Forsendur fyrirsjáanleika 

Í glímunni við heimsfaraldurinn höfum við öll þurft að laga okkur að nýjum aðstæðum. Fólk og fyrirtæki hafa þurft að bregðast við mismunandi ráðstöfunum sem stjórnvöld hafa beitt til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar, bæði þegar slakað er á eða hert. Vissulega hefur ekki verið gripið til jafnharðra aðgerða hér og víða annars staðar og almennt hefur hérlendis verið samstaða um að reyna að viðhalda eins eðlilegu ástandi og fært er miðað við stöðuna á hverjum tíma. Nú er svo komið að bólusetningar ganga ágætlega og áætlanir um öflun bóluefnis og bólusetningu landsmanna hafa verið birtar. Því er eðlilegt að sú spurning vakni hvaða áætlanir hið opinbera hefur um afléttingu takmarkana samhliða bólusetningum. 

Áætlanir kynntar í nágrannaríkjum

Að undanförnu hafa verið kynntar og virkjaðar svokallaðar opnunaráætlanir í nágrannalöndum okkar, Noregi og Danmörku. Þannig hyggjast stjórnvöld í Danmörku afnema helstu frelsisskerðingar þegar bólusetningu 50 ára og eldri verður lokið og Norðmenn hafa einnig kynnt áætlun um afléttingu sem gert er ráð fyrir að taki gildi í skrefum til júníloka. Hér er ekki lagt neitt mat á það hver staðan hefur verið í þessum ríkjum, né hvort aðgerðir séu sambærilegar milli landa. Það sem skiptir máli er að stjórnvöld í þessum ríkja birta áform sín og þeim er ætlað að veita ákveðinn fyrirsjáanleika, með eðlilegum fyrirvörum. Þannig geti fólk gert ráð fyrir að líf þess komist smám saman í fyrra horf ef allt gengur samkvæmt áætlun hvað bólusetningar varðar. 

Hér hefur því verið haldið á lofti að ný afbrigði geti breytt þeirri mynd sem við höfum af faraldrinum og viðbrögðum við honum. Í því sambandi er rétt að minna á að hin nýju afbrigði veirunnar sem nú eru komin hingað til lands finnast einnig í Noregi og Danmörku. Eigi að síður hafa stjórnvöld þessara landa birt áætlanir um afléttingu.

Skýrum sameiginleg markmið

Fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur þáttur í eðlilegu lífi, þótt reynslan sýni okkur að allt sé breytingum háð. En jafnvel þótt fyrirsjáanleikinn sé skilyrtur, skapar hann ákveðinn ramma og aðhald gagnvart þeim aðgerðum sem stjórnvöld beita.

Fyrirsjáanleiki er lykilatriði fyrir þá sem standa í rekstri. Sem dæmi má nefna að fyrirtæki þurfa að geta metið gróflega hverjar tekjur þeirra til næstu vikna, mánaða eða missera, verða. Þau þurfa að geta skuldbundið sig til kaupa á aðföngum eða gert ráð fyrir að slíkar skuldbindingar gangi ekki upp vegna aðgerða stjórnvalda. Þau þurfa líka að geta brugðist við ólíkum aðstæðum í starfsmannahaldi, - ein sviðsmynd getur kallað á uppsagnir og önnur á ráðningar. 

Við umræður á Alþingi í lok mars lýsti forsætisráðherra því yfir, með fyrirvara um ný afbrigði,að þegar 60 ára og eldri hefðu verið bólusett myndi hætta á alvarlegum veikindum, innlögnum og dauðsföllum dragast verulega saman, sem þýddi að stjórnvöld gætu stigið ákveðin skref til að draga úr sóttvarnaráðstöfunum. Nú er ljóst, miðað við yfirlýsingar heilbrigðisyfirvalda, að þetta markmið næst öðru hvoru megin við næstu mánaðamót. Því er nú tilefni til að hvetja stjórnvöld til að leggja fram afléttingaráætlun í samræmi við árangur í bólusetningum. Slík áætlun myndi auðvelda fólki og fyrirtækjum að skipuleggja sig og starfsemi sína, en ekki síður skapa traust og skýra þau sameiginlegu markmið sem við viljum stefna að, um öfluga viðspyrnu og opið samfélag

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10.apríl 2021

Tengt efni

Skýrsla Viðskiptaþings 2024 - Hið opinbera: Get ég aðstoðað?

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024

Skýrsla Viðskiptaþings 2024

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023