Niðurstöður skoðanakönnunar Viðskiptaráðs birtar í heild

Í tengslum við Viðskiptaþing fékk Viðskiptaráð Íslands Capacent Gallup til þess að gera annars vegar könnun á viðhorfi almennings til menntamála og stöðu háskóla á Íslandi og hins vegar mat forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana á því hvort skortur sé á starfsfólki með ákveðna menntun í íslensku atvinnulífi. Kannanirnar voru framkvæmdar dagana 16.-26. janúar og 10.-30. janúar 2014.

Niðurstöður könnunar um viðhorf almennings
Úrtak könnunar um viðhorf almennings var 1.400 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup og var svarhlutfallið 59,4%.

Helstu niðurstöður voru þær að meirihluti almennings:

 • er hlynntur styttingu náms á framhaldsskólastigi
 • er hlynntur fjölbreyttara rekstrarformi grunnskóla og háskóla
 • er hlynntur eftirfarandi aðgerðum til að bæta rekstrarstöðu skólanna:
        - að ríkið hækki framlög til háskóla
        - sameini háskóla
        - innheimti skólagjöld
 • telur að einkareknir háskólar, opinberir skólar og framhaldsskólar eigi að velja sjálfir hvaða námsbrautir þeir bjóða upp á

2014.2.21_Glæra1

Hvað styttingu náms varðar þá kom það skýrt fram að meiri samstaða ríkir um styttingu framhaldsskóla en grunnskóla. Telja má að það sé í takt við þjóðfélagsumræðu og einnig þá staðreynd að nú þegar er hafin undirbúningsvinna í menntamálaráðuneytinu sem miðar að því að stytta nám á framhaldsskólastigi. Þess má geta að íslenskir nemendur eru að útskrifast úr framhaldsskóla ári seinna en nemendur á hinum Norðurlöndunum þar sem nám á framhaldsskólastigi er að jafnaði 3 ár.

2014.2.21_glæra 2

Spurt var um afstöðu almennings til þess að fleiri aðilum sé heimilt að starfrækja og reka menntastofnanir. Mestur var stuðningurinn á leikskólastigi, eða 62%. Mest andstaða mældist fyrir slíku á grunnskólastigi, en um þriðjungur var andvígur á meðan um helmingur sögðust hlynntir. Heilt yfir litið eru svarendur hlynntir því að fleiri aðilum sé heimilt að starfrækja og reka menntastofnanir þvert á skólastig, en í dag eru starfræktir skólar á öllum skólastigum sem reknir eru af öðrum en hinu opinbera. Munur á afstöðu svarenda eftir skólastigi gæti legið í því að meiri reynsla er af rekstri slíkra menntastofnana á öðrum stigum en grunnskólastigi.

2014.2.21_glæra 3

Lögð var fyrir spurning um leiðir til að bæta rekstrarstöðu háskóla á Íslandi og eru svör við þeirri spurningu áhugaverð fyrir margar sakir. Fyrst ber að nefna að 49% svarenda segjast hlynntir því að fjármagna háskóla á Íslandi að hluta með skólagjöldum á móti 36% sem eru andvígir. Mestur stuðningur er við þá tillögu að ríkið hækki framlög til háskóla, eða 69%, og um 66% eru hlynntir sameiningu háskóla til að bæta rekstrarstöðu. Meirihluti svarenda, 62%, er andvígur því að minnka framboð af námsbrautum.

Aðrar áhugaverðar niðurstöður sem vert er að draga fram er að 62% svarenda telja að sameina eigi háskóla þannig að eftir standi 2-3 háskólar, en 22% töldu fjölda háskóla á Íslandi eiga að vera óbreyttan. Lögð var fyrir spurningin „hvað réði mestu um það hvaða nám þú valdir“ og þar sögðu 65% að áhugasvið hafi ráðið valinu, 14% svöruðu að aðrir þættir hafi ráðið mestu og 9% sögðu þáverandi stöðu á vinnumarkaði hafa ráðið mestu um námsval. Það virðist því vera svo að efnahagslegir þættir skipti ekki höfuðmáli þegar kemur að vali á námi.

Viðhorf forsvarsmanna fyrirtækja
Í úrtaki viðhorfskönnunar forsvarsmanna fyrirtækja voru 995 fyrirtæki og stofnanir með 10 starfsmenn eða fleiri, en um blandað úrtak var að ræða úr fyrirtækjaskrá, Fyrirtækjapanel Capacent Gallup og félagatali Viðskiptaráðs. Svarhlutfallið var 40,3%.

Helstu niðurstöður voru þær að meirihluti forsvarsmanna fyrirtækja:

 • Telja umframeftirspurn vera eftir verk-, tölvu- og iðnmenntuðum
 • Telja að offramboð sé af viðskipta- og félagsvísindamenntuðum
 • Telja að efla þurfi frumkvæði og sjálfstæði meðal nýútskrifaðra sem ráðnir eru í kjarnastarfsemi fyrirtækja
 • Segja tengingu við atvinnulífið og hagnýt verkefni skipta mestu máli í námi þegar fyrirtæki ráða inn nýtt starfsfólk

Í svörum forsvarsmanna fyrirtækja kom glöggt í ljós að mikill meirihluti telur skort á fólki með ákveðna menntun í íslensku atvinnulífi, eða 75%. Mest er talin þörf á fólki með iðnmenntun (37%), tæknimenntun (33%), tölvunarfræðimenntun (10%) og verkfræðimenntun (8%). 2014.2.21_Glæra 4

Sjá má að mikil eftirspurn er eftir einstaklingum með iðnmenntun, verk- og tölvunarfræðimenntun og raungreinamenntun (aðra en verk- og tölvunarfræði) og offramboð er af einstaklingum með viðskiptagreinamenntun og félags- og hugvísindamenntun. Niðurstaðan endurspeglar þá þjóðfélagsumræðu sem verið hefur í gangi á undanförnum misserum og staðfestir þær getgátur sem uppi hafa verið.

2014.2.21_rett glaera 5

Þegar spurt var hvaða þættir sem snúa að námi, óháð menntun/fagi, skipti mestu máli þegar fyrirtækjastjórnendur ráða til sín nýtt starfsfólk kom í ljós að 55,4% töldu tenging náms við atvinnulífið skipta mestu máli, 12,4% töldu það vera samsetningu náms/námskeiða í námi og 9,9% sögðu það skipta mestu hvaða skóla umsækjandi hafi útskrifast frá, en einnig voru nefnd atriði á borð við einkunnir umsækjenda, meðmæli frá kennurum og að lokum aðrir þættir.

Hér að ofan má svo sjá hver stjórnendur fyrirtækja telja vera helstu tækifærin til þess að efla tengsl atvinnulífsins og menntakerfisins. 24% töldu helstu tækifærin felast í starfsþjálfun, 18% töldu þau felast í raunverulegum/hagnýtum verkefnum í tengslum við atvinnulífið, 17% vilja meiri samskipti/samvinnu milli skólanna og fyrirtækja og að lokum töldu 8% helstu tækifærin felast í því að menntakerfið sinni þörfum atvinnulífsins og öfugt.

Að lokum er áhugavert að rýna í orðský sem fékkst þegar svarendur voru beðnir um að hugsa um það fólk sem helst er ráðið í kjarnastarfsemi hjá sínu fyrirtæki og hvaða eiginleika eða hæfileika þurfi helst að efla hjá þeim sem eru nýútskrifaðir úr skóla. Þar stendur orðið „frumkvæði“ út úr og það er ljóst að einstaklingar sem hafa þennan eiginleika, hvort sem hann er meðfæddur eða lærður, eru eftirsóttir á vinnumarkaði. Þessi útkoma segir vissulega ekkert um það hvort að skortur sé á einstaklingum sem hafi frumkvæði, en í skólakerfinu er þetta eitthvað sem vert er að hugsa um og fara í nánari skoðun á því hvers lags hæfileika og eiginleika einstaklingar hafa að loknu t.d. háskólanámi.

2014.2.21_Glæra 5

Líflegar umræður fóru fram um menntamál og niðurstöður könnunarinnar í pallborðsumræðum á Viðskiptaþingi. Myndband af umræðunum er aðgengilegt á Youtube-síðu Viðskiptaráðs.

Heildarniðurstöður viðhorfskönnunar um menntamál má nálgast hér.

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023