í umfjöllun um loftslagsmál. Allt frá jarðarför íslenska jökulsins Ok sem vakti heimsathygli til aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum ásamt metnaðarfullum skrefum einstakra fyrirtækja og sveitarfélaga er ljóst að þessi mál eru varanlega komin á dagskrá. Enda þörf á.

Íslendingar menga mest allra í Evrópu á hvern einstakling og ef horft er einungis til heimilanna hefur losun á hvern einstakling frá íslenskum heimilum verið hærri en hjá hinum Norðurlöndunum frá árinu 2008. Markmið ríkisstjórnarinnar um að Ísland verði kolefnishlutlaust eftir 20 ár er því metnaðarfullt og þýðir að lækka þarf losun um 17 tonn á hvern einstakling miðað við mælingar frá árinu 2016.

Til að ná þessu markmiði þarf almenningur að fylkja sér af alvöru baki aðgerðaáætlunar ríkisins sem og tryggja getu og samtakamátt fyrirtækjanna í landinu – en án stuðnings þeirra er markmiðið dauðadæmt. Viljinn er lofsverður, en ekki allt sem þarf. Flestir virðast sammála um markmiðin, en til að þeim megi ná og leiða aðgerðaáætlunina til árangurs er nauðsynlegt að tryggja nægjanlegt fjármagn. En hvaðan á það að koma?

Tvær leiðir til að tryggja fjármagn

Ein leið er að leggja á kolefnisskatta. Þá kostar meira að menga. En ef slíkir skattar eiga að þeirri fjárhæð sem til þarf mun verð á vörum hækka upp úr öllu valdi: bensínlítrinn myndi hækka um u.þ.b. 700% m.v. verðlag dagsins í dag og flug fram og tilbaka til New York myndi hækka um u.þ.b.400 þúsund, svo dæmi séu tekin. Viðbrögð við slíkum aðgerðum sáust hvað skýrast í Frakklandi í fyrra þegar dísel-líterinn hækkaði um 16% og hundruð þúsunda mótmælti og ógnuðu valdastóli forsetans. Kolefnisskattar mega ekki verða aukaálögur - ívilnanir verða að koma á móti.

Önnur leið sem er líklegri til árangurs er að horfa til fjármálageirans. Þrátt fyrir að fjármálageirinn hafi e.t.v. ekki haft jákvæðustu ímyndina eftir hrunþá þurfum við að átta okkur á því að enginn geiri er betur í stakk búinn til að styðja við fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum. Með alþjóðlegum tengingum í gegnum kauphallir heimsins flyst fjármagn á milli landa og heimsálfa á hraða ljóssins. Það er þetta fjármagn sem laða þarf til rétta aðgerða og lausna til að stemma stigu við þróun loftslagsmála.

Fjárfestingasjóðir taka græna beygju

Til allrar hamingju er sú þróun nú þegar hafin. Víða um heim hafa fjárfestingasjóðir tekið forystu í grænum fjárfestingum. Stjórnendur þeirra hafa reiknað saman langtímaávöxtun af fjárfestingum og áhættu af þeim til lengri tíma og komist að því að skynsamlegast sé að fjárfesta í því sem ekki skaðar umhverfið eða ýtir undir loftslagsvá. Einn stærsti fjárfestingarsjóður heims, norski olíusjóðurinn, losaði t.a.m. um fjárfestingar sínar í olíufélögum fyrir um 13 milljarða dollara á síðasta ári. Stefna sjóðsins er orðin sú að til að mæta væntingum um langtímaávöxtun, sé ekki skynsamlegt að fjárfesta í kolavinnslu eða olíufélögum. Í staðinn hefur sjóðurinn fjárfest í auknum mæli í endurnýjanlegri orku.

Ekki verður vart við þrýsting í þessa átt, enn sem komið er, í íslensku fjármálaumhverfi þó svo aðeins verði þess vart í umræðunni. Okkar langstærstu sjóðir, lífeyrissjóðirnir, sem eiga meira en 4.800 milljarða króna, ættu að vera undir gífurlegum þrýstingi um að fjárfesta á ábyrgan hátt að þessu leyti, sérstaklega þar sem þeir þurfa í auknum mæli að fjárfesta erlendis. Jafnframt eiga lífeyrissjóðirnir samanlagt beint og óbeint, rúmlega helming allra hlutabréfa í landinu. Tryggja þarf að lífeyriseign íslenskra launþega sé ekki varið í fyrirtæki sem eru á áhættulista vegna loftslagsvárinnar.

Ekki bara „hak í boxið“

Þó fjármálafyrirtæki gegni lykilhlutverki er ekki þar með sagt að við sem einstaklingar eða fyrirtækin séu stikkfrí – enda hafi margir hafið metnaðarfulla vegferð í átt að kolefnishlutleysi. Dæmi um fyrirtæki sem er leiðandi og til fyrirmyndar í loftslagsaðgerðum er Landsvirkjun. Fyrirtækið hefur gefið út græn skuldabréf og tekið sambankalán þar sem vextir lánsins eru beintengdir sjálfbærnimarkmiðum sem félagið hefur sett sér. Þess utan eru verkefni innan Landsvirkjunar til að minnka losun og er þar hreinsivirki í Kröflu upp á tæpan milljarð króna nýlegt dæmi um langtímahugsun og aðgerðir til að sporna við auknum kostnaði og áhættu í framtíðarlosun. Öll fyrirtæki þurfa á markvissan hátt að stýra áhættu til framtíðar í gegnum endurhugsun á virðiskeðju og nýsköpun. Þau sem ekki gera það munu, eins og fyrrum seðlabankastjóri Bretlands orðaði það: „fara á hausinn“.

Koma þarf ógnvænlegri þróun loftslagsmála inn í kjarna allrar fjárhagslegrar ákvörðunartöku og byggja hana á yfirgripsmikilli og samþættri þekkingu og upplýsingagjöf. Bankar, tryggingafélög og eignastýringar og þeirra eftirlitsaðilar þurfa að hafa skilning á og getu til að stjórna þeirri fjárhagslegu áhættu sem fylgir loftslagsbreytingum. Grænar fjárfestingaákvarðanir eru ekki bara „hak í boxið“ heldur eru þær grænt ljós á hagstæða ávöxtun og áhrifamiklar breytingar til framtíðar. Þessar áherslur eru m.a. inntak Viðskiptaþings sem haldið verður 13. febrúar nk.

Ásta S. FJeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í áramótablaði Morgunblaðsins 31. desember 2019

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Vel heppnað Viðskiptaþing 2023

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2023 sem fór fram á Hilton Reykjavík ...
20. feb 2023