Framhald á yfirstandandi kreppu

Nú hafa verið birtar tölur um þróun hagkerfisins á öðrum ársfjórðungi. Þar kemur fram að samdráttur hafi verið 3,1% milli ársfjórðunga. Það sem vekur einna helst athygli er hve mikil breytingin er frá áður birtum hagvaxtartölum.

Aðilar ríkisstjórnarinnar og AGS höfðu áður bent á að kreppunni hérlendis væri tæknilega lokið þar sem hagvöxtur hafi mælst tvo ársfjórðunga í röð. Nú sýna hins vegar uppfærðar tölur að á þeim ársfjórðungum sem gert var ráð fyrir hagvexti var í raun samdráttur. Í tölum sem Hagstofan birti fyrr á árinu var gert ráð fyrir því 0,7% hagvexti á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en uppfærðar tölur gera ráð fyrir 0,3% samdrætti.

Að sama skapi var gert ráð fyrir því að hagvöxtur yrði 0,6% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en samkvæmt tölum Hagstofunnar  var þó samdráttur upp á 1,2%. Í báðum tilvikum var stærð hagkerfisins ofmetin sem veldur því að hluti þeirrar bjartsýni sem gert hefur vart við sig undanfarið er byggð á röngum forsendum. Þetta eru slæm tíðindi en þó ekki óvænt sökum þess að ládeyða hefur verið yfir atvinnulífinu undanfarna mánuð og gefur til kynna að botninum hafi ekki verið náð í upphafi ársins.

Þar að auki vekja þær skekkjur sem finna má í umræddum gögnum upp spurningar um áreiðanleika þeirra gagna sem liggja að baki og hvort ekki sé þörf á umfangsmeiri rýni á hagtölur frá opinberum aðilum.

Skattahækkanir óviturlegar
Þessar fregnir vekja upp áleitnar spurningar um aðgerðir hins opinbera til að efla fjárfestingu, verðmætasköpun og hagvöxt. Fjárfesting dróst saman um 4,7% á öðrum ársfjórðungi eftir að hafa dregist saman um 51% árið 2009 og 21% árið 2008. Atvinnuvegafjárfesting hefur dregist enn meira saman á þessu tímabili.

Einn af þeim þáttum sem nú eru til skoðunar enn á ný er endurskoðun skattkerfisins. Ljóst má vera að ef efla á fjárfestingu og hagvöxt á næsta ári þá er afar óviturlegt að ráðast í frekari skattahækkanir á þessum tímapunkti. Slíkar hækkanir draga úr hvata til fjárfestingar og ganga þvert gegn því sameiginlega markmiði að efla efnahagslífið hérlendis á komandi árum.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Unnu sveitarfélögin stóra vinninginn í ár?

Viðskiptaráð hefur rétt þeim sveitarfélögum sem hyggjast lækka ...
16. júl 2022

Klæðlausar Kjarafréttir

Enn og aftur eru nýju fötin sem Keisarinn fékk frá Kjarafréttum í efnisminni ...
20. okt 2022