Stjórn Landspítala verði raunverulegur æðsti ákvörðunaraðili

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu

Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins (hér eftir „samtökin“) hafa tekið til umsagnar frumvarp um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu er varðar stjórn yfir Landspítala, en samtökin skiluðu einnig umsögn í sitt hvoru lagi um málið í samráðsgátt stjórnvalda 31. janúar sl. Lagði Viðskiptaráð meðal annars áherslu á að skýra þyrfti ábyrgðarsvið stjórnar og heimildir gagnvart ráðherra og forstjóra. Þá þyrfti að skýra hlutverk og val fulltrúa starfsmanna í stjórninni. Að mati samtakanna hefur ekki verið tekið nægt tillit til þessara athugasemda.  

Líkt og fram kemur í greinargerð er hugmyndin með því að skipa á ný stjórn yfir Landspítalann, eftir að hún var lögð niður árið 2007, meðal annars tilkomin vegna þess að óskýr ábyrgð á stofnuninni hefði leitt til þess að erfitt hefði verið að greina vanda sem að henni steðjaði og grípa til aðgerða. Samtökin telja þetta rétt og styðja áform ríkisstjórnarinnar að skipa stjórn yfir spítalann sem geti haft eftirlit með og stutt við starfsemi sjúkrahússins. 

Til þess að sú ráðstöfun nái tilgangi sínum, þarf ábyrgðarsvið hennar aftur að vera skýrt og heimildir hennar þar að auki, bæði gagnvart ráðherra og forstöðumanni. Ef skipa á stjórn yfir spítalann að norrænni fyrirmynd, eins og segir í stjórnarsáttmála, þarf að mati samtakanna að ganga lengra en lagt er til með frumvarpinu og gera stjórn að raunverulegum æðsta ákvörðunaraðila spítalans og færa henni vald til að ráða forstjóra.  

Áréttað skal í þessu sambandi það sem fram kom í fyrri umsögn um stjórnskipulag sjúkrahúsa á Norðurlöndunum, en Ísland sker sig úr að því leyti að ríkið kemur beint að rekstri Landspítalans hér, en annars staðar heyra spítalar undir sveitarstjórnarstigið og eru oftar en ekki reknir sem hlutafélög. Þar er stjórn því efst í skipuriti og ræður forstjóra sem ber ábyrgð gagnvart henni. 

Ekki nægilega skýrt hvernig fer með ákvörðunarvald og ábyrgð stjórnar  

Enn virðist sem stjórn Landspítalans sé ætlað að vera einhvers konar millistig milli ráðherra og forstjóra Landspítalans. Hvað skipun forstjóra varðar er frumvarpið hljótt um hlutverk stjórnarinnar í skipunarferlinu, ólíkt því sem var í frumvarpsdrögunum. Þar var ráðgert að stjórn skyldi gera tillögu að forstjóra spítalans við ráðherra, að undangengnu mati hæfnisnefndar, sem ráðherra skipaði. Viðskiptaráð gerði athugasemd við þetta fyrirkomulag og sakna samtökin þess sem fyrr, að stjórninni sé falið það hlutverk að skipa forstjóra.  

Að nokkru marki hefur verið brugðist við athugasemdum í fyrri umsögn, t.d. hvað varðar skilgreiningu á veigamiklum atriðum í skilningi. Hvað varðar hlutverk stjórnarinnar sem æðsta ákvörðunaraðila spítalans hefur áherslan fremur færst í öfuga átt frá því í frumvarpsdrögunum, þannig aðkoma forstjóra sé jafnvel meiri en þá var ráðgert. Þannig er til dæmis mælt fyrir um að stjórnin skuli, í samráði við forstjóra, marka stofnuninni langtímastefnu. Þá skuli stjórn skv. 3. gr. frumvarpsins „vera forstjóra til aðstoðar við ákvörðun um önnur veigamikil atriði er varða rekstur stofnunarinnar og starfsemi hennar,“ í stað þess að stjórn taki slíkar ákvarðanir. Þá er þörf á því að skýra betur muninn á „veigamiklum atriðum er varða rekstur stofnunarinnar og starfsemi hennar“ annars vegar og „ráðstafanir sem, miðað við daglegan rekstur, eru mikilsháttar eða óvenjulegar í starfsemi stofnunarinnar.“  

Að lokum gera samtökin athugasemd við brottfall áskilnaðar um fjölda stjórnarmanna með tiltekna þekkingu, en í frumvarpsdrögunum var áskilnaður gerður um að í stjórninni sætu tveir aðilar með sérþekkingu á rekstri og áætlunargerð og tveir með sérþekkingu á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði eða menntun heilbrigðisstétta. Með þessu er opnað fyrir þann möguleika að einn stjórnarmaður hafi þekkingu á rekstri og áætlanagerð, en allir aðrir hafi þá þekkingu á heilbrigðismálum sem lýst var að framan. Að mati samtakanna þarfnast þessar breytingar skýringa sem ekki er að finna í greinargerð með frumvarpinu. 

Heilt á litið er enn óskýrt að mati samtakanna hvaða hlutverki stjórn Landspítalans á að sinna. Áréttað skal það sem fram kom í fyrri umsögn Viðskiptaráðs um gagnsemi þess að í greinargerð kæmi fram hvernig skipurit starfsemi spítalans liti út með stjórn og nánari útlistun á skiptingu ábyrgðar og ákvörðunarvalds. Verði frumvarpið óbreytt að lögum telja samtökin líklegt að það bjóði heim samskonar ástandi og varð til þess að fyrra fyrirkomulag var lagt af með lögum nr. 40/2007 og lýst er nánar í greinargerð með frumvarpinu.  

Skýra þarf ákvæði um aðkomu starfsmanna að stjórn Landspítalans 

Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um aðkomu tveggja fulltrúa starfsmanna í stjórninni sem hafi málsfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar. Á fyrri stigum gerði Viðskiptaráð athugasemd við þessa tilhögun, en ekki er að sjá að við þeim hafi verið brugðist.  

Í greinargerð er vísað til þess að tveir fulltrúar starfsmanna sitji í stjórnum sænskra spítala. Áréttað skal það sem fram kom í fyrri umsögn Viðskiptaráðs um málið, að eftir því sem ráðið kemst næst er útlistað í reglum sænskra yfirvalda hvernig viðkomandi starfmenn skuli skipaðir og af hverjum. Ekki er gert ráð fyrir slíku fyrirkomulagi í frumvarpinu. Í reglum sænskra yfirvalda er einnig ítarlega kveðið á um það undir hvaða fundarliðum starfsmenn eigi ekki rétt á setu á stjórnarfundum. Þetta er meðal annars í vinnumarkaðs- og innkaupatengdum málum. Hvort tveggja frumvarpið og greinargerð eru hljóð um þessi atriði og telja samtökin brýnt að þau séu útfærð í lögum og reglum eftir því sem við á, þannig umgjörðin um aðkomu starfsmanna að stjórninni sé skýr.  

Samtökin auk Nasdaq á Íslandi eru útgefendur leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja en mælst er til þess að stjórnir opinberra fyrirtækja og stofnana fylgi leiðbeiningunum til jafns við fyrirtæki. Leiðbeiningarnar gera ekki ráð fyrir beinni aðkomu starfsfólks að stjórnum. Að baki leiðbeiningunum eru meðal annars sjónarmið um að aðkoma daglegra stjórnenda félags eða meðlima í framkvæmdastjórn skuli takmörkuð í ljósi skyldu stjórna til að hafa eftirlit með daglegum rekstri félaga. Nauðsynlegt er að skýra nánar hlutverk starfsmannanna tveggja í stjórninni, ekki síst með hliðsjón af eftirlitshlutverki stjórnarinnar sem áréttað er í 1. gr. frumvarpsins.  

Hafa þarf í huga að stjórn Landspítalans væri mögulegt hvenær sem er að óska eftir aðkomu starfsmanna á stjórnarfundum en gert er ráð fyrir því í 1. gr. frumvarpsdraganna að formaður hafi heimild til að boða forstjóra og aðra á fundi stjórnarinnar auk þess sem fulltrúum starfsmanna er skv. frumvarpinu sömuleiðis frjálst að óska áheyrnar stjórnarinnar. 

Að mati samtakanna gæti faglega og rekstrarlega sterk stjórn yfir Landspítalann verið gæfuspor. En til þess að slík breyting þjóni þeim tilgangi sem almennt má ætla að sé undirliggjandi, að auka eftirlit og styrkja faglega starfsemi og rekstur, þarf umgjörð, hlutverk og ábyrgð að vera skýr, milli ráðherra, stjórnar og forstjóra. Þetta frumvarp uppfyllir ekki þá kröfu.  

Samtökin leggjast gegn því að frumvarpið nái fram að ganga óbreytt og er reiðubúið að skýra athugasemdir sínar við það nánar ef þess er óskað. 

Tengt efni

Viðskiptaráð leitar að framkvæmdastjóra

Viðskiptaráð Íslands er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í ...
22. jan 2024

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks

Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, ...
8. maí 2023