Aukinni samkeppni ekki að fullu náð í nýjum lyfjalögum

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til velferðarnefndar Alþingis vegna frumvarps til nýrra lyfjalaga sem felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lyfjalögum. Viðskiptaráð telur ýmsar breytingar frumvarpsins til bóta en gerir þó athugasemdir við ákveðna þætti þess.

Umsögnina má í heild sinni nálgast hér

Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Viðskiptaráð fagnar því að lagt sé til að lyfjaagreiðslunefnd verði lögð niður og verkefni nefndarinnar færð til Lyfjastofnunar. Ráðið hefur hvatt til fækkunar opinberra stofnana til að þær geti sinnt betur hlutverkum sínum og uppfyllt á sama tíma kröfur um skilvirkan opinberan rekstur. 
  • Jafnframt telur ráðið til bóta að lyfjaauglýsingar verði heimilar nema sérstakar lögbundnar undantekningar kveði á um annað og að veitt verði lagaheimild fyrir netverslun með lyf.
  • Að mati Viðskiptaráðs er ekki gengið nógu langt í að leyfa sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun þar sem sú heimild er bundin við að ekki sé starfrækt lyfjabúð eða lyfjaútibú. Eðlilegast væri að heimila sölu lausasölulyfja í almennri verslun. Sala lausasölulyfja í almennri verslun eykur samkeppni og er til þess fallin að lækka verð á slíkum lyfjum neytendum til hagsbóta. Auk þess er slíkt í samræmi við lagaumhverfið í þeim löndum sem við berum okkur helst við.
  • Í lögum og í frumvarpinu er eftirlitsgjald lagt á nánar tilgreinda aðila óháð því hvort eftirlit sé framkvæmt eða ekki. Að mati Viðskiptaráðs eiga eftirlitsgjöld stjórnvalda að endurspegla raunverulegan kostnað sem verður til vegna eftirlits. Að öðrum kosti er hætt við að gjöldin verði í reynd nýr skattur á atvinnugreinina.

Tengt efni

Orkulaus eða orkulausnir?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem fór fram 9. febrúar 2023
16. feb 2023

Jafna þarf stöðu innlendra áfengisframleiðenda

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum.
24. mar 2022

Nauðsynlegt að líta heildstætt á vinnumarkaðinn á Íslandi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára ...
15. feb 2022