Tækifæri fólgin í færri og stærri sveitarfélögum

Fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs dregur úr hvötum til sameiningar og hagræðingar í rekstri.

Mikil tækifæri felast í færri og stærri sveitarfélögum. Ýmsir kostir eru fólgnir í því að færa þjónustu nær íbúum, en fámenni í sveitarfélögum dregur almennt úr möguleikum til að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga.

Kosið verður um sameiningu í tíu sveitarfélögum á næstu vikum og ef allar tillögurnar verða samþykktar gæti kjörnum fulltrúum fækkað um 27 og hagræðing í launakostnaði sveitarstjóra og sveitarstjórna numið um 200 milljónum króna á næsta kjörtímabili. Til að setja fækkunina í samhengi má geta þess að fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur eru 23 og samsvarar fækkun fulltrúa á landsbyggðinni því allri borgarstjórn og vel það.

Kosið verður í sex sveitarfélögum þann 19. febrúar og fjórum þann 26. mars n.k. en sameiningartillögurnar eru alls fimm. Sveitarfélögin sem um eru að ræða eru Húnavatnshreppur og Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur, Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð og Helgafellssveit og Stykkishólmsbær.

Árið 2005 réðust stjórnvöld og Samband Íslenskra sveitarfélaga í sameiningarátak sem skilaði árangri í fjölmennari og öflugri sveitarfélögum en síðan þá hefur hægst verulega á sameiningum og engar sameiningar áttu sér stað árin 2012–2017. Sameiningarátak árin 1992–1994 og 2004–2006, auk tilfærslu reksturs grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996, hafði þau áhrif að sveitarfélögum fækkaði úr 201 í 79.

Þingsályktun um stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga sem samþykkt var árið 2020, auk breytinga á sveitarstjórnarlögum, fela í sér aukinn stuðning við sameiningu sveitarfélaga í formi sameiningarframlaga og ljóst er að fjárhagslegir hvatar eru að skila tilsettum árangri. Sérstök framlög Jöfnunarsjóðs vegna sameiningar eru greidd út á sjö árum og felur í sér þrjár tegundir framlaga.

  • Fast framlag 100 m. kr. vegna endurskipulagningar og innleiðingarkostnaðar við stjórnsýslubreytingar.
  • Skuldajöfnunarframlag að hámarki 400 m. kr. til að jafna skuldir milli sveitarfélaga.
  • Byggðaframlag að hámarki 200 m. kr. sem tekur mið af íbúaþróun til síðustu fimm ára.

Tillögur um sameiningu hafa ekki verið fleiri frá árinu 2006 og fram undan gætu því verið miklar breytingar á sveitarstjórnarstiginu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir framlög vegna sameiningar og gætu þau numið alls þremur milljörðum króna ef þær yrðu allar samþykktar. Sjóðurinn hefur skuldbundið sig til að greiða allt að fimmtán milljarða á næstu fimmtán árum í slík verkefni. Hann greiðir nú þegar framlög vegna sameiningar Suðurnesjabæjar og Múlaþings en framlög vegna sameiningar Skútustaðarhrepps og Þingeyjarsveitar verða greidd eftir sveitarstjórnarkosningar 2022. Því gæti reynt á hámarksgreiðslu um milljarð á ári eftir því hvernig úthlutunum nýrra verkefna verður háttað.

Viðskiptaráð telur fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga í formi sameiningarframlaga vera skref í rétta átt en núverandi fyrirkomulag Jöfnunarsjóðsins dregur úr hvötum til sameiningar og hagræðingar í rekstri. Sameiningarframlögum skal ekki rugla við árleg framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga og  þau eru til jöfnunar á mismunandi tekjumöguleikum og útgjaldaþörf.  Dæmi eru um að þessi árlegu framlög nemi um eða yfir 50% af rekstrartekjum þeirra.

Í tillögunum sem kosið verður um á næstu vikum nema sameiningarframlög um 330 þús. kr. á íbúa að meðaltali en í þremur fámennari sveitarfélögum nema sameiningarframlög  meira en 1,2 m. kr. á hvern íbúa.

Í nýrri 4. gr. sveitarstjórnarlaga er gerð krafa um lágmarksíbúafjölda 250 manns í sveitarfélagi eftir sveitarstjórnarkosningar í vor og 1.000 manna íbúamark eftir kosningar 2026. Viðskiptaráð telur slíkt til bóta en að markið sé þó sett of lágt. Þegar málefni fatlaðra voru færð til sveitarfélaga árið 2011 var talið rétt að miða við að þjónustan yrði veitt á þjónustusvæðum með 8.000 íbúa og ljóst að löggjafinn taldi að sveitarfélög sem hefðu færri en 8.000 íbúa gætu síður sinnt þessari þjónustu. Eftir sveitarstjórnarkosningar fækkar sveitarfélögum með færri en 1.000 íbúa um 8 ef allar tillögur eru samþykktar, en eftir standa um tíu sveitarfélög sem hafa færri íbúa en 4. gr. gerir kröfu um. Þau sveitarfélög munu annaðhvort þurfa að hefja formlegar sameiningarviðræður eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins. Viðskiptaráð telur rétt að íbúafjöldi gefi vísbendingar um sjálfbærni sveitarfélaga og getu þeirra til að veita íbúum fullnægjandi þjónustu en að mælikvarðinn sé aðeins einn af mörgum.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Ákvörðun sem kostað hefur íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða

Að innleiða regluverk, sem sniðið er að milljóna manna þjóðum, með meira ...
2. okt 2023