Verslun og verðbólga

Svigrúm verslunarinnar til að halda aftur af verðhækkunum er almennt lítið sem kristallast í að rekstrarhagnaður var einungis 5,5% af tekjum árið 2019 og dróst saman um 13% að raunvirði árið 2020

Þegar ég var að alast upp voru reglulega sagðar fréttir af óðaverðbólgu og gengisfellingum. Með alvöruþrunginni rödd voru lesnar upp allskonar tölur, sem í sjálfu sér sögðu manni ekki mikið. Þó man ég eftir því þegar foreldrar mínir keyptu ferð fyrir okkur í sumarhús í Hollandi árið 1983. Ég held að ég fari rétt með að á þeim tíma var hreinlega ekki hægt að borga ferðina upp þegar maður pantaði, enda hafði ferðaskrifstofan engan áhuga á að taka á sig gengisfellingar og vísitöluhækkanir. Það kom líka á daginn að þegar ferðin var greidd hafði hún hækkað um að minnsta kosti þriðjung á um það bil þremur mánuðum. En við létum það ekki á okkur fá, sóttum ferðatékka og innanklæðaveski* í bankann og lögðum í hann.

Verðbólgan er áhyggjuefni...

Þótt við séum ekki lengur að kljást við óðaverðbólgu er hún samt sem áður áhyggjuefni. Verðbólgan nú er 4,3% og komin yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Það ætti því ekki að koma á óvart að seðlabankastjóri hafi tjáð sig um þessa stöðu í síðustu viku. Þar sagði hann að gengisveiking í fyrra ætti stóran þátt í verðbólgunni, en með gengisstyrkingu vænti hann þess að verslanir lækkuðu verð. Annars myndi bankinn grípa til aðgerða. Það er erfitt að skilja hann öðruvísi en að ef verslunin handlækki ekki hjá sér verð muni vextir hækka.

Við fyrstu sýn virkar þessi yfirlýsing dálítið töff. Hér er kominn seðlabankastjóri með skýra sýn og styrka hönd á efnahagsstefnunni. Svo vakna ákveðnar efasemdir. Eru einhverjir aðrir kraftar að verki í hagkerfinu sem skapa þrýsting á verð? Skyldi eitthvað annað en gengið skipta máli?

Fyrir það fyrsta er gengisstyrking síðustu vikna færð í stílinn. Staðan er einfaldlega sú að gengi krónunnar nú er innan við 2% sterkara en það var að jafnaði árið 2020 og er enn 10% veikara en það var árið 2019. Það ber líka að taka fram að þegar við kaupum okkur eitthvað, segjum til dæmis innfluttan kexpakka, erum við ekki bara að borga fyrir kexið sjálft. Jú, við greiðum fyrir hráefnið og vinnuna sem fór í að búa það til, en við greiðum líka fyrir flutning vörunnar til landsins og skatta sem leggjast á hana. Svo má ekki má gleyma geymslu í vöruhúsi og dreifingu  á endanlegan sölustað, þar sem við borgum verð sem er samsett af öllum þessum þáttum, auk kostnaðar og álagningar smásalans sem selur okkur þennan kexpakka. Kostnaður smásalans felur meðal annars í sér kaup á vörum, laun, fjárbindingu, rýrnun, skatta og gjöld og svo þarf að reka allt réttu megin við núllið, því annars fer illa.

...en er verslunin eina vandamálið?

Verslunin hefur takmarkaða stjórn á þessum þáttum sem mynda verðið. Hún getur reynt að hagræða hjá sér og stilla álagningu í hóf, en heimsfaraldurinn hefur óneitanlega haft mikil áhrif. Flutningskostnaður, sem nemur um 10-25% í kostnaðarverði vöru, hefur hækkað mikið vegna skorts á gámum og skipum, eins og kom fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Þá vega hækkanir á hrávöruverði þungt, en í grein blaðsins er einmitt tekið dæmi um framvirkt verð timburs, sem hefur þrefaldast á einu ári. Á sama tíma hafa laun hækkað hérlendis, í samræmi við lífskjarasamninginn. Launamaður sem var með 480 þúsund í laun fyrir 1. apríl í fyrra hefur hækkað um 7% síðan vegna almennrar launahækkunar, og þá er ekki gert ráð fyrir launaskriði sem virðist þónokkuð þar sem meðallaun hafa hækkað um meira en 10% sl. ár.

Vísbendingar um lakari afkomu árið 2020

Þegar kemur að svigrúmi verslunarinnar til að halda aftur af verðhækkunum skiptir heildarmyndin máli. Svigrúmið er almennt lítið sem kristallast í að rekstrarhagnaður smásöluverslunar var einungis 5,5% af tekjum árið 2019. Á meðfylgjandi mynd, sem byggist á þjóðhagsreikningum, má sjá vísbendingu um að þetta hlutfall hafi lækkað verulega þar sem rekstrarafgangur dróst saman um 13% milli ára að raunvirði á sama tíma og fyrir liggur að velta jókst um 6%. Þannig mætti halda því fram að verslunin hafi að einhverju leyti tekið á sig veikingu gengisins, frekar en að hún hafi nýtt færið til að hækka vöruverð. Þróun launakostnaður vekur líka athygli, en hann hækkar um 10% milli ára.

Verslunin veit vel hvaða máli verðlagning skiptir. Það er því spurning hvort hún þurfi nokkra hvatningu frá seðlabankastjóra til að halda sér samkeppnishæfri. Innlend samkeppni heldur fyrirtækjum á tánum, en samkeppnisumhverfið nær líka langt út fyrir landsteinana. Fata-, raftækja- og snyrtivörubúðir, svo dæmi séu tekin, eiga í harðri samkeppni um viðskiptavini við erlendar netverslanir. Og svo verða kaup Íslendinga á ferðalögum drjúg þegar við förum aftur að ferðast, – með eða án innanklæðaveskja. Þótt við getum öll verið sammála um að mikilvægt sé að ná niður verðbólgu og hafa hemil á vaxtahækkunum lítur út fyrir að lausn vandans liggi víðar en í verðákvörðunum verslunarinnar.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 22. apríl 2021.

 *Innanklæðaveski þótti ómissandi búnaður í ferðalögum erlendis á níunda áratugnum, til að geyma verðmæti utan seilingar vasaþjófa og annars óþjóðalýðs.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022