Jafna þarf stöðu innlendra áfengisframleiðenda

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum.

Viðskiptaráð Íslands hefur tekið til umsagnar frumvarp til breytinga á áfengislögum. Frumvarpið felur í sér að dregið verður úr einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda og telur ráðið það vera skref í rétta átt en að ganga þurfi mun lengra og afnema að fullu einokunarverslun ríkisins á smásölu með áfengi.

Einokun ríkisins hefur skaðleg áhrif

Einkaréttur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til áfengissölu er lögfestur í 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, og 1. mgr. 7. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011. Í frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Þannig verði heimiluð sala áfengis í gegnum verslanir sem starfræktar eru á netinu.

Um árabil hefur það verið skoðun Viðskiptaráðs að einkaaðilar séu að öllu jöfnu betur til þess fallnir að reka fyrirtæki og standa í atvinnurekstri en hið opinbera. Með kröftum samkeppni skapast sterkir hvatar til að veita sem besta þjónustu á sem lægstu verði, en þetta leiðir til aukinnar hagkvæmni sem er allra hagur. Reynslan af íslenskum smásölumarkaði sýnir svart á hvítu að hið opinbera á að lágmarka atvinnurekstur sinn eins og því er frekast unnt. Þá er ljóst að á undanförnum áratugum hefur aukið frelsi í verslun leitt til gríðarlegrar kjarabótar fyrir íslenska neytendur. Einokunarstaða ÁTVR hefur þær afleiðingar að kraftar samkeppni leiða síður til aukinnar hagkvæmni í rekstri líkt og raunin hefur verið í verslun með aðra vöru.

Því er það jákvætt skref að mati Viðskiptaráðs að heimila vefverslanir með áfengi. Þó telur Viðskiptaráð  mikilvægt að gengið sé lengra og einokun ríkisins á rekstri vínbúða verði alfarið afnumin. Fyrir því eru margvísleg rök sem ráðið hefur ítrekað reifað. Meðalhófssjónarmið mæla þar að auki með því að farnar séu aðrar leiðir í því að lágmarka skaðleg áhrif á lýðheilsu af völdum áfengissölu. Sjónarmið í þá veru hefur Viðskiptaráð áður reifað í umsögnum um áfengismál.[1]

Jafna þarf stöðu innlendra áfengisframleiðenda

Viðskiptaráð telur frumvarpið mikilvægt skref í að jafna stöðu innlendra áfengisframleiðanda gagnvart erlendum aðilum. Að óbreyttu mega eingöngu erlend fyrirtæki selja Íslendingum áfengi á netinu, en erlendar vefverslanir hafa þó sprottið upp hér á landi með góðum árangri og auknu valfrelsi fyrir neytendur. Að mati ráðsins er ótækt að innlendar vefverslanir sitji ekki við sama borð og erlendar og að hið opinbera handstýri neytendum í viðskipti við erlendar verslanir með því að takmarka atvinnufrelsi hér á landi. Fáránleiki þessarar stöðu birtist í umfjöllun greinargerðar um að íslenskir áfengisframleiðendur hafi flutt vörur sínar út til vefverslananna í þeim tilgangi einum að flytja þær aftur til landsins. Morgunljóst er að hér fara ekki saman hljóð og mynd og að til staðar er markaður fyrir íslenskt áfengi í vefverslunum.

Í fyrsta lagi tekur Viðskiptaráð undir það sem fram kemur í frumvarpinu um að vefverslun sé nú þegar leyfileg og í fullri starfsemi. Líklegar afleiðingar af samþykkt frumvarpsins yrðu því eingöngu að selt magn flyttist frá erlendri verslun til innlendrar og erfitt er að fullyrða um aukningu í sölu. Í þessu sambandi er einnig ágætt að hafa í huga að aðgengi að innlendri netverslun er síst meira en aðgengi að erlendri netverslun. Í öðru lagi rekur ÁTVR sjálf vefverslun sem erfitt er að sjá að hafi slæm lýðheilsuleg áhrif og ef svo væri, mætti leiða að því líkur að hún færi í bága við b. lið 2. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak nr. 86/2011. Í þriðja lagi fylgja vefverslun ákveðnir kostir er varða takmörkun á aðgengi, ef vilji er til útfærslu á slíku. Þannig má til dæmis nýta rafræn skilríki til þess að sannreyna aldur þess sem verslar auk þess sem að þeir sem vilja sjálfir takmarka aðgengi sitt að áfengi gætu nýtt kosti tækninnar til að gera það og vísast í því samhengi til hugmynda um spilakort og aðrar líkar lausnir þegar kemur að spilakössum og spilafíkn. Þetta mætti útfæra í lögum og færa má rök fyrir því að ríkari takmörkun felist í þessu heldur en þeim aðgerðum sem ÁTVR heldur þegar úti til að takmarka neyslu áfengis. Við þetta má bæta að þegar er í 4. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir ströngum skilyrðum til að tryggja að áfengi sé ekki afhent fólki undir aldri.

Þörf er á heildarendurskoðun í málaflokknum

Þegar allt er tekið til er Viðskiptaráð fylgjandi því að heildarumgjörð áfengissölu á Íslandi verði endurskoðuð líkt og fram hefur komið í fyrri umsögnum ráðsins um áfengismál. Íslenskum fyrirtækjum hefur sem fyrr sagði verið mismunað um árabil, en á þeim þætti málsins eru fleiri hliðar en sú er varðar vefverslun með áfengi. Líkt og áður hefur komið fram í málflutningi Viðskiptaráðs er ráðið einnig fylgjandi því að 20. gr. laganna verði endurskoðuð, en í því ákvæði er lagt bann við hvers kyns auglýsingum á áfengi og einstökum áfengistegundum. Slíkt bann sem hyglir erlendum áfengisframleiðendum umfram innlenda, hefur verið við lýði frá árinu 1928 og er barn síns tíma að mati ráðsins, líkt og fram hefur komið í fyrri umsögnum Viðskiptaráðs um áfengismál.[2]  

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga og áskilur sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum. Viðskiptaráð er reiðubúið að skýra sjónarmiðin að framar nánar og svara spurningum, sé þess óskað.

[1] Sjá nánar

[2] Sjá nánar

Tengt efni

Unglingadrykkja hrunið síðustu 30 ár

Undanfarin 30 ár hefur unglingadrykkja á Íslandi hrunið. Árið 1995 höfðu 80% ...
18. jún 2024

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023