Hver er þín verðbólga?

Reiknivél Viðskiptaráðs sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína verðbólgu hefur verið uppfærð miðað við febrúar 2023

Útreikningarnir í reiknivélinni hér fyrir ofan eru byggðir á vísitölu neysluverðs, sem er jafnframt algengasti mælikvarðinn á verðbólgu. Vísitalan mælir mánaðarlegar verðbreytingar á „vörukörfu“ sem endurspeglar þær vörur og þá þjónustu sem dæmigerð íslensk fjölskylda kaupir á tilteknu tímabili. Þessi dæmigerða fjölskylda er hin fræga vísitölufjölskylda. Vísitalan er samsett af ýmsum vöruflokkum sem hafa ólíkar vogir eftir því hversu stórum hluta mánaðarlegra útgjalda er varið í hvern flokk. Þannig getur mismunandi neyslumynstur leitt til þess að verðlagsbreytingar verði mismiklar hjá hverju heimili.

Til dæmis ver meðalfjölskyldan u.þ.b. 5% mánaðarlegra útgjalda á hótelum og veitingastöðum, og hefur sá flokkur því þá vigt í vísitölu neysluverðs. Þetta á við um meðalfjölskylduna og því gæti verðbólgan þín verið önnur ef þú eyðir hærra hlutfalli á hótelum og veitingastöðum.

Reiknivélin aðlagar þína verðbólgu eftir því hvort þú eyðir meira eða minna í tilteknar vörur og þjónustu en vísitölufjölskyldan. Hún tekur þó ekki sérstakt tillit til þess hvort þú sért líklegri til að nýta frekar útsölur eða tilboð. Þar að auki tekur hún ekki tillit til þess hvernig vörur þú kaupir í hverjum vöruflokki, t.d. hvort þú kaupir dýrari eða ódýrari matvörur. Þrátt fyrir það sýnir reiknivélin hvernig einstaklingar geta upplifað verðbólgu á ólíkan máta. Þín eigin verðbólga getur verið á bilinu 8,3% til 11,5% eftir því hvernig þú svarar spurningunum hér að ofan.

Reiknivélin leiðir m.a. í ljós að verðbólga hjá grænmetisætum er um 0,4 prósentustigum lægri  en hjá þeim sem borða einnig fisk og kjöt. Þó svo að matvörur grænmetisætunnar hafi hækkað í verði frá því í fyrra hafa kjöt- og fiskvörur hækkað hlutfallslega meira yfir sama tímabil. Að þessu leyti hefur mataræði áhrif á verðbólgu einstaklinga.

Þó svo að einstaklingsbundin verðbólga geti verið misjöfn eftir neyslumynstri eru nú meiri líkur á því að flestir finni fyrir verðbólgunni. Ástæðan fyrir því er að verðbólguþrýstingur er nú á breiðari grunni en áður. Það þýðir að stærra hlutfall undirliða vísitölu neysluverðs hækkar í takt við vaxandi verðbólgu.

Tengt efni

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023