Aðkoma einkaaðila stuðlar að nauðsynlegri uppbyggingu á landsvæði ríkisins

Aðkoma einkaaðila og aukin fjárfesting þeirra getur stuðlað að nauðsynlegri uppbyggingu á landsvæði ríkisins og á sama tíma ýtt undir aukna verðmætasköpun og blómlegra atvinnulíf.

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar (hér eftir nefnd einu nafni samtökin) hafa tekið til umsagnar frumvarp til laga um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni. Í frumvarpinu eru lagðar fram tillögur um hvernig best verður staðið að úthlutun á rétti til hvers kyns nýtingar í atvinnuskyni á landi og náttúruperlum í eigu ríkisins.

Samtökin telja mikilvægt að mótaður sé lagarammi sem tryggir að vel sé staðið að úthlutun á slíkum gæðum. Aðkoma einkaaðila og aukin fjárfesting þeirra getur stuðlað að nauðsynlegri uppbyggingu á landsvæði ríkisins og á sama tíma ýtt undir aukna verðmætasköpun og blómlegra atvinnulíf. Í því skyni er mikilvægt að gerð sérleyfis- og rekstrarleyfissamninga á landi ríkisins sé með gagnsæjum, hagkvæmum og markvissum hætti og að jafnræðis sé gætt í útboðum. Fagna ber því að sérstaklega er tekið fram í frumvarpi að horft sé til þess að greiðslur séu ekki íþyngjandi til að tryggja að hægt sé að byggja upp sjálfbæran rekstur innan þess leigutíma sem samið er um.

Mikilvægt er að horfa til þess að tekjur af samningum séu nýttar til að auka og viðhalda gæðum þess svæðis sem samningur nær yfir. Þá sé horft til öryggis, umhverfis og þjónustu á svæðinu. Mögulega væri hægt að horfa til þess að hluti fjármagns færi í uppbyggingarsjóð fyrir ferðamannastaði, landvörslu á svæðinu og til útkallsaðila til tryggja öryggi. Reynsla ferðaþjónustunnar af því að tekjur (oft í formi þjónustu- og bílastæðagjalda) renni í ríkissjóð er að oft reynist erfitt að fá það fjármagn til baka til að sinna því svæði sem tekjurnar sköpuðust á.

Samtökin vilja koma á framfæri athugasemdum við ákveðnar lagagreinar í frumvarpinu:

Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins skal ráðherra í reglugerð tilgreina þau svæði þar sem krafist er nýtingarsamnings. Við gerð slíkrar reglugerðar þarf að huga sérstaklega að því hvers konar ferðaþjónusta hentar hverjum stað þ.e. nokkurs konar “rammaáætlun ferðaþjónustunnar”. Í slíkri reglugerð þarf að hugsa til innviðauppbyggingar og skipulags á tilgreindu svæði. Slíkt skipulag þarf að taka mið af verndun, svipmóti lands og náttúru og jafnframt stuðla að jákvæðri upplifun gesta. Þá þarf einnig að hafa í huga að skipulagsmál þjóðgarða, friðlýstra svæða og annars lands í eigu ríkisins sé á hendi fárra innan stjórnkerfisins til að viðhalda einföldu regluverki.

Í 5. mgr. 12. gr. frumvarpsins segir: „Mannvirkið verður í eigu leyfishafa á samningstíma, en honum er óheimilt að veita öðrum heimild til að nýta það, hvort sem er til láns eða leigu, nema að fengnu samþykki leyfisveitanda.“ Það kemur undarlega fyrir sjónir að ríkið, sem leyfisveitandi, sé að hafa afskipti af nýtingu mannvirkja í eigu leyfishafa á meðan á samningstíma stendur. Vissulega getur ríkið gert kröfu á að mannvirkið sé nýtt til ákveðinnar þjónustu en að leyfishafi þurfi samþykki leyfisveitanda

í hvert skipti sem mannvirki eða hluti mannvirkis sé lánað eða leigt getur verið íþyngjandi fyrir leyfishafa. Það er vel þekkt innan ferðaþjónustu að mannvirki eru lánuð eða leigð undir ýmsa viðburði eða verkefni sbr. hvataferðir og kvikmyndaverkefni. Eins er algengt að hluti mannvirkja sé samnýttur af fleiri ferðaþjónustuaðilum s.s. til geymslu á búnaði eða til starfsmannaaðstöðu. Í raun mætti fella þessa lagagrein út og taka frekar fram að við útboðsgerð geti leyfisveitandi krafist þess að ákveðin þjónusta skuli vera til staðar í þeim mannvirkjum sem séu hluti af samning.

Í 21. gr frumvarpsins er talað um að heimild til að krefjast þess að bjóðandi hafi tiltekna lágmarksveltu á því sviði sem samningur fellur undir. Hættan við þessa lagagrein er að hún komi í veg fyrir nýliðun þannig að fyrirtæki sem ekki hefur starfað innan þess sviðs sem útboðssamningur tilgreinir eða sé t.d. nýstofnað fyrirtæki sé fælt frá. Það getur komið verr út fyrir bjóðanda í útboði. Frekar ætti eingöngu að horfa til þess að fjármögnun bjóðanda sé tryggð.

Að lokum vilja samtökin ítreka að tilgreining landssvæðis verði byggð á þolmarkarannsóknum og grundvelli verndar á einstökum náttúruperlum og að meðalhófs sé gætt við slíkar skilgreiningar.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Kröfur sem hindra samkeppni á leigubifreiðamarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um drög að reglugerð um ...
22. mar 2023

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022