Skattalækkanir væru gagnlegasta framlag stjórnvalda

Staðan á vinnumarkaði er alvarleg og lausn virðist ekki í sjónmáli. Nokkrar hugmyndir hafa verið lagðar fram um aðkomu stjórnvalda að lausn mála, t.a.m. aukin inngrip stjórnvalda á húsnæðismarkaði og frekari niðurgreiðslur námslána. Þótt bæta megi umgjörð húsnæðismála og auka hvata til náms henta slíkar aðgerðir ekki vel sem framlag til lausnar í kjaraviðræðum. Til þess eru þær of sértækar og ávinningur þeirra of háður endanlegri útfærslu. Því væri heppilegra að stjórnvöld gripu til aðgerða sem hefðu beinni og almennari áhrif á launþega. Með það í huga væri lækkun skatta nærtækari leið til að losa þann hnút sem nú er kominn á launaviðræður.

Hvaða laun ættu að hækka mest?

Vandinn við sértækar aðgerðir stjórnvalda felst í þeirri staðreynd að sitt sýnist hverjum um nauðsynlegar „leiðréttingar“ á vinnumarkaði. Ýmsum stjórnmálamönnum og forsvarsmönnum launþegahreyfinga hefur orðið tíðrætt um mikilvægi þess að hækka lágmarkslaun verulega umfram önnur laun. Slík hækkun er aftur á móti vandkvæðum bundin.

Miðað við fyrirliggjandi kröfugerðir stéttafélaga virðist sem hækkun lægstu launaþrepa eigi að færast upp launastigann og skila þannig litlum innbyrðis breytingum. Þá skiptir hlutdeild grunnlauna í heildarlaunum einnig máli. Á Íslandi er hlutdeildin lág í alþjóðlegum samanburði vegna hlutfallslegra hárra álags- og yfirvinnugreiðslna. Þannig hefur m.a. verið bent á að taxtakerfi Starfsgreinasambandsins geri ráð fyrir að innan við 250 þúsund króna grunnlaun skili félagsmönnum sambandsins um 430 þúsund króna heildarlaunum. Endurskoðun launakerfa er því óumflýjanleg vilji launþegahreyfingar hækka lágmarkslaun lægstu laun jafn mikið og rætt er um.

Þá hafa önnur stéttafélög, einkum Bandalag háskólamanna, krafist þess að menntun sé metin til launa. Mikilvægi þess að sterkt orsakasamband sé á milli góðrar menntunar og aukinna tekna er engum vafa undirorpið. Vel menntaðar þjóðir skapa meiri verðmæti og geta þar með staðið undir betri lífskjörum. Viðmið BHM í þessu samhengi hlýtur þó að vera laun ómenntaðra, þ.e. lægstu launin. Þar með skilar veruleg hækkun lágmarkslauna væntanlega samsvarandi kröfum frá skjólstæðingum BHM.

Í þessu liggur vandinn. Hægt er að leggja fram kröfur um launahækkanir nánast allra hópa án þess að þær hljómi ósanngjarnar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hafa margir þeir launahópar sem síst hefur borið á í umræðum um kjaramál fengið minnstar hækkanir undanfarinn áratug. Laun iðnaðarmanna, sérfræðinga og tæknimenntaðs starfsfólks hafa hækkað minna en meðallaun, og þvert á það sem ætla mætti, reka stjórnendur lestina í launaþróun. Nær útilokað verður að teljast að þessir aðilar sætti sig við að færast enn aftar í röðina. Markmið stjórnvalda ætti því einkum að felast í því að auka langtímagrundvöll til launahækkana þvert á launahópa. Almennar skattalækkanir eru leiðin til þess.

Hvernig má auka skammtímasvigrúm til launahækkana?

Í kjölfar fjármálakreppunnar og aukins atvinnuleysis sem henni fylgdi var tryggingagjald hækkað verulega. Sú hækkun hefur að litlu leyti gengið til baka þrátt fyrir hratt minnkandi atvinnuleysi. Þannig hefur ríkissjóður nýtt tryggingagjaldið til almennrar fjáröflunar sem samræmist ekki upphaflegu markmiði gjaldsins.

Lækkun tryggingagjalds skapar svigrúm til aukinna launahækkana án þess að vegið sé að verðstöðugleika. Lækkun tryggingagjalds um 2 prósentustig myndi færa gjaldið nær því sem eðlilegt getur talist í sögulegu samhengi. Þar sem tryggingagjald leggst á launagreiðslur væri hægt að færa samsvarandi upphæð beint í hendur launþega. Þrátt fyrir að tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi lækki við slíka aðgerð munu aðrar skatttekjur aukast samhliða. Áhrifin væru vel innan þess ramma sem ríkissjóður ræður við og aðgerðin myndi greiða fyrir ríflegri launahækkunum en ella væru forsendur fyrir.

Ef breið samstaða næst um mikilvægi þess að bæta kjör þeirra tekjulægstu væri eðlilegasta framlag stjórnvalda fólgið í hækkun persónuafsláttar. Fyrir einstakling á lágmarkslaunum myndi 5 þúsund króna hækkun á mánaðarlegum persónuafslætti jafngilda 10 þúsund króna launahækkun. Slík skattalækkun myndi því skila einstaklingi á lágmarkslaunum 5% hækkun útborgaðra launa. Ríkissjóður yrði af talsverðum tekjum við þetta, en ef það er stefna stjórnvalda að skila hlutfallslega meiru til lægra launaðra hópa væri þetta markvissasta leiðin.

Hvernig má auka langtímasvigrúm til launahækkana?

Framundan eru krefjandi en spennandi tímar. Stjórnvöld hafa gefið það út með afdráttarlausum hætti að höft verði afnumin innan tíðar. Frjáls viðskipti efla langtímagrundvöll hagvaxtar og kaupmáttaraukningar til muna. Til að hægt verði að nýta tækifæri til vaxtar skiptir lykilmáli að skattkerfið sé samkeppnishæft á öllum sviðum og að efnahagslegur stöðugleiki sé fyrir hendi. Öðruvísi höldum við ekki fyrirtækjum, fjármagni og fólki í landinu.

Ýmislegt má gera betur í skattamálum til lengri tíma enda hafa nær allir skattar hækkað frá falli fjármálakerfisins. Þá er ekki síður brýnt að einfalda skattkerfið. Ógagnsætt skattkerfi er ein meginástæða þess að umræða um kjaramál er jafn flókin og raun ber vitni. Fjölgun tekjuskattsþrepa, auknar tekjutengingar af ýmsu tagi og vaxandi umfang hins opinbera hafa gert það að verkum að jaðarskattar millitekjuhópa eru nú yfir 50%. Þá á enn eftir að taka tillit til launatengdra gjalda, s.s. lífeyrisgreiðslna og tryggingagjalds, sem nema nálægt fimmtungi launa. Úr þessu verður að bæta.

Efnahagslegur stöðugleiki er önnur meginforsenda hagvaxtar. Ófyrirsjáanleg verðlags-, gengis- og vaxtaþróun stendur framleiðniaukningu fyrir þrifum og dregur úr lífskjörum. Ábyrgð aðila vinnumarkaðarins er mikil í þessu samhengi. Sameiginlegt markmið allra hlýtur að vera bætt skilyrði til verðmætasköpunar enda brýnast að hafa sem mestu til að dreifa. Höfrungahlaup ólíkra launahópa vinnur gegn því markmiði og því nauðsynlegt að samræma kröfur launþegahreyfinga betur innbyrðis. Þannig getur minna skilað meiru líkt og þróun síðasta árs ber glögglega vitni. Stjórnvöld spila ekki síður mikilvægt hlutverk í þessu samhengi með ábyrgri fjármálastjórn og skynsamlegri launastefnu.

Hvert er hlutverk stjórnvalda í kjaramálum?

Hið opinbera getur bætt lífskjör heimila með tvennum hætti. Annars vegar með því að veita betri þjónustu fyrir það skattfé sem innheimt er. Hins vegar með því að innheimta minni skatta og auka þannig ráðstöfunartekjur heimila. Hægt er að gera hvort tveggja í senn með forgangsröðun verkefna og aukinni framleiðni hjá hinu opinbera. Um þetta er m.a. fjallað ítarlega í skýrslu Viðskiptaráðs, Hið opinbera: tími til breytinga. Rekstrarumbætur og forgangsröðun hjá hinu opinbera eru afar mikilvægt langtímaverkefni, en erfitt að tengja þær með beinum hætti inn í núverandi stöðu kjaraviðræðna.

Skattalækkanir eru aftur á móti auðframkvæmanlegar og áhrif þeirra eru bæði fyrirsjáanleg. Það sama verður seint sagt um aukin inngrip hins opinbera, t.a.m. á húsnæðis- og námslánamarkaði. Lækkun skatta væri því gagnlegasta framlag stjórnvalda í núverandi stöðu. Með þeim mætti skapa forsendur til launahækkana til skemmri tíma um leið og grundvöllur atvinnurekenda til að standa undir kröftugri kaupmáttaraukningu til lengri tíma myndi styrkjast. Það eru á endanum meginmarkmiðin.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 23. apríl, bls. 19

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023