Innleiðing rafrænnar fyrirtækjaskrár

Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög í tengslum við innleiðingu rafrænnar fyrirtækjaskrár. Viðskiptaráð tekur undir markmið frumvarpsins um einföldun á regluverki atvinnulífsins.

Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Viðskiptaráð telur tímabært að komið verði á laggirnar rafrænni fyrirtækjaskrá sem að myndi auðvelda stofnun félaga til muna. Nái frumvarpið fram að ganga verður einstaklingum og lögaðilum gert kleift að útbúa stofngögn vegna stofnunar hlutafélaga og einkahlutafélaga, undirrita þau rafrænt og senda til fyrirtækjaskrár.
  • Viðskiptaráð telur breytingar á ákvæði 2. tl. 3. mgr. 55. gr. laga um hlutafélög vera til bóta. Í núgildandi lögum er heimild skráðra félaga til kaupa á eigin hlutum takmörkuð við síðasta skráða dagslokagengi á markaði áður en samningur var gerður. Ráðið tekur undir ábendingar Kauphallar Íslands um að ákvæðið sé íþyngjandi og erfitt í framkvæmd. Nái frumvarpið fram að ganga verður skráðum félögum ekki heimilt að kaupa eigin hluti á hærra verði en nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði, hvort sem er hærra. Þótt þessi breyting sé óvítrætt til bóta telur Viðskiptaráð að ganga megi enn lengra í að rýmka heimildir skráðra félaga til kaupa á eigin hlutum.
  • Vegna umræðu á Alþingi um aðgerðir gegn kennitöluflakki í tengslum við umrætt lagafrumvarp telur Viðskiptaráð rétt að árétta að slíkar aðgerðir þurfi að vera vel ígrundaðar. Kennitöluflakk er einungis talið liggja að baki 4-6% gjaldþrota. Aðgerðir gegn kennitöluflakki mega því ekki verða til þess að athafnafrelsi og viðskiptamöguleikar þeirra sem stunda eðlilega viðskiptahætti verði takmörkuð. Slíkar aðgerðir kunna að koma niður á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, t.a.m. ef lagðar eru meiri kvaðir á fyrirtæki hérlendis við skil á ársreikningum en tíðkast annars staðar.

Viðskiptaráð tekur undir markmið lagafrumvarps þessa og telur breytingarnar sem það kveður á um vera til bóta. Er það von ráðsins að þetta sé einungis upphafið að umfangsmeiri einföldun á regluverki atvinnulífsins.

Umsögnina má í heild sinni nálgast hér (PDF)

Tengt efni

Meta þarf áhrif eignarhaldsskorða

Nágrannalönd okkar hafa þróað kerfi í þessum efnum sem við mættum gjarnan hafa ...
26. maí 2020

Eignarhaldsskorður ganga á rétt jarðeigenda

Sérhvert inngrip í markaði eru til þess fallin að skekkja verðmætamat og auka ...
4. mar 2020

Skilvirkni og hagkvæmni í þágu atvinnulífs og neytenda

Opinberar stofnanir ættu að vera færri frekar en fleiri, umfang þeirra nægilegt ...
12. nóv 2020