Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki

Nú liggur fyrir Alþingi nýlegt frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og hefur Viðskiptaráð sent inn umsögn varðandi það til allsherjarnefndar alþingis. Í umsögn sinni hvetur Viðskiptaráð til aukins eftirlits og eftirfylgni með hertari bankareglum og vill að hluta til ganga lengra en framlagt frumvarp gerir ráð fyrir. Sérstaka áherslu lagði ráðið á aukið gagnsæi og eftirlit með upplýsingum um eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Aukið gagnsæi í fjármálakerfi er til þess að efla traust og trúverðugleika almennings á uppbyggingu og starfsemi fjármálafyritækja.

Takmarkanir á eignarhaldi banka á fyrirtækjum í óskyldum rekstri
Einnig lagði ráðið til að lengra væri gengið með takmarkanir á heimildum banka til að eiga og reka fyrirtæki í óskyldum rekstri. Eignarhald banka á fyrirtækjum í óskyldum rekstri getur verulega skekkt samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja og valdið mismunun á markaði milli fyrirtækja í þeirra eigu og fyrirtækja í annarra eigu.

Virkur eignarhluti
Að auki gerði Viðskiptaráð athugasemd við þá rúmu fresti sem Fjármálaeftirlitinu eru veittir til að meta hæfi aðila til að eignast virka eignarhluti í fjármálafyrirtækjum, verulega íþyngjandi áhrif geta skapast fyrir þann sem sækist eftir virkum eignarhlut af of löngum frestum þar sem breytingar á aðstæðum geta átt sér stað yfir svo langan tíma og forsendur því raskast.

Skýrari og skilvirkari framfylgni og eftirlit
Umrætt frumvarp gerir ráð fyrir umsvifamikilli reglusetningu af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Slík reglusetning hefur styrkjandi áhrif á lagaumgjörð um fjármálamarkaði og er til þess fallin að gera eftirlit og framfylgni skýrari og skilvirkari. Viðskiptaráð hvetur til aukins eftirlits og eftirfylgni með hertari reglum ásamt auknu gagnsæi. Þess verður þó alltaf að gæta að slíkar reglur verði ekki of íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtæki þannig að þær tefji fyrir eða komi í veg fyrir endurreisn skilvirks fjármálakerfis í landinu.

Umsögn Viðskiptaráðs í heild sinni má nálgast hér.

Tengt efni

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024

Nauðsynlegt að tryggja félagafrelsi á vinnumarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs um félagafrelsi á vinnumarkaði (mál nr. 24)
8. des 2022

Raunveruleg þörf fyrir sóttvarnaaðgerðir er nauðsynleg forsenda útgjalda

Viðskiptaráð kallar eftir afléttingu takmarkana og að athafnafrelsi sé komið að ...
25. jan 2022