Í milljörðum er enga haldbæra stefnu að finna

Fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar fyrir árin 2018-2022 er nú til umræðu á Alþingi. Mest fer fyrir deilum um áformaðar breytingar á virðisaukaskatti. Öllu minni viðbrögð hafa verið við þeirri rúmlega 100 milljarða króna raunaukningu í útgjöldum ríkissjóðs sem áformuð er næstu fimm árin.

Þessi litlu viðbrögð eru óheppileg. Það felst engin stefna í útgjaldaaukningu einni og sér, enda verður milljörðunum eytt óháð því hvert þeir fara. Uppbyggileg gagnrýni á fjármálaáætlun hlýtur að snúa að því að hvers konar þjónustu við fáum fyrir þessa 100 milljarða, enda endurspeglar það markmið ríkisins um hámörkun velferðar.

Milljarður er ekki árangursmælikvarði

Við eigum að nota aðra mælikvarða á opinberan rekstur en milljarða. Milljarðar bæta ekki heilsu okkar og milljarðar munu ekki kenna nemendum að lesa. Byrjum frekar á réttum enda. Spyrjum okkur: hvers konar þjónustu viljum við að hið opinbera veiti og hvernig mælum við gæði hennar?

Fjárveitingar þurfa að vera háðar mælikvörðum um þjónustugæði og þeim þarf að fylgja eftir. Vandamálið er ekki skortur á mælikvörðum. Árangur af skurðaðgerðum, kostnaður á hverja sjúkrahúsheimsókn, námsárangur og útskriftarhlutföll nemenda eru dæmi. Fjármálaáætlun inniheldur fjöldann allan af viðmiðum, en samt snúa umræðurnar að milljörðunum fremur en hvort viðmiðin séu skynsamleg og til þess fallin að ná settum árangri.

Hið opinbera er ekki fyrirtæki

Ég fagna því að mótuð sé stefna til lengri tíma í opinberum rekstri. Til samlíkingar móta flestöll fyrirtæki slíka stefnu til að bæta sinn rekstur. En samlíking fyrirtækja og opinbers rekstur nær ekki mikið lengra.

Fyrirtæki mæta aðhaldi frá fjárfestum. Hagnaður segir ekki alla söguna um rekstur fyrirtækis, en sá mælikvarði segir þó ansi mikið. Hagnaður sýnir á gagnsæjan hátt hve mikil verðmæti fyrirtæki skapar umfram kostnað við að starfrækja það. Hagnaður drífur því skilvirkni í fyrirtækjarekstri. Í þeim skilningi er fyrirtækjarekstur einfaldur: fjárhagslegir mælikvarðar henta vel til að mæla árangur.

En hið opinbera er ekki rekið með hagnaðarsjónarmiði. Markmiðin eru fleiri og flóknari og mælikvarðarnir geta því ekki einungis verið fjárhagslegir.

Eitt markmið hins opinbera snýr að vinnubrögðum. Hið opinbera er sameign okkar allra og því er rík krafa um gagnsæi og jafnræði í allri ákvarðanatöku. Eitt af markmiðum hins opinbera er því að stjórnsýsla og stjórnskipulag mæti þessum kröfum með fullnægjandi hætti. Slíkt getur dregið úr skilvirkni og aukið kostnað, vandamál sem einkafyrirtæki standa ekki endilega frammi fyrir.

Annað markmið er hámörkun velferðar. Það er flóknara markmið því velferðin er oft illmælanleg og afstæð eftir gildismati hvers og eins. En það stendur ekki í vegi fyrir því að áherslan í opinberri áætlanagerð ætti að vera að finna góða mælikvarða á gæði þjónustunnar, beintengja fjármagn við þjónustumarkmið og fylgja því fast á eftir. Hið opinbera ber ríka ábyrgð á því að veita þjónustueiningum samfélagsins markvisst aðhald út frá settum mælikvörðum.

Einblínum á það sem skiptir máli

Fjármálaáætlun er verkfæri sem nýta má til góðra verka. Hún auðveldar setningu langtímamarkmiða og getur skapað jákvæða hvata hjá opinberum aðilum til að bæta þjónustu sína. Þessi góðu áhrif eru þó háð því að áætlunin leggi fram slík markmið og þeim sé fylgt eftir. Ég vona að umræða um áætlunina sé merki um byrjunarörðugleika og að áhersla næstu ára færist í meiri mæli frá milljörðum yfir á gæði þeirrar þjónustu sem hið opinbera veitir. Því þegar upp er staðið er það þjónustan sjálf sem er hornsteinn velmegunar og stærsta hlutverk hins opinbera að tryggja gæði hennar.

Kristrún M. Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 13. maí 2017.

Tengt efni

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Gríðarleg útgjaldaaukning aðeins gengið að hluta til baka

Umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun 2024 - 2028
19. apr 2023