Efling lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

Umsögnina í heild sinni má nálgast hér (pdf)

Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Viðskiptaráð telur hækkun á heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum upp í 25% vera til bóta. Hækkun á heimildinni kann að vera til þess fallin að auka aðgengi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja að fjármagni.
  • Ráðið leggst gegn þeirri tillögu að byggð verði upp upplýsingaveita um tækni- og hugverkafyrirtæki á kostnað hins opinbera. Hagkvæmara væri að Hagstofunni yrði gert kleift að afla og birta víðtækari gögn um íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Upplýsingar um nýsköpunarfyrirtæki gætu verið hluti af þeirri gagnaöflun.
  • Viðskiptaráð telur skattaívilnanir vegna fjárfestinga í litlum og meðalstórum fyrirtækjum vera óæskilegar. Framleiðni smærri fyrirtækja er að meðaltali lægri en stærri fyrirtækja og því eru skattalegir hvatar til handa smærri fyrirtækjum umfram þau stærri til þess fallnir að draga úr framleiðni atvinnulífsins. Hins vegar má færa rök fyrir skattalegum hvötum til að auka fjárfestingar í nýsköpun hérlendis.
  • Viðskiptaráð fagnar því að í þingsályktunartillögunni sé gert ráð fyrir því að skattalegir hvatar nái einnig til þeirra sem fjárfesta í fyrirtækjum í gegnum fjárfestingasjóði. Með þeim hætti geta einstaklingar takmarkað áhættu sína án þess að missa skattaafsláttinn.
  • Viðskiptaráð telur rétt að lækka tryggingagjaldið. Ávinningur lægra tryggingagjalds skilar sér sérstaklega vel til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, enda er stærsti hluti kostnaðar þeirra í formi launa. Einnig má benda á að tryggingagjald er skattur sem leggst á fyrirtæki óháð því hvort hagnaður eða tap er af rekstri þeirra og getur þannig skapað þeim þungar byrðar. Þá kann lækkun tryggingagjalds að skapa rými fyrir fyrirtæki að ráða fleira starfsfólk með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á efnahagslífið.
  • Í þingsályktunartillögunni er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra undirbúi og hrindi í framkvæmd aðgerðaráætlun um eflingu verk- og tæknináms á Íslandi. Viðskiptaráð tekur undir þessa tillögu, enda er verulegur skortur á mannauði með verk- og tæknimenntun hérlendis.

Umsögnina í heild sinni má nálgast hér (pdf)

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023