Afruglaðar staðreyndir um RÚV

Umræða um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins (RÚV) fer hátt þessa dagana. Þannig mætti ætla, miðað við endurteknar yfirlýsingar stjórnar og stjórnenda stofnunarinnar, að nýsamþykkt fjárlög marki vatnaskil í starfsemi RÚV. Nýverið birti síðan vef- og nýmiðlastjóri RÚV samantektina „11 staðreyndir um RÚV“ sem ætlað er að renna stoðum undir þá afstöðu. 

Í stuttu máli gefur samantektin til kynna að RÚV sé hlunnfarið í fjárlögum næsta árs, að ekki sé svigrúm til frekari hagræðingar, að tekjustoðir félagsins séu rýrar samanborið við ríkisfjölmiðla í nágrannaríkjum Íslands, að lækkun útvarpsgjalds muni skaða rekstur RÚV og sé á skjön við vilja almennings, og að núverandi stjórnendur ættu ekki að leysa úr meintum skuldavanda óstuddir þar sem hann megi rekja til fortíðarákvarðana. Þegar raunverulegar staðreyndir málsins eru skoðaðar blasir þó við að slíkar ályktanir væru á röngum rökum reistar:

  • Greiðslur úr ríkissjóði til RÚV hækka um 3,5% milli fjárlaga áranna 2014 og 2015. Til samanburðar hækka greiðslur úr ríkissjóði til Landspítalans um 4,5% – sem ætla mætti að væri mun framar á forgangslista almennings.
  • Launakostnaður á hvert stöðugildi hjá RÚV hækkaði um 13,3% á milli rekstraráranna 2013 og 2014. Til samanburðar var samið um 2,8% launahækkun á almennum vinnumarkaði í síðustu kjarasamningum.
  • Heildarrekstrarkostnaður á hvert stöðugildi hjá RÚV hefur hækkað um 15% að raunvirði á síðustu þremur árum. Þessi hækkun hefur meira en vegið upp meinta hagræðingu vegna fækkunar stöðugilda á sama tímabili.
  • Útvarpsgjald á hvert heimili á Íslandi er sambærilegt við það sem gerist í nágrannaríkjunum. Þannig er það hærra hérlendis en í Bretlandi, sambærilegt við Svíþjóð og lægra en í Danmörku og Noregi. Hins vegar er Ísland eina landið í þessum hópi þar sem útvarpsgjald er innheimt óháð því hvort heimili eigi viðtæki sem geta móttekið útsendingar.
  • Enginn af ríkisfjölmiðlum ofangreindra landa starfar á auglýsingamarkaði í samkeppni við einkaaðila. Árið 2014 hafði RÚV um þriðjung tekna sinna af auglýsingum, alls rúmlega 1,8 milljarða króna.
  • Fyrirhuguð lækkun útvarpsgjalds kemur ekki niður á framlögum ríkissjóðs til RÚV, enda er gert ráð fyrir að samhliða lækkuninni renni gjaldið að fullu til stofnunarinnar, ólíkt því sem verið hefur allra síðustu ár.
  • Lækkun útvarpsgjalds er skattalækkun sem hefur sömu áhrif og hækkun persónuafsláttar. Ef almenningur væri spurður hvort hann kjósi hærra útvarpsgjald eða auknar ráðstöfunartekjur verður að teljast líklegra að seinni kosturinn yrði fyrir valinu.
  • Á móti skuldum RÚV er meðal annars stórt húsnæði og lóð. Efstaleiti 1 er 16.300 m2, sem gerir 60 m2 á hvert stöðugildi. Til samanburðar starfa 365 miðlar í 5.300 m2 húsnæði en eru með fleiri starfsmenn en RÚV. Með sölu á lóðum og hluta fasteignar er hægt að leysa úr skuldavanda félagsins án frekari ríkisaðstoðar.

Aðalatriðið í umræðunni um RÚV er að skattfé sem lagt er til rekstursins er að aukast á milli ára. Þrátt fyrir það virðist sem rekstraraðilum félagsins sé um megn að reka það innan þeirra fjárheimilda sem til staðar eru. Stjórn og stjórnendur RÚV ættu að líta í eigin barm og einbeita sér að því að gera rekstur fjölmiðilsins sjálfbæran í stað þess að eyða orku sinni í að reyna að hafa áhrif á úthlutun opinberra fjármuna. Treysti þau sér ekki til þess ætti að eftirláta öðrum verkið.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í 
Fréttablaðinu 20. desember

Tengt efni

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023

Vel heppnað Viðskiptaþing 2022

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2022 sem Viðskiptaráð stóð fyrir á ...
25. maí 2022