Viðskiptaráð reiðubúið til samvinnu um faglega meðferð málsins

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til laga um tekjuskatt (mál nr. 23)

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um tekjuskatt. Frumvarpið var lagt fram af efnahags- og viðskiptanefnd í gær, 13. júní. Samráðs hefur ekki verið óskað sérstaklega. Í ljósi þess að málið er lagt fram án nokkurs aðdraganda telur Viðskiptaráð rétt að koma að athugasemdum. Vegna skamms fyrirvara gefst ekki tækifæri til ítarlegrar umfjöllunar um efnisleg áhrif.

Eins og getið er um í greinargerð er tilgangur með frumvarpinu tvíþættur. Í fyrsta lagi er ætlunin að eyða óvissu í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar í máli nr. 42/2022. Í öðru lagi að lagfæra mistök er urðu við samþykkt 399. máls á 151. löggjafarþingi.

Slæm vinnubrögð

Viðskiptaráð dregur góðan ásetning nefndarinnar ekki í efa. Athugasemdir ráðsins snúa að því að frumvarpið hefur ekki hlotið faglegan undirbúning. Þá skortir á samráð við þá sem málið kann að snerta. Rökstuðningur í greinargerð orkar auk þess tvímælis og málið allt ber þess merki að það sé lagt fram í flýti.

Viðskiptaráð bendir á að málið varðar efnislega hagsmuni, réttindi og skyldur þeirra sem lúta íslenskri skattalöggjöf. Ráðið er almennt þeirrar skoðunar að hérlent skattaumhverfi eigi að vera gagnsætt, fyrirsjáanleg, skýrt og afdráttarlaust. Ef vilji stendur til þess að gera breytingar þurfi þeir sem eigi hagsmuna að gæta að geta aðlagað sig að þeim með hæfilegum fyrirvara.

Atvinnurekstur er í eðli sínu bæði óviss og áhættusamur. Tiltrú á íslensku viðskiptaumhverfi veltur meðal annars á því að byggjandi sé á settum reglum hverju sinni. Samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi veltur einnig á því að löggjafinn ástundi fagleg og eðlileg vinnubrögð. Svo er ekki í þessu máli og áformuð afgreiðsla þess ekki til eftirbreytni.

Hraðsoðinn rökstuðningur

Auk þessa þykir Viðskiptaráði rökstuðningur í greinargerð bera þess merki að skort hafi á undirbúning málsins. Er þá einkum vísað til umfjöllunar í greinargerð þar sem segir að tiltekið vinnulag skattayfirvalda teljist að mati nefndarinnar vera meginregla í íslenskum rétti og frumvarpið sé til að eyða óvissu um þá meginreglu í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar. Viðskiptaráð telur það orka tvímælis að löggjafinn komist svo að orði að vinnubrögð skattayfirvalda, sem beinlínis voru metin andstæð lögum skv. tilvitnuðum úrskurði yfirskattanefndar nr. 42/2022, beri í einhverjum skilningi að skoða sem meginreglu.

Að lokum bendir Viðskiptaráð á að umfjöllun um samræmi 2. gr. frumvarpsins við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skortir. Tilvitnað ákvæði hefur áhrif á skattlagningu félaga sem eru í slitameðferð og skapar óvissu um skattalega meðferð þeirra m.t.t. afturvirkni.

Niðurstaða

Viðskiptaráð telur málið bera þess merki að skort hafi á faglegan undirbúning og vinnubrögð. Ekkert samráð hefur átt sér stað um málið. Í greinargerð er hvergi vikið að því að málið sé svo brýnt og þurfi að afgreiða með þeim hætti sem lagt er upp með. Afgreiðsla málsins með þessum hætti dregur úr tiltrú atvinnulífs og rýrir traust til löggjafans.

Í ljósi alls framangreinds leggst Viðskiptaráð gegn því frumvarpið nái að svo stöddu fram að ganga en lýsir sig reiðubúið til samvinnu um faglega meðferð málsins.

Að lokum áskilur Viðskiptaráð sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum og er reiðubúið að skýra umsagnir sínar sé þess óskað.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Viðskiptaráð leitar að framkvæmdastjóra

Viðskiptaráð Íslands er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í ...
22. jan 2024

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023